Fram til orrustu!

Besta deildin er að fara á fullt aftur eftir hlé og komið að heimaleik hjá okkar stelpum.

Þór/KA tekur á móti Þrótti í dag og hefst leikurinn kl. 16. Fyrir leikinn munar tveimur stigum á liðunum. Þróttur er í 3. sæti deildarinnar með 21 stig úr 12 leikjum, en Þór/KA með 19 stig eftir jafn marga leiki. Þróttur hafði sigur í fyrri leik liðanna í sumar, 2-1.

Nú eru sex umferðir eftir af hefbundnu deildarkeppninni, áður en kemur að tvískiptingu þar sem annars vegar spila sex efstu liðin og hins vegar fjögur neðstu.

Einum leik er lokið í 13. umferðinni, en hér má sjá stöðuna eins og hún er fyrir leikina fjóra sem fram fara í deildinni í dag.  

Liðin hafa mæst alls 12 sinnum í efstu deild Íslandsmótsins. Þór/KA hefur oftar haft betur, unnið sjö leiki, en Þróttur fjóra. Fyrstu viðureignir þessara liða í efstu deild voru 2011.

Akureyringar!

Nú þurfum við á ykkur að halda. Það er komið að leik í Bestu deildinni eftir nokkurt hlé. Stelpurnar okkar eru klárar í baráttu frá upphafi til enda, síðasta blóðdropa, síðasta manns. Nú ríður á að fá allar hendur á dekk og styðja stelpurnar í verki með því að mæta á næsta leik og láta í okkur heyra – og alla leikina sem eftir eru. Við látum ekki berja okkur niður, við stöndum alltaf upp aftur og höldum áfram! Raddir okkar verða að heyrast inn á völlinn, út á ljósvakann, heim í stofur landsmanna, inn á skrifstofurnar, út um allt, til allra! 

Við berjumst saman, inni á vellinum, uppi í stúkunni, alls staðar, til síðasta manns.

Áfram Þór/KA!