Frítt á leik Þórs/KA á Króknum

Þór/KA fer á Krókinn og mætir liði Tindastóls í 18. umferð Bestu deildar kvenna í dag kl. 14. Frítt er á leikinn í boði VÍS.

Fyrir leiki dagsins er ljóst hvaða lið leika í efri og neðri hluta deildarinnar. Það ætti þó ekki að draga úr vilja beggja liða til að ná sér í mikilvæg stig í þessum grannaslag því öll stig skipta máli í mjög jafnri og spennandi baráttu sem fram undan er, bæði í efri og neðri hlutanum.

Að loknum 17 umferðum munar ekki nema tveimur sætum á þessum liðum, en samt sjö stigum. Þór/KA situr í 6. sæti deildarinnar með 25 stig, en Tindastóll í 8. sæti með 18 stig.

Frítt er á leikinn á Sauðárkróksvelli í dag í boði VÍS. Vonandi er það hvatning fyrir sem flest úr stuðningshópi okkar til að skella sér bæjarleið og hvetja stelpurnar. 

Að lokinni umferðinni sem spiluð er í dag verður ljóst hver röð liðanna verður í efri og neðri hlutanum og þar með hvernig leikjadagskráin verður í úrslitalotunni. Þór/KA mun mæta Val, Breiðabliki, Stjörnunni, Þrótti og FH á komandi vikum, en fyrsta umferð úrslitalotunnar er á dagskrá 1. september og sú síðasta þann 6. október. Liðin í þremur efstu sætunum eftir leikina í dag fá þrjá heimaleiki í lokalotunni, en liðin í 4.-6. sæti fá tvo heimaleiki. Inn í lokalotuna fléttast síðan Evrópuleikir hjá Val og Stjörnunni 6. og 9. september, auk landsleikja í síðari hluta septembermánaðar.

Þór/KA hefur aðeins þrisvar sinnum mætt liði Tindastóls í efstu deild Íslandsmótsins og haft sigur í öll þrjú skiptin. Fyrri leik liðanna í sumar lauk með 5-0 sigri Þórs/KA.