Frítt á völlinn í kvöld

Nú er komið að síðasta heimaleiknum fyrir tvískiptingu deildarinnar og við fáum Íslandsmeistarana í heimsókn.

Þór/KA tekur á móti Íslandsmeistaraliði Vals í kvöld. Leikurinn hefst kl. 19:15, grillið heitt við Hamar frá kl. 18:15. Frítt er á völlinn í boði VÍS. 

Frítt er á völlinn í kvöld í boði VÍS. Upphitun verður í Hamri fyrir leik, grillið heitt frá kl. 18, borgarinn er innifalinn fyrir ársmiðahafa, en borgari og drykkur til annarra kostar 1.500 krónur.

Leikur Þórs/KA og Vals er í 16. umferð Bestu deildarinnar. Fyrir leikinn er Valur með 33 stig eins og Breiðablik á toppi deildarinnar. Þór/KA er með 22 stig og situr í 5. sætinu. Öll liðin í deildinni eiga nú þrjá leiki eftir af hinni hefðbundnu 18 leikja deild, en eins og áður hefur komið fram er nú í fyrsta skipti spilað eftir nýju fyrirkomulagi þar sem deildinni verður tvískipt og spiluð einföld umferð, annars vegar sex efstu liðin og hins vegar fjögur neðstu. Sætið í efri hlutanum er ekki tryggt því núna þegar níu stig eru eftir í pottinum eru sjö stig niður í liðið í 7. sætinu, sem er Tindastóll, og átta stig í ÍBV og Keflavík. Auk baráttunnar um að vera í efri hlutanum er svo einnig fram undan jöfn og spennandi barátta á milli liðanna sem nú eru í 3.-6. sæti þar sem munar fimm stigum á 3. og 6. sætinu.

Hver leikur er því mikilvægur, hvert stig skiptir máli og stuðningur úr stúkunni getur þar skipt sköpum. Nú er kjörið tækifæri til að mæta á völlinn, fylla stúkuna og hvetja stelpurnar til sigurs gegn sterku liði gestanna.

Staðan í deildinni að loknum 15 umferðum.

Þór/KA og Valur hafa mæst 37 sinnum í efstu deild enda verið samferða í efstu deild óslitið frá 2006. Nokkuð hallar á okkar lið í árangri í innbyrðis viðureignum, Þór/KA með sjö sigra, en Valur með tuttugu. Fyrsta viðureign þessara liða í efstu deild fór fram árið 2000 og gaman að geta þess að núverandi sjúkraþjálfari Valsliðsins, Ásta Árnadóttir, spilaði þann leik með Þór/KA. Fyrri leikur Þórs/KA og Vals á þessu tímabili endaði með naumum 1-0 sigri Vals. Í fyrra unnu liðin hvort sinn leikinn, Þór/KA vann heimaleikinn í Boganum 2-1, en Valur vann 3-0 á sínum heimavelli.