Árið 2021 - tölur og áfangar

Marki Huldu Bjargar Hannesdóttur gegn Þrótti fagnað. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.
Marki Huldu Bjargar Hannesdóttur gegn Þrótti fagnað. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

 

Nú eru liðnar rúmar þrjár vikur frá því að keppni lauk í Pepsi Max-deildinni og tímabært að líta til baka yfir nokkrar tölur, fjölda leikja, leikjaáfanga og fleira. Auðvitað allt til gamans gert.

Þór/KA endaði í 6. sæti deildarinnar þetta árið, sæti ofar en í fyrra þegar mótinu var aflýst áður en því lauk. Stigin í sumar urðu 22, jafn mörg og hjá ÍBV, en markamunur okkar var tveimur mörkum betri en ÍBV.
Liðið gerði óvenju mörg jafntefli, alls sjö í deildinni, en við vitum ekki hvort þetta er met í efstu deild kvenna. Að auki var jafnt eftir venjulegan leiktíma og framlengingu í eina bikarleiknum okkar þetta árið.

Hulda Björg með flestar mínútur

Hulda Björg Hannesdóttir er eini leikmaður liðsins sem spilaði allar mínútur í öllum leikjum í deild og bikar. Það eru 18 leikir (1.440 mínútur) í deildinni og einn leikur með framlengingu (120 mínútur) í bikarkeppninni. Þessi talning er að sjálfsögðu án viðbótartíma í leikjum.

Aðeins tveir leikmenn, Karen María Sigurgeirsdóttir og Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir, komu við sögu í öllum leikjum liðsins þegar Lengjubikar og Kjarnafæðismótið eru talin með, alls 27 leikjum; fjórum í Kjarnafæðismótinu, fjórum í Lengjubikar, einum í bikar og 18 í deildinni. Hulda Björg og Saga Líf Sigurðardóttir komu við sögu í 26 leikjum á árinu.

Hulda Björg spilaði 2.354 mínútur þegar öll mótin eru tekin með, flestar mínútur allra leikmanna. Hún spilaði allar mínútur í öllum leikjunum 26 nema í leiknum gegn Fylki í Lengjubikarnum þar sem hún kom út af á 74. mínútu.

Fjórar tóku þátt í öllum 18 leikjum liðsins í deildinni í sumar. Auk Huldu Bjargar voru það Karen María Sigurgeirsdóttir, Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir og Colleen Kennedy.

Vantaði mörk

Það háði gengi liðsins nokkuð að erfiðlega gekk að skora mörk. Liðið skoraði 12 mörk í fjórum leikjum í Kjarnafæðismótinu, 10 mörk í fjórum leikjum í Lengjubikarnum, eitt mark í einum leik í bikarkeppninni og 18 mörk í 18 leikjum í deildinni.

Þór/KA fékk á sig næstfæst mörk allra liða í Pepsi Max-deildinni í sumar, eða 23. Aðeins Valur fékk á sig færri mörk, 17, þar af tvö frá Þór/KA.

Af þeim 23 mörkum sem liðið fékk á sig komu 13 frá þremur efstu liðunum, eða fjögur frá Val, fimm frá Breiðabliki og fjögur frá Þrótti.
Þór/KA fékk stig á móti öllum liðum í deildinni nema Þrótti. Eitt stig gegn Val, Breiðabliki, Stjörnunni og Selfossi, fjögur stig gegn ÍBV, Keflavík og Fylki og öll sex stigin sem í boði voru gegn Tindastóli.

Betri á útivelli

Árangur liðsins var mun betri á útivöllum en á heimavelli.
Á útivelli er liðið með þriðja besta árangur allra liða í deildinni, á eftir Val og Breiðabliki.

Fjórir sigrar komu á útivöllum (ÍBV, Tindastóll, Keflavík og Fylkir), þrjú jafntefli (Valur, Selfoss, Stjarnan) og aðeins tvö töp (Breiðablik og Þróttur).

Á heimavelli kom hins vegar aðeins einn sigur (Tindastóll), fjögur jafntefli (ÍBV, Fylkir, Breiðablik og Keflavík) og fjórir ósigrar (Selfoss, Stjarnan, Þróttur og Valur). Þór/KA var í 7. sæti yfir árangur á heimavelli.

Arna Sif best á flestum sviðum

Arna Sif Ásgrímsdóttir fyrirliði var verðlaunuð á lokahófi sem besti leikmaður liðsins, en hún var til dæmis oftast allra leikmanna í liði umferðarinnar hjá Morgunblaðinu, eða níu sinnum. Eflaust í liði ársins hjá fleiri miðlum. Hún spilaði þó aðeins 15 leiki liðsins í deildinni þar sem hún var í láni hjá Glasgow City FC í vetur og fram í maí, eftir að mótið var byrjað. Í einkunnagjöf Morgunblaðsins var Arna Sif í fimmta sæti með 15 M.

Ýmsir áfangar

Alls komu 24 leikmenn við sögu í leikjum liðsins í Pepsi Max-deildinni í sumar. Þar af voru níu leikmenn að spila sínar fyrstu mínútur í deildinni, fjórir erlendir leikmenn og fimm sem fæddar eru á bilinu 1998-2005. Engin þeirra var þó að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik þar sem þessar fimm áttu allar að baki leiki með Hömrunum.

 • Arna Kristinsdóttir var í byrjunarliði gegn ÍBV í Eyjum þann 4. maí.
 • Colleen Kennedy var í byrjunarliði gegn ÍBV í Eyjum þann 4. maí. Hún skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið í heimaleiknum gegn ÍBV þann 11. júlí.
 • Sandra Nabweteme kom inn sem varamaður gegn ÍBV í Eyjum þann 4. maí og var í fyrsta skipti í byrjunarliði gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli þann 15. maí og skoraði sitt fyrsta mark í þeim leik.
 • Miranda Smith kom inn sem varamaður gegn Selfossi í Boganum þann 11. maí og var í fyrsta skipti í byrjunarliði gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli þann 15. maí.
 • Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir kom inn sem varamaður gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli í 3. umferð þann 15. maí. Hún var í fyrsta skipti í byrjunarliði hjá Þór/KA í bikarleiknum gegn FH í Kaplakrika þann 1. júní.
 • Jakobína Hjörvarsdóttir skoraði sitt fyrsa meistaraflokksmark þegar hún kom Þór/KA í 1-0 á útvelli gegn Keflavík þann 6. júlí. Markið var sérlega glæsilegt, beint úr aukaspyrnu.
 • Sara Mjöl Jóhannsdóttir var í byrjunarliðinu í heimaleiknum gegn Fylki þann 29. júní og hélt hreinu. Sara Mjöll var reyndar ekki upphaflega í byrjunarliðinu í þessum leik, en Harpa Jóhannsdóttir meiddist í upphitun og Sara Mjöll leysti hana af hólmi.
 • Shaina Ashouri kom til okkar í júlí og spilaði sinn fyrsta leik með liðinu á heimavelli gegn Breiðabliki þann 28. júlí. Shaina spilaði allar mínúturnar í öllum sex leikjum sínum með liðinu. Hún skoraði sitt fyrsta mark hér á útivelli gegn Fylki 4. september.
 • Steingerður Snorradóttir var í byrjunarliðinu í sínum fyrsta leik í efstu deild gegn Stjörnunni á útivelli þann 6. ágúst.
 • Iðunn Rán Gunnarsdóttir kom inn á sem varamaður gegn Þrótti á útivelli 23. ágúst og var í byrjunarliðinu á heimavelli gegn Keflavík í lokaumferðinni 12. september.
 • Hulda Björg Hannesdóttir spilaði sinn 100. leik fyrir Þór/KA þegar liðið mætti Stjörnunni á útivelli þann 6. ágúst.

Að loknu móti

Á myndinni hér að neðan má sjá lista yfir alla leikmenn sem komu við sögu hjá líðinu í sumar. Taflan sýnir leikjafjölda í deild, bikarkeppni, meistarakeppni og Evrópukeppni.

Fyrst er samanlagður leikjafjöldi og síðan sundurliðiða eftir félögum hjá þeim leikmönnum sem spilað hafa með öðrum liðum hérlendis - sem eru Hamrarnir, KR, Tindastóll, Valur og Völsungur. Tólf af þeim 24 leikmönnum sem komu við sögu í leikjum sumarsins eiga einnig að baki leiki með Hömrunum.

Erlendu leikmennirnir sem komu við sögu hjá okkur í sumar eiga að baki meistaraflokksleiki í sex löndum (Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð, Finnlandi, Króatíu og Úganda), en að auki hafa þær Arna Sif og María Catarina spilað erlendis - Arna Sif í Svíþjóð, Ítalíu og Skotlandi og María í Skotlandi.