Glæsimark Andreu tryggði sigur gegn Þrótti

Andrea Mist Pálsdóttir og Margrét Árnadóttir.
Andrea Mist Pálsdóttir og Margrét Árnadóttir.

 

Þór/KA sigraði Þrótt, 2-1, í 2. riðli A-deildar Lengjubikarsins í dag. Margrét Árnadóttir og Andrea Mist Pálsdóttir skoruðu fyrir Þór/KA.

Þór/KA komst yfir á 9. mínútu þegar Saga Líf Sigurðardóttir sendi þá háan bolta inn á markteiginn, Margrét Árnadóttir tók hann í fyrsta, í slá, þaðan niður í markvörð Þróttar og í markið. Á leikskýrslu er markið skráð sem sjálfsmark markvarðar Þróttar.

Þróttarar náðu að jafna fyrir leikhlé þegar Katla Tryggvadóttir skoraði af stuttu færi eftir að boltinn féll fyrir hana við markteig. Jafnt eftir fyrri hálfleikinn, 1-1.

Glæsilegasta mark leiksins kom síðan á 71. mínútu þegar Andrea Mist Pálsdóttir fékk boltann við vítateigslínu, lagði hann fyrir sig og setti upp í markvinkilinn fjær, með vinstri.

Undir lok leiksins bar svo það til tíðinda að Sandra María Jessen kom inn á og spilaði í um tíu mínútur (að uppbótartíma meðtöldum), en þetta eru hennar fyrstu mínútur eftir barnsburðarleyfi og hennar fyrstu mínútur með Þór/KA frá 26. september 2018, þegar Þór/KA mætti Wolfsburg á útivelli í 32ja liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Sandra María spilaði í Þýskalandi frá ársbyrjun 2019 þar til hún fór í barnsburðarleyfi, en samdi síðan við Þór/KA nýlega og kom inn á undir lokin í dag.

Verðskuldaður sigur

Sigurinn var verðsluldaður og unnu leikmenn Þórs/KA vel fyrir honum með baráttu, vörðust vel og sköpuðu nokkur færi fyrir utan mörkin tvö. 

„Góð frammistaða, alltaf erfitt að spila við Þrótt,“ sagði Perry Mclachlan, annar þjálfara Þórs/KA eftir leikinn. „Stelpurnar lögðu sig virkilega vel fram að öllu leyti. Þetta er eitt skref í rétta átt, en við þurfum að vera þolinmóð og taka þetta áfram einn leik í einu!“

Viljinn og samheldnin skinu í gegn

Harpa Jóhannsdóttir átti góðan leik í markinu og kannski var hún, eins og aðrir leikmenn, að svara fyrir síðasta leik, eða eins og hún sagði sjálf í spjalli við heimasíðuritara: „Spiluðum ekki nægilega vel í síðasta leik og vorum því staðráðnar í því að gera betur í dag. Mér fannst viljinn og samheldnin skína í gegn í dag og uppskárum góð þrjú stig. Gott veganesti fyrir framhaldið!“

Harpa varði a.m.k. tvisvar frábærlega þegar leikmenn Þróttar komust í dauðafæri.

Leikskýrslan á vef KSÍ.

Mótið og leikjadagskráin á vef KSÍ.

Næsti leikur liðsins verður gegn Val á útivelli laugardaginn 12. mars. Valur hefur spilað tvo leiki í mótinu og unnið þá báða 6-0. Leikurinn í dag var þriðji leikur okkar og er liðið með sex stig, eins og Valur.