Besta deildin: Góð byrjun á mótinu, þrjú stig heim

Óskabyrjun, ekki hægt að orða það öðruvísi eftir 4-1 sigur á útivelli í fyrsta leik liðsins í Bestu deildinni.

Fjögur mörk, fjórar sem skoruðu og þrjú stig í pokann. Löngu undirbúningstímabili loksins lokið og leikmenn eins og kýrnar þegar þær koma út á vorin, geisla af leikgleði og njóta þess að komast á grasið, jafnvel gervigrasið. 

Víkingur - Þór/KA 1-4 (0-2)

  • 0-1 - Bríet Fjóla Bjarnadóttir (31'). Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir.
  • 0-2 - Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir (37'). Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir.
  • 0-3 - Karen María Sigurgeirsdóttir (53'). Stoðsending: Sandra María Jessen.
  • 1-3 - Bergdís Sveinsdóttir (70'). Stoðsending: Linda Líf Boama.
  • 1-4 - Hildur Anna Birgisdóttir (86'). Stoðsending: Margrét Árnadóttir.
  • Leikskýrslan
  • Besta deildin

Tölur og fróðleikur

  • - Bríet Fjóla Bjarnadóttir (2010) var í fyrsta skipti í byrjunarliði Þórs/KA efstu deild, en áður hafði hún komið inn á sem varamaður í 15 leikjum í Bestu deildinni. Bríet Fjóla var í fyrsta skipti í byrjunarliði hjá Þór/KA í KSÍ-leik gegn Fram í Lengjubikarnum 23. febrúar. 
  • - Bríet Fjóla var ekki aðeins í byrjunarliði í Bestu deildinni í fyrsta skipti heldur skoraði hún einnig fyrsta markið sitt í Bestu deildinni þegar hún kom Þór/KA í forystu á 31. mínútu. Að leik loknum fór hún svo að sjálfsögðu í fyrsta sjónvarpsviðtalið sitt hjá Stöð 2 sport.
  • 1 - Jessica Berlin spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild á Íslandi, en þetta var hennar fimmti leikur með Þór/KA.
    1 - Eva Rut Ásþórsdóttir spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild fyrir Þór/KA, en alls ekki sinn fyrsta leik í efstu deild því þeir eru orðnir 55 samtals. Eva Rut náði þó ekki að spila nema rétt um hálfan fyrri hálfleikinn, en þá var hún borin meidd af velli. Hún var hins vegar mætt aftur út á völl þegar flautað var til leiksloka og hoppaði á öðrum fæti til liðsfélaganna og fagnaði sigrinum með þeim. Leikurinn í gær var hennar annar mótsleikur með Þór/KA og fyrsti leikur í byrjunarliði. Hún kom inn á sem varamaður í úrslitaleik Lengjubikarsins 28. mars.
  • - Þór/KA er í 2. sæti Bestu deildarinnar eftir fyrstu umferðina. Fjögur lið unnu sína leiki og eru með þrjú stig, en raðast eftir markatölunni. Breiðablik er með 6-1 á toppnum og Þór/KA með 4-1 í 2. sætinu. 
  • 4 - Eins og sjá má á markalistanum hér að ofan skiptust mörkin fjögur sem Þór/KA skoraði í leiknum á fjóra leikmenn. Þetta er þveröfugt við byrjunina á mótinu í fyrra þegar Sandra María Jessen skoraði átta fyrstu mörk liðsins í Bestu deildinni. Sandra María var svo reyndar ekki á meðal markaskorara í leiknu, en átti eina stoðsendingu.
  • Jóhann Kristinn Gunnarsson er að hefja sitt áttunda tímabil með Þór/KA í efstu deild.
  • - Bæði lið voru með átta varamenn á leikskýrslu, en reglum um fjölda varamanna hefur verið breytt og mega þeir núna vera níu. Bæði lið skiptu þremur varamönnum inn á í leiknum.
  • 20 - Leikurinn í gærkvöld markar upphafið á 20. tímabilinu í röð sem Þór/KA spilar í efstu deild. Síðast þegar Þór/KA spilaði ekki í efstu deild var árið 2005. Á meðal þess sem gerðist á því ári var að gríska söngkonan Helena Paparizou vann Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva með laginu „My Number One“.
  • 19,5 - Meðalaldur varamanna liðsins í leiknum í gær var 19,5 ár, reiknað út frá þeim aldri sem leikmenn ná á þessu ári. 
  • 20 - Hildur Anna Birgisdóttir spilaði sinn 20. leik í efstu deild og hélt upp á það með marki.
  • 24,1 - Meðalaldur byrjunarliðsins í gær var 24,1 ár, reiknað út frá þeim aldri sem leikmenn ná á þessu ári.
  • 60 - Agnes Birta Stefánsdóttir spilaði sinn 60. leik í efstu deild.
  • 150 - Karen María Sigurgeirsdóttir (2001) spilaði sinn 150. leik fyrir Þór/KA og sinn 120. leik í A-deild samanlagt fyrir Þór/KA og Breiðablik. Karen María á nú að baki 120 leiki í A-deild, 11 í B-deild, 11 í bikarkeppni, 47 í deildarbikar, einn í meistarakeppni og 12 Evrópuleiki. Hún hefur spilað fyrir Þór/KA, Hamrana og Breiðablik.
  • 160 - Hulda Ósk Jónsdóttir spilaði sinn 160. leik í efstu deild með Þór/KA, en auk þess á hún 16 leiki með KR í efstu deild og því samanlagt 176 leiki.
  • 300 - Sandra María Jessen spilaði, eftir því sem næst verður komist, sinn 300. keppnisleik í meistaraflokki með félagsliði. Þar af eru 252 með Þór/KA í deild, bikar, deildabikar, meistarakeppni og Evrópukeppni og 48 leikir samanlagt með Bayer 04 Leverkusen í Þýskalandi og Slavia Prag í Tékklandi.