Góður sigur í Garðabænum

Markaskorarar í 4-1 sigri á Stjörnunni: Hulda Björg Hannesdóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir, Margrét Árna…
Markaskorarar í 4-1 sigri á Stjörnunni: Hulda Björg Hannesdóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir, Margrét Árnadóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir.

 

Þór/KA sigraði Stjörnuna í Garðabænum í fyrsta leik sínum í Faxaflóamótinu með fjórum mörkum gegn einu. Næsti leikur verður í Mosfellsbænum í hádeginu á sunnudag.

Hulda Björg Hannesdóttir skoraði fyrsta markið á 15. mínútu eftir hornspyrnu frá Andreu Mist Pálsdóttur. Þór/KA með 1-0 forystu eftir fyrri hálfleikinn.

Kröftug byrjun í seinni hálfleik

Seinni hálfleikurnn hófst síðan með látum og eftir um sjö mínútna leik var forystan orðin þrjú mörk. Fyrst skoraði Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir á 49. mínútu eftir sendingu frá Ísfold Marý Sigtryggsdóttur og síðan Margrét Árnadóttir eftir sendingu Huldu Óskar Jónsdóttur.

Það var síðan systir Margrétar, Amalía Árnadóttir sem átti stoðsendingu í fjórða markinu, var reyndar í ágætis færi sjálf, en renndi boltanum á Huldu Ósk Jónsdóttur sem skoraði auðveldlega. 

Aðeins mínútu eftir fjórða markið okkar náði Snædís María Jörundsdóttir að skora eina mark Sjötnunnar. 

Úrslitin: Stjarnan - Þór/KA 1-4 (0-1).

Leikskýrslan á vef KSÍ.

Góð liðsframmistaða

Þjálfarar liðsins, Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson, voru ánægðir með leikinn og liðið í heild. Aðspurðir um leikinn í kvöld og frammistöðu liðsins sögðu þeir eiginlega báðir samtímis: „Þetta var bara frábær liðsframmistaða hjá okkur í dag. Það er erfitt að taka einhverja ein út úr og segja að hafi verið maður leiksins. Liðið í heild skilaði sínu mjög vel í þessum leik.“

Ef taka ætti einhvern hluta liðsins eða leiksins út úr væri það líklega helst varnarframmistaðan með þær Huldu Björg, Huldu Karen og Iðunni Rán öruggar í öllum sínum aðgerðum - annars liðið allt með fína frammistöðu og skemmtileg tilbreyting að vera að spila keppnisleiki sunnan heiða í janúarmánuði. 

Næsti leikur liðsins verður gegn Aftureldingu í Mosfellsbænum á sunnudag, 16. janúar, kl. 12:00.

Áður í Faxaflóamótinu

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Þór/KA tekur þátt í Faxaflóamótinu. Snemma árs 2006 tók liðið þátt í þessu móti, en náði þó ekki að klára sína leiki, spilaði aðeins þrjá leiki af fimm. Faxaflóamótið 2006 má sjá á vef KSÍ.