Gott gengi hjá 2. flokki U20

Fyrir nokkrum dögum var farið hér yfir stöðu mála hjá liðunum okkar þremur í 3. flokki. Nú er komið að 2. flokki U20 þar sem við eigum tvö lið sem bæði hafa staðið sig með prýði í sumar.

Eins og í umfjölluninni um stöðuna hjá liðunum okkar í 3. flokki er rétt að minna á að þó við teljum hér upp þær sem hafa skorað mest er ekki með því verið að gera minna úr hlut annarra. Það er liðið og leikmennirnir allir sem skipta máli og eiga þátt í mörkum og sigrum. Því miður höfum við ekki upplýsingar handbærar um stoðsendingar í öllum leikjum, en þær skipta auðvitað máli líka, eins og mörkin. 

2. flokkur B-deild U20 – riðill 2

B-deild Íslandsmótsins í 2. flokki U20 er skipt í tvo riðla. Sjö lið hófu keppni í riðli 2, en átta lið í riðli 1. Því miður hefur svo eitt liðið í okkar riðli, Víkingur2, dregið sig úr keppni. Okkar stelpur höfðu áður mætt liði Víkings og unnið 9-3 sigur á útivelli. Þau stig telja hins vegar ekki með í mótinu eftir að Víkingur hætti keppni, þó svo leikurinn sé enn skráður á leikjalista deildarinnar. Það eru því aðeins sex lið eftir í okkar riðli sem spila tvöfalda umferð, samtals tíu leiki á lið.

Þór/KA/Völsungur hefur lokið sjö leikjum, fyrir utan leikinn sem telur ekki, unnið þrjá, gert eitt jafnteli og tapað þremur. Þegar þetta er skrifað er liðið í 3. sæti riðilsins með tíu stig, en liðin fyrir ofan hafa leikið tveimur leikjum minna, Grótta/KR er í efsta sætinu með 15 stig og Keflavík í 2. sæti með 12 stig. Þór/KA/Völsungur vann einmitt Keflavík í Keflavík um helgina, 5-1. 

Nokkuð langt er í næsta leik hjá þessu liði, en þær mæta efsta liði riðilsins, Gróttu/KR, á heimavelli sunnudaginn 27. ágúst. Íslandsmóti B-liða lýkur með úrslitakeppni þar sem tvö efstu liðin úr hvorum riðli mætast í undanúrslitum. Gert er ráð fyrir að úrslitakeppnin verði í síðari hluta september.

Leikirnir sem eftir eru: Grótta/KR (H), FHL (Ú), Fylkir (H).

Alls hafa 37 leikmenn komið við sögu í leikjunum átta í sumar og af þeim hafa 15 skorað mark eða mörk. Sjö af þessum 37 leikmönnum koma úr 3. flokki.

2. flokkur A-deild U20

Lið Þórs/KA/Völsungs í A-deild 2. flokks U20 er langefst í deildinni, hefur unnið alla sína leiki til þessa. Sjö lið eru í A-deildinni og spila tvöfalda umferð, samtals 12 leiki á lið. Okkar stelpur hafa lokið sjö leikjum og unnið þá alla, eru með markatöluna 47-11. Þór/KA/Völsungur er því með 21 stig, en næstu lið eru Víkingur með 15 stig og Selfoss með 12 stig.

Á lista yfir markahæstu leikmenn deildarinnar eru fjórar úr okkar liði á meðal fimm efstu. Emelía Ósk Krüger hefur skorað átta mörk og Krista Dís Kristinsdóttir sjö. Una Móeiður Hlynsdóttir og Bríet Jóhannsdóttir koma svo jafnar í 4.-5. sæti með fimm mörk hvor. Í þeim sjö leikjum sem lokið er hafa 15 leikmenn skorað mark eða mörk.

Staða liðsins í deildinni er sem sagt mjög góð. Liðið hefur skorað meira en tvöfalt fleiri mörk en næstu lið á eftir. Það má eiginlega alltaf búast við markaveislu hjá þessu liði, en það hefur mest skorað 12 mörk í einum leik og minnst þrjú mörk.

Það sýnir kannski líka breiddina í leikmannahópum okkar í 2. og 3. flokk, að alls hafa 32 leikmenn komið við sögu í leikjunum í A-deild 2. flokks U20, þar af eru níu sem koma úr 3. flokki og tvær úr 4. flokki.

Leikir sem liðið á eftir: Breiðablik/Augnablik (H), ÍBV (Ú), Víkingur (H), HK (H), Breiðablik/Augnablik (Ú).

Bikarkeppni 2. fl. U20

Þór/KA/Völsungur mætti liði Tindastóls/KHF í 16 liða úrslitum á Sauðárkróki 18. júní og vann þar öruggan 7-0 sigur. Leikur liðsins í átta liða úrslitum gegn Fylki hefði átt að fara fram í dag, en hefur verið frestað að beiðni Fylkis.