Karfan er tóm.
Stjórn Þórs/KA hefur samið við Höllu Bríeti Kristjánsdóttur til næstu tveggja ára.
Halla Bríet (2008) er 17 ára og kemur frá Völsungi á Húsavík þar sem hún hefur spilað allan sinn feril. Þrátt fyrir ungan aldur á hún að baki fjögur tímabil með meistaraflokki Völsungs og samtals 91 leik meistaraflokksleik í KSÍ-mótum, 2. deild, bikarkeppni og deildabikar, þar sem hún hefur skorað 48 mörk. Hún hefur skorað 37 mörk í 63 leikjum með Völsungi í 2. deildinni.
Hér er á ferðinni bráðefnilegur leikmaður sem félagið fagnar að fá í sínar raðir enda mun hún klárlega styrkja hópinn okkar til framtíðar. Halla Bríet spilar aðallega sem kantmaður, er fljót og öflug og með mikla reynslu í meistaraflokki miðað við aldur. Hún er ekki ókunnug félaginu okkar því hún á einnig að baki leiki með sameiginlegu liði U20 og hefur æft reglulega með Þór/KA að undanförnu. Halla Bríet var nýverið valin í æfingahóp U19 landsliðs Íslands sem kom saman til æfinga fyrr í haust áður en lokahópur var valinn fyrir undankeppni EM.
Stjórn Þórs/KA fagnar því að ungar og efnilegar knattspyrnukonur á Norðurlandi velji að taka mikilvæg skref á ferli sínum með því að ganga til liðs við Þór/KA. Húsvíkingar eiga sér vísan stað í hjarta þeirra sem styðja og starfa fyrir Þór/KA, ekki að ástæðulausu.
Aðalsteinn Jóhann Friðriksson, þjálfari Þórs/KA, er ánægður með að fá Höllu Bríeti inn í hópinn sem hann hefur nýverið tekið við hjá félaginu. „Ég fagna því að Halla sé að koma í Þór/KA. Ég þekki hana mjög vel eftir að hafa þjálfað hana hjá Völsungi og hlakka ég mikið til að sjá hana taka næstu skref á stærra sviði með okkur í Þór/KA.“
Velkomin í Þór/KA, Halla Bríet.