Hulda Björg Hannesdóttir valin íþróttakona Þórs 2025

Hulda Björg Hannesdóttir, íþróttakona Þórs 2025, ásamt Ragnari Sverrissyni, sem er frumkvöðull að va…
Hulda Björg Hannesdóttir, íþróttakona Þórs 2025, ásamt Ragnari Sverrissyni, sem er frumkvöðull að valinu og gefandi verðlaunagripa í nafni JMJ.

Hulda Björg Hannesdóttir var valin íþróttakona Þórs árið 2025. Kjörinu var að venju lýst í hófi í Hamri á þrettándanum.

Val á íþróttafólki Þórs fer þannig fram að deildir félagsins tilnefna íþróttafólk, karl og konu, úr sínum röðum og aðalstjórn félagsins kýs síðan íþróttakonu og íþróttakarl félagsins. 

Hulda Björg er sjöunda knattspyrnukonan úr röðum Þórs/KA sem hlýtur þennan titil, en samtals hafa knattspyrnukonur úr Þór/KA 15 sinnum orðið hlutskarpastar og annaðhvort hlotið titilinn íþróttamaður eða íþróttakona Þórs. Frá og með árinu 2014 hefur félagið valið bæði íþróttakonu og íþróttakarl úr sínum röðum, en áður var einungis valinn einn einstaklingur sem hlaut titilinn íþróttamaður Þórs.

Fjórum sinnum hlutu fulltrúar Þórs/KA útnefningu sem íþróttamaður Þórs fyrir tvískiptinguna, en frá því að valinu var tvískipt hafa Þór/KA-konur alltaf verið kjörnar íþróttakonur Þórs nema í heimsfaraldrinum þegar félagið útnefndi sjálfboðaliðann í stað þess að velja tiltekið íþróttafólk. Í eitt skipti deildi Sandra María Jessen titlinum með körfuknattleikskonunni Maddie Sutton, árið 2023.

Í tilnefningu félagsins fyrir val aðalstjórnar Þórs á íþróttakonu félagsins segir:

Hulda Björg hefur verið lykilmaður í meistaraflokki Þórs/KA undanfarin ár. 2025 spilaði hún alla leiki liðsins í Bestu deildinni, Mjólkurbikarnum og Lengjubikarnum, alls 30 leiki. Hún tók við fyrirliðastöðunni síðsumars og leiddi liðið á erfiðum og spennuþrungnum lokaspretti Íslandsmótsins þar sem hún hjálpaði liðinu að tryggja áframhaldandi veru í deild þeirra bestu.

Hulda Björg er ósérhlífin og setur liðið alltaf í fyrsta sæti. Hún leiðir liðið með krafti og dugnaði og er öðrum hvatning innan sem utan vallar. Hulda Björg á að baki 238 leiki með meistaraflokki Þórs/KA í KSÍ-mótum og Meistaradeild Evrópu, þar af eru 169 í efstu deild og fimm Evrópuleikir.

Hulda Björg ásamt foreldrum sínum, Dóru Sif Sigtryggsdóttur og Hannesi Arnari Gunnarssyni.

Sjö Þór/KA-konur kjörnar 15 sinnum

Íþróttamaður eða íþróttakona Þórs hefur oft áður verið valin úr röðum Þórs/KA. Knattspyrnukona úr Þór/KA (Þór/KA/KS) var fyrst valin íþróttamaður Þórs árið 2002 þegar Ásta Árnadóttir varð fyrir valinu. Samtals hafa sjö úr Þór/KA hlotið titilinn íþróttamaður eða íþróttakona Þórs í 15 skipti. Arna Sif Ásgrímsdóttir hefur oftast verið valin, fimm sinnum. Fimm sinnum hefur síðan okkar fulltrúi verið valin íþróttakona Akureyar. 

Knattspyrnukonur úr Þór/KA hafa fjórum sinnum orðið hlutskarpastar í kjörinu á íþróttafólki eða íþróttakonu Akureyrar.

Íþróttakonur Þórs úr röðum Þórs/KA:

Íþróttakonur Akureyrar úr röðum Þórs/KA:

  • Sandra María Jessen (2023, 2024)
  • Stephany Mayor (2017)
  • Arna Sif Ásgrímsdóttir (2012)
  • Rakel Hönnudóttir (2008)