Hulda Ósk Jónsdóttir undirritar nýjan samning

Hulda Ósk Jónsdóttir (1997) hefur undirritað nýjan samning við stjórn Þórs/KA og verður áfram í herbúðum félagsins næstu tvö árin hið minnsta. 

Ef til vill er óþarfi að kynna Huldu Ósk fyrir stuðningsfólki okkar enda er hún á sínu 10. tímabili með Þór/KA og 14. ári samanlagt í meistaraflokki. Hún hefur nú ákveðið að bæta að minnsta kosti tveimur tímabilum við þennan feril með undirritun nýs samnings sem gildir út tímabilið 2027. Hulda Ósk á að baki 258 leiki með Þór/KA í Íslandsmóti, bikarkeppni, deildabikarkeppni, meistarakeppni KSÍ og Meistaradeild Evrópu. Leikirnir í efstu deild eru samanlagt 189, þar af 173 með Þór/KA og 16 með KR. 

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, er ánægður með að hafa Huldu Ósk áfram í okkar röðum. 

„Það er frábært fyrir okkur í Þór/KA að Hulda Ósk skrifi undir nýjan samning. Hulda er einn af þessum leikmönnum sem hefur varðað leið Þór/KA í fjöldamörg ár. Ólíkindatól með boltann og gefur liðinu alltaf einhverja spennandi kosti í sókninni. Gríðarleg reynsla, hæfileikar og frábær karakter sem á klárlega eftir að hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum á næstunni,“ segir Jóhann Kristinn um Huldu Ósk.

Langur meistaraflokksferill

Hulda Ósk hefur nánast allan sinn feril spilað á hægri kantinum þaðan sem hún hefur lagt upp ófá mörkin fyrir samherja sína með því ýmist að tæta sig í gegnum varnir andstæðingana eða koma með óvæntar og frábærar fyrirgjafir á samherjana. Í 316 meistaraflokksleikjum hefur hún svo einnig sjálf skorað 59 mörk.

Hulda Ósk hóf meistaraflokksferilinn með uppeldisfélaginu, Völsungi á Húsavík, sumarið 2012 og spilaði fyrir Völsung í 1. deildinni 2012-2013. Eftir stutta viðkomu hjá Þór/KA og fimm leiki í Lengjubikarnum snemma árs 2013 snéri hún aftur til baka í Völsung. Þaðan fór hún síðan í KR og tók tvö tímabil með Vesturbæjarliðinu, 2014 í 1. deild og 2015 í Pepsi-deildinni. Hún snéri svo aftur til Akureyrar og hóf að leika með Þór/KA í ársbyrjun 2016. Hér hefur hún verið síðan þá ef frá er talinn einn vetur með háskólaliði Notre Dame í Bandaríkjunum. Hulda Ósk er því á sínu 10. tímabili með Þór/KA og 14. tímabili samanlagt í meistaraflokki.

Leikurinn gegn Wolfsburg og markið gegn Stjörnunni í uppáhaldi

Hulda Ósk var beðin um að nefna uppáhaldsleik eða upplifun með Þór/KA og uppáhaldsmark:

Uppáhaldsleikur eða -upplifun
Uppáhaldsmark

Hér má sjá markið umrædda sem Hulda Ósk nefnir, ásamt reyndar öðrum mörkum liðsins sumarið 2017.

  • Fyrsta meistaraflokksleikinn spilaði Hulda Ósk á Húsavíkurvelli 21. júlí 2012 þegar Völsungur mætti Grindavík í B-riðli 1. deildar. Á þeim tíma var 2. deild kvenna ekki til heldur var 1. deildinni skipt í riðla.
  • Fyrsta markið í meistaraflokki skoraði hún á Torfnesvelli á Ísafirði í 4-0 sigri Völsungs á BÍ/Bolungarvík 13. ágúst 2012.
  • Fyrsta leikinn með Þór/KA spilaði Hulda Ósk 2. mars 2013 gegn Val í Lengjubikarnum.
  • Hulda Ósk var í fyrsta skipti í byrjunarliði hjá Þór/KA í 2-0 sigri á Selfyssingum í Boganum 19. mars 2016.
  • Fyrsta markið með Þór/KA skoraði Hulda Ósk í 6-0 sigri á Grindvíkingum 11. júní 2016 í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar.

Leikir/mörk
Huldu Óskar
eftir árum

 

Íslandsmót

 

Bikarkeppni

2025 14 2
2024 23 3
2023 23 1
2022 15 2
2021 12 1
2020 15 2
2019 17 3
2018 18 1
2017 18 2
2016 18 3
2015 16 2
2014 16 4
2013 11 1
2012 5  
Samtals 221 27
  • 2024 - 11 stoðsendingar - Hulda Ósk var verðlaunuð fyrir flestar stoðsendingar í Bestu deildinni 2024.
  • Kollubikarinn - Hulda Ósk fékk Kollubikarinn hjá Þór/KA 2024, en hann er veittur í minningu Kolbrúnar Jónsdóttur - sjá hér.
  • Nám og fótbolti í Notre Dame - Síðsumars 2021 hélt Hulda Ósk utan til náms og til að spila knattspyrnu með háskólaliði Notre Dame háskólans í Boston. Hún lék því aðeins til júlíloka með Þór/KA. Hún var því ekki heldur með liðinu í Lengjubikarnum og fyrstu þremur umferðum Bestu deildarinnar 2022.
  • Tvö ár í Vesturbænum - Hulda Ósk spilaði fyrir KR í 1. deildinni 2014 og Pepsi-deildinni 2015, samtals 38 leiki í Íslandsmóti og bikarkeppni.
  • Aðaldælingur í Völsungi - Hulda Ósk er fædd og uppalin í Þingeyjarsýslunni, hóf ferilinn í yngri flokkum með Völsungi á Húsavík og spilaði fyrir félagið í 1. deildinni 2012 og 2013, samtals 17 leiki í Íslandsmóti og bikarkeppni.
  • Auk leikja í Íslandsmóti og bikarkeppni hefur Hulda Ósk spilað hátt í 60 leiki í deildabikarkeppnum, tvo í Meistarakeppni KSÍ og fimm leiki í Meistaradeild Evrópu.