Hulda Ósk verðlaunuð fyrir 200 leikja áfanga með Þór/KA

Hulda Ósk Jónsdóttir í leikjum með Þór/KA. Myndir: Þórir Ó. Tryggvason (úr leikjum) og Skapti Hallgr…
Hulda Ósk Jónsdóttir í leikjum með Þór/KA. Myndir: Þórir Ó. Tryggvason (úr leikjum) og Skapti Hallgrímsson (verðlaun).
- - -

Það hefur ekki farið mikið fyrir því í fréttum hér á vef félagsins, en nokkuð er síðan Hulda Ósk Jónsdóttir spilaði sinn 200. leik fyrir Þór/KA. Samtals er hún komin í 300 leiki í meistaraflokki fyrir Völsung, KR og Þór/KA. Þessi talning miðar við leiki í KSÍ-mótum, þ.e. Íslandsmót, bikarkeppni, deildarbikar og meistarakeppni, auk Evrópuleikja.

Hulda Ósk hóf meistaraflokksferilinn með uppeldisfélaginu, Völsungi á Húsavík, þar sem hún spilaði tvö tímabil með meistaraflokki, 2012 og 2013. 

  • Fyrsta meistaraflokksleikinn spilaði Hulda Ósk á Húsavíkurvelli 21. júlí 2012 þegar Völsungur mætti Grindavík í B-riðli 1. deildar. Á þeim tíma var 2. deild kvenna ekki til heldur var 1. deildinni skipt í riðla.
  • Fyrsta markið í meistaraflokki skoraði hún á Torfnesvelli á Ísafirði í 4-0 sigri Völsungs á BÍ/Bolungarvík 13. ágúst 2012.

Hulda Ósk spilaði 17 leiki í deild og bikar með Völsungi 2012 og 2013. Eftir það lá leiðin til Akureyrar - í skurðinn eins og Þingeyingar sumir kalla Eyjafjörðinn - þar sem Hulda Ósk spilaði fimm leiki með Þór/KA í Lengjubikarnum. Hún snéri aftur heim til Húsavíkur og lék með Völsungi um sumarið, en í framhaldinu lá leiðin suður til Reykjavíkur þar sem hún gekk í raðir KR. Hún spilaði samtals 38 leiki með KR á árunum 2014 og 2015 í Pepsi-deildinni, 1. deildinni og Borgunarbikarnum, auk þriggja leikja í Reykjavíkurmótinu. 

Eftir dvölina í Vesturbæ Reykjavíkur kom Hulda Ósk aftur norður og hefur spilað sleitulaust með Þór/KA frá því í apríl 2016 til dagsins í dag, ef undan er skilinn einn vetur þegar hún stundaði nám við hinn virta háskóla Notre Dame í Bandaríkjunum þar sem hún spilaði að sjálfsögðu fótbolta einnig. Hún missti af fyrstu leikjum tímabilsins það ár vegna veru sinnar vestanhafs.

  • Fyrsta leikinn með Þór/KA spilaði Hulda Ósk 2. mars 2013 gegn Val í Lengjubikarnum.
  • Hulda Ósk var í fyrsta skipti í byrjunarliði hjá Þór/KA í 2-0 sigri á Selfyssingum í Boganum 19. mars 2016.
  • Fyrsta markið með Þór/KA skoraði Hulda Ósk í 6-0 sigri á Grindvíkingum 11. júní 2016 í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar.

Hulda Ósk er sem sagt að hefja sitt 14. tímabil í meistaraflokki og 10. tímabilið með Þór/KA. 

Þar sem nokkuð er síðan Hulda Ósk spilaði 200. leik sinn fyrir Þór/KA heldur talningin auðvitað áfram. Hún er nú komin í 300 leiki í meistaraflokki samtals með Völsungi, KR og Þór/KA. Þar af eru 242 leikir fyrir Þór/KA. Hér eru sem fyrr taldir KSÍ leikir í deildakeppni, bikarkeppni, deildabikar, meistarakeppni KSÍ og Evrópukeppni.