Karfan er tóm.
Það hefur ekki farið mikið fyrir því í fréttum hér á vef félagsins, en nokkuð er síðan Hulda Ósk Jónsdóttir spilaði sinn 200. leik fyrir Þór/KA. Samtals er hún komin í 300 leiki í meistaraflokki fyrir Völsung, KR og Þór/KA. Þessi talning miðar við leiki í KSÍ-mótum, þ.e. Íslandsmót, bikarkeppni, deildarbikar og meistarakeppni, auk Evrópuleikja.
Hulda Ósk hóf meistaraflokksferilinn með uppeldisfélaginu, Völsungi á Húsavík, þar sem hún spilaði tvö tímabil með meistaraflokki, 2012 og 2013.
Hulda Ósk spilaði 17 leiki í deild og bikar með Völsungi 2012 og 2013. Eftir það lá leiðin til Akureyrar - í skurðinn eins og Þingeyingar sumir kalla Eyjafjörðinn - þar sem Hulda Ósk spilaði fimm leiki með Þór/KA í Lengjubikarnum. Hún snéri aftur heim til Húsavíkur og lék með Völsungi um sumarið, en í framhaldinu lá leiðin suður til Reykjavíkur þar sem hún gekk í raðir KR. Hún spilaði samtals 38 leiki með KR á árunum 2014 og 2015 í Pepsi-deildinni, 1. deildinni og Borgunarbikarnum, auk þriggja leikja í Reykjavíkurmótinu.
Eftir dvölina í Vesturbæ Reykjavíkur kom Hulda Ósk aftur norður og hefur spilað sleitulaust með Þór/KA frá því í apríl 2016 til dagsins í dag, ef undan er skilinn einn vetur þegar hún stundaði nám við hinn virta háskóla Notre Dame í Bandaríkjunum þar sem hún spilaði að sjálfsögðu fótbolta einnig. Hún missti af fyrstu leikjum tímabilsins það ár vegna veru sinnar vestanhafs.
Hulda Ósk er sem sagt að hefja sitt 14. tímabil í meistaraflokki og 10. tímabilið með Þór/KA.
Þar sem nokkuð er síðan Hulda Ósk spilaði 200. leik sinn fyrir Þór/KA heldur talningin auðvitað áfram. Hún er nú komin í 300 leiki í meistaraflokki samtals með Völsungi, KR og Þór/KA. Þar af eru 242 leikir fyrir Þór/KA. Hér eru sem fyrr taldir KSÍ leikir í deildakeppni, bikarkeppni, deildabikar, meistarakeppni KSÍ og Evrópukeppni.