Ísfold Marý með U19

Ísfold Marý Sigtryggsdóttir í lokaleik Íslandsmótsins í sumar, gegn Keflavík. Mynd: Egill Bjarni Fri…
Ísfold Marý Sigtryggsdóttir í lokaleik Íslandsmótsins í sumar, gegn Keflavík. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

 

Landslið Íslands skipað leikmönnum 19 ára og yngri kom saman til æfinga 19.-21. nóvember. Þar áttum við einn fulltrúa, Ísfold Marý Sigtryggsdóttur (2004).

Hópurinn kom svo aftur saman um nýliðna helgi og þá bættist fyrrverandi leikmaður okkar í hópinn, María Catharina Ólafsdóttir Gros, nú leikmaður Celtic.

Upphaflega var ætlunin að liðið spilaði tvo æfingaleiki við U19 landslið Svía, en af þeim leikjum varð ekki þar sem Svíarnir hættu við Íslandsheimsókn vegan fjölda covid-19 smita hér á landi.

Í stað þess var settur á leikur gegn meistaraflokksliði Breiðabliks og fór sá leikur 3-1 fyrir U19 landsliðið.

Ísfold Marý segir leikinn gegn Breiðabliki hafa gengið vel, en þetta eru fyrstu skref hennar með U19 landsliðinu. 

„Mér fannst skemmtilegt að vera hluti af þessum hóp, það var alltaf markmið og það verður spennandi að sjá hvað er framundan," sagði Ísfold Marý þegar heimasíðuritari heyrði í henni eftir heimkomuna.