Íslandsmeistarar í 3. flokki!

Íslandsmeistararnir að leik loknum í Hafnarfirði í dag. 

Fremri röð frá vinstri: Helga Dís Hafste…
Íslandsmeistararnir að leik loknum í Hafnarfirði í dag.

Fremri röð frá vinstri: Helga Dís Hafsteinsdóttir, Kolfinna Eik Elínardóttir, Tinna Sverrisdóttir, Karlotta Björk Andradóttir, Hildur Anna Birgisdóttir og Arna Rut Orradóttir.

Aftari röð frá vinstri: Pétur Heiðar Kristjánsson, Krista Dís Kristinsdóttir, Emelía Ósk Kruger, Bríet Jóhannsdóttir, Amalía Árnadóttir, Anna Guðný Sveinsdóttir, Ólína Helga Sigþórsdóttir, Júlía Margrét Sveinsdóttir og Birkir Hermann Björgvinsson. Mynd: Erla Ormarsdóttir

 

Stelpurnar í Þór/KA tryggðu sér í dag Íslandsmeistaratitil með 4-1 sigri á Haukum/KÁ í Hafnarfirði. Þór/KA2 vann B-riðilinn eftir 2-2 jafntefli í Eyjum.

Segja má að dramatíkin hafi tekið völdin í dag þegar Þór/KA spilaði lokaleik sinn í A-riðli Íslandsmótsins í 3. flokki. Þór/KA mætti Haukum/KÁ í Hafnarfirði og þurfti að vinna leikinn, auk þess að treysta á að Stjarnan/Álftanes næði að minnsta kosti jafntefli gegn FH/ÍH. Þetta dæmi gekk fullkomlega upp. Stjarnan/Álftanes og FH/ÍH gerðu 3-3 jafntefli á sama tíma og Þór/KA vann sinn leik í Hafnarfirðinum.

Lokastaðan í A-riðli er því þannig að Þór/KA vinnur Íslandsmeistaratitilinn, með 18 stig, en FH/ÍH endar í 2. sæti með 17 stig.

Áhugaverð staða sem kom upp fyrir leikinn

Það sem er áhugavert við stöðuna fyrir þessa leiki og svo hvernig mótið endar er að þetta nýja keppnisfyrirkomulag bauð upp á að lið sem hafði fyrir leikina í dag unnið 17 leiki, gert eitt jafntefli og tapað einum leik gat mögulega misst af titlinum og lið sem hafði unnið tíu leiki, gert eitt jafntefli og tapað sjö leikjum hirt hann. Þór/KA hafði nefnilega unnið fyrstu tvær loturnar með nokkrum yfirburðum og ekki tapað leik – en umbunin fyrir það var einungis fleiri heimaleikir í lotu 2 og 3. Í þriðju lotu hófu öll liðin leik með ekkert stig og þegar Þór/KA mætti FH/ÍH í Hafnarfirðinum höfðu Hafnfirðingar sigur. Þetta eina tap varð næstum til þess að okkar stelpur misstu af titlinum, sem hefði verið mjög sárt í ljósi þess að hafa aðeins tapað þessum eina leik. En fótboltinn er óútreiknanlegur, Þór/KA er Íslandsmeistari í 3. flokki! Þess er skemmst að minnast að liðið varð einnig bikarmeistari á dögunum – Þór/KA vinnur tvöfalt í 3. flokki.

A-riðill - lota 1 - á vef KSÍ.
A-riðill - lota 2 - á vef KSÍ.
A-riðill - lota 3 - á vef KSÍ (athugið að þegar fréttin er skrifuð er ekki búið að færa inn úrslitin í lokaleikjunum).

Þór/KA2 deildarmeistarar og fara upp í A-riðil

Ekki nóg með að A1-liðið hafi tryggt sér titilinn í dag heldur er A2-liðið einnig búið að tryggja sér sæti í A-riðlinum í fyrstu lotu næsta árs, því stelpurnar í Þór/KA2 gerðu sér lítið fyrir og unnu B-riðilinn. Þær fóru til Eyja í morgun og gerðu 2-2 jafntefli við ÍBV, en okkar stelpur höfðu reyndar tryggt sér efsta sætið í B-riðlinum fyrir leikinn. Þór/KA2 hóf keppni í C-riðli í mars og unnu hann, unnu þar fimm leiki og gerðu eitt jafntefli, fóru upp í B-riðil. Í lotu 2 í B-riðlinum endaði liðið í 3. sæti, vann fjóra leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði tveimur. Í 3. lotunni í B-riðlinum unnu þær fimm leiki og gerðu tvö jafntefli og unnu þar með B-riðilinn.

C-riðill - lota 1 - á vef KSÍ.
B-riðill - lota 2 - á vef KSÍ.
B-riðill - lota 3 - á vef KSÍ.


Eintóm gleði í Eyjum, Þór/KA2 eru deildarmeistarar í B-riðli, lotu 3. Aftari röð frá vinstri: Karítas Hrönn Elfarsdóttir, Nína Rut Arnardóttir, Herdís Agla Víðisdóttir, Elísabet A. Stefánsdóttir, Rut Marín Róbertsdóttir, Dagbjört Rós Hrafnsdóttir, Maríana Mist Helgadóttir, Bríet Kolbrún Hinriksdóttir, Ágústa Kristinsdóttir. Fremri röð frá vinstri: Klara Parraguez Solar, Lilja Gull Ólafsdóttir, María Björg Steinmarsdóttir, Rebekka Sunna Brynjarsdóttir, Úlfhildur Embla Klemensdóttir og Katla Bjarnadóttir. Á myndina vantar Emilíu Björk Óladóttur. Fleiri myndir í myndasafni.

Sannarlega glæsilegt hjá stelpunum okkar að vinna bæði Íslandsmeistaratitil og að vinna B-riðilinn einnig með liði Þórs/KA2.

Silfur í keppni B-liða

Þriðja liðið okkar tók þátt í Íslandsmóti B-liða eins og við höfum sagt frá hér á síðunni og vann þar til silfurverðlauna eftir að hafa orðið í 2. Sæti síns riðils, unnið Snæfellsnes í undanúrslitum en tapað gegn FH/ÍH í úrslitaleik, 0-2.

Íslandsmót B-liða - riðill - á vef KSÍ.
Íslandsmót B-liða - úrslitakeppni 
- á vef KSÍ.


Stelpurnar í B-liði Þórs/KA með silfurverðlaunin. Aftari röð frá vinstri: Gunnella Rós Gunnarsdóttir, Karen Dögg Birgisdóttir, Aníta Mist Fjalarsdóttir, Arna Dögg Hjörvarsdóttir, Sunna Þórveig Guðjónsdóttir, Dagbjört Rós Hrafnsdóttir, Bríet Kolbrún Hinriksdóttir, Elsa Dís Snæbjarnardóttir, Aldís Eva Aðalsteinsdóttir, Nadía Hólm Jónsdóttir. Fremri röð frá vinstri: Valdís María Gunnarsdóttir, Klara Parraguez Solar, Sunneva Elín Sigurðardóttir, Eva Hrund Hermannsdóttir, Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir, Ísey Ragnarsdóttir, Kristjana Vera Kelley og Harpa Hrönn Þórðardóttir.

Mögnuð tölfræði

Þór/KA - A1: 18 sigrar, 1 jafntefli, 1 tap, markatala 66-22. Auk þess fjórir sigrar í bikarkeppni, markatala 13-1.
Þór/KA - A2: 14 sigrar, 2 jafntefli, 2 töp, markatala 51-22.
Þór/KA - B-lið: 9 sigrar, 1 jafntefli, 4 töp, markatala 43-30.

Samanlagt hafa liðin okkar í 3. flokki því unnið 45 leiki á árinu, gert fjögur jafntefli og tapað sjö leikjum. Þessar tölur ljúga ekki, frábær árangur hjá stelpunum og þjálfurum. Eru þá ótaldir leikir á Barcelona Cup, þar sem báðir árgangar 3. flokks, 2006 og 2007 urðu Barcelona Cup meistarar!

Þjálfarar 3. flokks eru Ágústa Kristinsdóttir, Birkir Hermann Björgvinsson og Pétur Heiðar Kristjánsson. Tiffany McCarty hefur einnig aðstoðað við þjálfun og Harpa Jóhannsdóttir var í þjálfarateyminu í vetur.

Myndaalbúm - samansafn mynda af íslandsmeisturunum frá foreldrum (eigum eftir að bæta við).

Til hamingju, stelpur, þjálfarar, foreldrar og Þór/KA!