Íslandsmótið að hefjast!

Leikmenn og stuðningsfólk fagna saman að loknum sigri á Þrótti í Lengjubikarnum. Mynd: Egill Bjarni …
Leikmenn og stuðningsfólk fagna saman að loknum sigri á Þrótti í Lengjubikarnum. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson

 

Sumarið er komið samkvæmt dagatalinu og suma daga líka samkvæmt veðrinu á Akureyri. Eftir margra mánaða undirbúningstímabil með þrotlausum knattspyrnu- og styrktaræfingum, æfingaleikjum, vetrarmótum og alls konar er loksins komið að því: Keppni á Íslandsmótinu er að hefjast!

Efsta deild Íslandsmótsins hefur hlotið nýtt nafn enn einu sinni og nefnist nú Besta deildin. Keppni í Bestu deild kvenna hefst á morgun, þriðjudaginn 26. apríl, með tveimur leikjum, en þar mætast ÍBV og Stjarnan annars vegar og Valur og Þróttur hins vegar.

Þór/KA hefur keppni miðvikudaginn 27. apríl og er fyrsti leikurinn gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli. Leikurinn hefst kl. 17:30 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.

Fyrsti heimaleikur liðsins verður síðan gegn Val þriðjudaginn 3. maí kl. 18.

Sex vikna EM-hlé og æfingaferð til Englands

Það er óvenjulegt við keppni í deildinni að þessu sinni að sex vikna hlé verður gert vegna þátttöku landsliðsins á EM. Síðasti leikurinn hjá Þór/KA fyrir hlé er 18. júní og fyrsti leikur eftir hlé er 4. ágúst.  

Það hefur þó líklega ekki farið framhjá fólki sem fylgist með Þór/KA að á dagskrá hjá stelpunum er æfingaferð til Englands. Farið verður út þann 11. júlí og aftur heim þann 18. júlí. Ætlunin er að spila æfingaleik(i) í þessari ferð, ásamt því að æfa vel og þétta hópinn.

Þétt leikjadagskrá fyrir hlé

Óhætt er að segja að næstu fimm vikur verði strembnar því frá 27. apríl til og með 1. júní leikur liðið (eins og önnur lið í deildinni) átta leiki, sjö í deildinni og einn í bikarkeppninni. Þór/KA kemur inn í Mjólkurbikarkeppnina í 16 liða úrslitum, eins og önnur lið í efstu deild, en þau fara fram 27. og 27. maí.

Leikjadagskrá Bestu deildar kvenna - af vef KSÍ.
Leikjadagsrká Þórs/KA í Bestu deildinni - af vef KSÍ.
Mjólkurbikarkeppnin - af vef KSÍ.

Á myndunum hér að neðan má einnig sjá samantekt yfir annars vegar heimaleiki og hins vegar útileiki liðsins. Allir leiktímar eru birtir með fyrirvara um breytingar sem kunna að verða.