Kjarnafæðimótið: Þór/KA2 með sigur í fyrsta leik

Þór/KA2 vann öruggan sigur á Völsungi í fyrsta leik sínum í Kjarnafæðimótinu þetta árið. Lokatölur 6-1.

Það voru gestirnir sem skoruðu fyrsta markið strax á 3. mínútu, þegar Ísabella Anna Kjartansdóttir lék á varnarmenn og náði góðu skoti hægra megin úr teignum. Rúmum 20 mínútum síðar jafnaði Birgitta Rún Finnbogadóttir leikinn fyrir Þór/KA2 með góð skoti, smellhitti boltann í teignum eftir misheppnaða hreinsun úr teig Völsunga. Bríet Fjóla Bjarnadóttir náði forystunni fyrir Þór/KA2 eftir rúmlega hálftíma leik. Markið kom eftir stutt horn frá Elísu Bríeti Björnsdóttur, Bríet Fjóla fékk boltann til hægri við vítateiginn, enginn varnarmaður sem áttaði sig á að hornið yrði tekið stutt og Bríet skaut bara á markið og skoraði. Þriðja markið kom svo á 39. mínútu. Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir fékk þá boltann nokkuð langt úti á velli hægra megin og markið opið því eftir stungusendingu inn fyrir vörn Völsungs sem markvörðurinn var fyrstur til að ná og hreinsaði frá fékk Emelía boltann og skoraði utan af hægri kantinum.

Júlía Karen Magnúsdóttir um það bil að skora fyrra mark sitt af tveimur, og fimmta mark liðsins. Mynd: Ármann Hinrik.

Birgitta Rún skoraði sitt annað mark eftir átta mínútna leik í seinni hálfleik, fékk þá fyrirgjöf frá Emelíu og afgreiddi boltann viðstöðulaust og örugglega í netið. Júlía Karen Magnúsdóttir sá svo um að skora tvö síðustu mörkin, það fyrra á 66. mínútu eftir skemmtilegan undirbúning hjá Hildi Önnu Birgisdóttur og Hafdísi Nínu Elmarsdóttur, og annað mark sitt, sjötta mark liðsins, á 74. mínútu eftir að Ísey Ragnarsdóttir hafði farið upp hægra megin og rennt boltanum út á Júlíu við nærstöngina.

Þór/KA2 - Völsungur 6-1 (3-1)

  • 0-1 - Ísabella Anna Kjartansdóttir (3').
  • 1-1 - Birgitta Rún Finnbogadóttir (24'). 
  • 2-1 - Bríet Fjóla Bjarnadóttir (31'). Stoðsending: Elísa Bríet Björnsdóttir.
  • 3-1 - Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir (39'). 
  • 4-1 - Birgitta Rún Finnbogadóttir (53'). Stoðsending: Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir.
  • 5-1 - Júlía Karen Magnúsdóttir (66'). Stoðsending: Hafdís Nína Elmarsdóttir.
  • 6-1 - Júlía Karen Magnúsdóttir (74'). Stoðsending: Ísey Ragnarsdóttir.

Hópurinn og skiptingar

  • Dóra Jensína Þorgilsdóttir (m)
  • Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir, Karen Hulda Hrafnsdóttir, Ásta Ninna Reynisdóttir, Ragnheiður Sara Steindórsdóttir.
  • Bríet Fjóla Bjarnadóttir (Ísey Ragnarsdóttir 57'), Hildur Anna Birgisdóttir (f) (Ellý Sveinbjörg Elvarsdóttir 71'), Elísa Bríet Björnsdóttir (Júlía Karen Magnúsdóttir 34').
  • Aníta Ingvarsdóttir, Eva Dolina-Sokolowska (Sigyn Elmarsdóttir 71'), Birgitta Rún Finnbogadóttir (Hafdís Nína Elmarsdóttir 57').

Tölur og fróðleikur

  • 1 - Skagstrendingarnir Birgitta Rún Finnbogadóttir og Elísa Bríet Björnsdóttir spiluðu í fyrsta skipti í Þór/KA treyjunni. Þegar leikurinn fór fram stóðu enn yfir viðræður milli Þórs/KA og Tindastóls um vistaskipti þeirra og fengu þær báðar leyfi til að spila þennan leik. Þetta var því fyrsti óopinberi leikur þeirra fyrir Þór/KA. 
  • - Birgitta Rún spilaði ekki aðeins sinn fyrsta leik fyrir Þór/KA heldur þakkaði hún fyrir sig og skoraði tvö mörk í leiknum. 
  • 2 - Júlía Karen Magnúsdóttir kominn af varamannabekknum í fyrri hálfleiknum. Í seinni hálfleik fékk hún boltann í höfuðið þegar leikmaður Völsungs hreinsaði frá. Júlíu varð þó ekki meint af og eftir þetta skoraði hún tvívegis, fimmta og sjötta mark Þórs/KA og fékk reyndar tækifæri til að klára þrennuna með síðustu spyrnu leiksins, en það skot brást.
  • 17 - Sautján knattspyrnukonur voru skráðar á leikskýrsluna hjá Þór/KA, en reyndar átti ein ekki að vera á skýrslu því hún var veik og var ljóst fyrir leik að hún myndi ekki mæta. Hinar 16 komu allar við sögu í leiknum. Gera þurfti eina breytingu í fyrri hálfleik vegna meiðsla, en síðan var tveimur skipt út og inn á 57. og 71. mínútu.
  • 32, 50 eða 78 - Áhorfendur á leiknum voru 50, gætu verið færri, gætu verið fleiri, fer eftir því hvort eða hvernig við teljum leikmenn liðanna sem spiluðu strax að loknum okkar leik. Margir þeirra settust vissulega í smá stund í stúkuna og horfðu og voru því áhorfendur.

Hafdís Nína Elmarsdóttir úr Þór/KA og Guðný Helga Geirsdóttir úr Völsungi stíga dans. Mynd: Ármann Hinrik.

Aníta Ingvarsdóttir í baráttu við eina af Þór/KA-stelpunum sem spiluðu með Völsungi í leiknum, Rósu Signýju Guðmundsdóttur. Mynd: Ármann Hinrik.

Jón Stefán Jónsson, þjálfari U20 liðs Þórs/KA, Aðalsteinn Jóhann Friðriksson, þjálfari Þórs/KA og Jóhann Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari mfl. Þórs/KA. Mynd: Ármann Hinrik.