Kjarnafæðimótið: Markasúpa í sigri á Dalvík

Þór/KA2 vann Dalvík/Reyni í öðrum leik sínum í Kjarnafæðimótinu þetta árið. Lokatölur urðu 9-1. Þrjár úr okkar liði skoruðu tvö mörk hver, þær Aníta, Birgitta Rún og Ísey. Þrjár áttu líka tvær stoðsendingar í mörkunum, þær Elísa Bríet, Hildur Anna og Hafdís Nína. 

Júlía Karen skoraði fyrsta markið eftir um níu mínútna leik. Bríet Fjóla átti þá stungusendingu inn fyrir vörnina á Birgittu Rún, hún lék inn í teig og renndi botanum fyrir á Júlíu Karen sem skoraði af stuttu færi. Um fimm mínútum síðar bætti Aníta við öðru marki þegar hún fékk boltann í vítateignum eftir fyrirgjöf og misheppnaða hreinsun frá markinu. Dalvíkingar minnkuðu muninn á 25. mínútu eftir skyndisókn þegar Hafrún Mist átti flotta sendingu inn fyrir vörnina þar sem Rakel Sjöfn var mætt og lét vaða fyrir utan teig, stöngin inn. Okkar stelpur með 2-1 forystu eftir fyrri hálfleikinn.

Sólin lágt á lofti og langir skuggar í upphitun í dag. Marinó Steinn Þorsteinsson á línunni, ekki hans fyrsti leikur. 

Stelpurnar mættu svo mun betur stemmdar í seinni hálfleikinn og létu mörkunum rigna á upphafsmínútunum. Strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiksins skoraði Aníta sitt annað mark og þriðja mark liðsins eftir að Elísa Bríet fékk boltann á miðjunni frá Birgittu Rún, brunaði inn í teig og átti skot sem Dóra í marki Dalvíkur varði í stöng, en Aníta var mætt og ýtti boltanum yfir línuna. Tæpum þremur mínútum síðar kom fjórða mark Þórs/KA og aftur var það Elísa Bríet sem skapaði hættu, fór þá upp hægra megin og átti skot sem Dóra varði út í teiginn, en þar var Birgitta Rún mætt og skoraði af stuttu færi. Aftur var stutt í næsta mark því fimmta markið kom um þremur mínútum síðar eftir hornspyrnu frá Elísu Bríeti. Hildur Anna fór upp í boltann sem síðan datt fyrir fæturna á Birgittu Rún. Hún lagði boltann fyrir sig og skoraði af öryggi.

Ísey Ragnarsdóttir skoraði sjötta mark liðsins á 67. mínútu þegar hún Hafdís Nína sendi stungusendingu inn fyrir vörn Dalvíkinga sem var mjög framarlega. Ísey tók sprettinn, spilaði boltanum inn í teig og skoraði af öryggi. Í sjöunda markinu var það Hafdís Nína sem fékk langa sendingu inn fyrir vörnina frá Hildi Önnu, lék inn í teig og tók skemmtilega gabbhreyfingu áður en hún potaði boltanum í markið. Bríet Fjóla skoraði áttunda markið á 86. mínútu með skoti af um 25 metra færi, fékk þá boltann frá andstæðingi eftir að Embla Mist hafði átt í baráttu við tvær um boltann. Ísey batt svo endahnútinn á sigurinn um mínútu síðar. Bríet Fjóla sendi þá boltann inn í svæði vinstra megin þar sem Hafdís Nína var mætt og hún renndi boltanum inn í teiginn og Ísey tæklaði hann í netið.

Dalvík/Reynir - Þór/KA2 1-9 (1-2)

  • 0-1 - Júlía Karen Magnúsdóttir (9'). Stoðsending: Birgitta Rún Finnbogadóttir.
  • 0-2 - Aníta Ingvarsdóttir (13').
  • 1-2 - Rakel Sjöfn Stefánsdóttir (24'). Stoðsending: Hafrún Mist Guðmundsdóttir.
    - - -
  • 1-3 - Aníta Ingvarsdóttir (47'). Stoðsending: Elísa Bríet Björnsdóttir.
  • 1-4 - Birgitta Rún Finnbogadóttir (49'). Stoðsending: Elísa Bríet Björnsdóttir.
  • 1-5 - Birgitta Rún Finnbogadóttir (52'). Stoðsending: Hildur Anna Birgisdóttir.
  • 1-6 - Ísey Ragnarsdóttir (67'). Stoðsending: Hafdís Nína Elmarsdóttir.
  • 1-7 - Hafís Nína Elmarsdóttir (76'). Stoðsending: Hildur Anna Birgisdóttir.
  • 1-8 - Bríet Fjóla Bjarnadóttir (86').
  • 1-9 - Ísey Ragnarsdóttir (87'). Stoðsending: Hafdís Nína Elmarsdóttir.
  • Kvennadeild Kjarnafæðimótsins - leikjalisti, úrslit og staða

Þór/KA2 hefur spilað tvo leiki og unnið þá báða. Liðið er í 2. sæti mótsins með sex stig, en Þór/KA er með níu stig þó svo liðið hafi einnig spilað tvo leiki og unnið þá báða. Eins og sjá má á mótssíðunni hjá KDN gaf Tindastóll leik sinn gegn Þór/KA og er hann því skráður sem 3-0 sigur og Þór/KA er þannig með níu stig í efsta sætinu. 

Hópurinn og skiptingar

  • Tinna Margrét Axelsdóttir (m)
  • Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir, Karen Hulda Hrafnsdóttir, Ásta Ninna Reynisdóttir (Ísey Ragnarsdóttir, 62'), Ragnheiður Sara Steindórsdóttir (Embla Mist Steingrímsdóttir 71').
  • Bríet Fjóla Bjarnadóttir, Hildur Anna Birgisdóttir (f) , Elísa Bríet Björnsdóttir.
  • Júlía Karen Magnúsdóttir (Sigyn Elmarsdóttir 71'), Aníta Ingvarsdóttir (Emma Júlía Cariglia 71'), Birgitta Rún Finnbogadóttir (Hafdís Nína Elmarsdóttir 62').

Tölur og fróðleikur 

  • 1 - Tinna Margrét Axelsdóttir úr 4. flokki Þórs bjargaði okkur með markmannsstöðuna og skellti sér til Dalvíkur með örstuttum fyrirvara þrátt fyrir að vera nýkomin af æfingu með 4. flokki í Boganum. Hennar fyrsti leikur í meistaraflokksbolta.
  • Elísa Bríet Björnsdóttir átti tvær stoðsendingar í leiknum í dag og er samtals komin með þrjár í tveimur leikjum.
  • Birgitta Rún Finnbogadóttir hefur skorað fjögur mörk í tveimur leikjum með Þór/KA2 í Kjarnafæðimótinu og átt eina stoðsendingu að auki.
  • 28 - Við talningu frá varamannabekknum í upphafi leiks reyndust vera 28 manns í stúkunni eða standandi upp við skúr. Að auki var eitthvað af fólki í bílum og því erfitt að áætla fjölda áhorfenda á leiknum.
  • 61 Hafdís Nína Elmarsdóttir kom inn af bekknum þegar 28 mínútur voru eftir af leiknum, skoraði mark og átti tvær stoðsendingar. Hún átti einnig stoðsendingu í fyrri leiknum og er því komin með þrjár stoðsendingar og eitt mark á 61 mínútu í tveimur leikjum þar sem hún kom inn af bekknum í bæði skiptin.