Kjarnafæðimótið: Sigur á Völsungi

Þór/KA vann Völsung í öðrum leik sínum í Kjarnafæðimótinu. Lokatölur urðu 6-0.

Í dag var komið að öðrum leik liðsins í Kjarnafæðimótinu, leik sem átti að fara fram á Húsavík í gær, en var færður inn í Bogann á Akureyri og spilaður í dag. Völsungsstelpurnar komu ákveðnar til leiks og börðust vel allan leikinn, styrktar með fjórum leikmönnum úr U20 hópi Þórs/KA. 

Þór/KA náði forystu á 7. mínútu þegar Bríet Fjóla Bjarnadóttir fékk langa sendingu inn fyrir vörnina frá Huldu Björgu Hannesdóttur og kláraði af öryggi. Agnes Birta Stefánsdóttir, sem spilaði á miðjunni í dag, bætti við öðru marki seint í fyrri hálfleiknum, fékk þá sendingu inn í teiginn frá Amalíu Árnadóttur og skoraði af stuttu færi. Þór/KA með tveggja marka forystu eftir fyrri hálfleikinn. 

Hvar er boltinn? Þór/KA sækir að marki Völsunga í fyrri hálfleiknum. Mynd: Ármann Hinrik.

Fjórar breytingar voru gerðar áður en flautað var til leiks í seinni hálfleiknum. Út fóru Arna Sif, Hulda Björg, Bríet Fjóla og Agnes Birta, en inn í þeirra stað komu Eva Dolina, Karen Hulda, Angela Mary og Hildur Anna. Strax eftir þriggja mínútna leik hafði Karen Hulda Hrafnsdóttir skorað þriðja markið, skallaði þá í netið eftir hornspyrnu Karenar Maríu Sigurgeirsdóttur.

Næst var komið að Huldu Ósk Jónsdóttur, en hún skoraði tvö mörk með stuttu millibili, fyrst með skemmtilegu hægrifótarskoti eftir að hún hafði sótt sendingu Anítu Ingvarsdóttur út á kantinn og prjónað sig inn í teiginn til að koma sér í færi. Um fimm mínútum síðar kom svo mark með vinstri fæti, aftur eftir sendingu frá Anítu, sem fór upp að endamörkum vinstra megin og renndi boltanum út á Huldu Ósk sem lagði boltann fyrir sig og skoraði af stuttu færi. Hulda Ósk var svo tekin af velli áður en hún fékk tækifæri til að fullkomna fullkomna þrennu - átti bara eftir að skora skallamark til að klára það verkefni. Það bíður betri tíma.

Það var svo á lokamínútum leiksins sem Ísey Ragnarsdóttir skoraði sjötta markið, var þá óvölduð á vítateigslínunni, fékk sendingu frá Hildi Önnu Birgisdóttur, kom sér inn í teig og kláraði færið vel.

Völsungur - Þór/KA 0-6 (0-2)
  • 0-1 - Bríet Fjóla Bjarnadóttir (7'). Stoðsending: Hulda Björg Hannesdóttir.
  • 0-2 - Agnes Birta Stefánsdóttir (40'). Stoðsending: Amalía Árnadóttir.
    - - -
  • 0-3 - Karen Hulda Hrafnsdóttir (48'). Stoðsending: Karen María Sigurgeirsdóttir.
  • 0-4 - Hulda Ósk Jónsdóttir (54'). Stoðsending: Aníta Ingvarsdóttir.
  • 0-5 - Hulda Ósk Jónsdóttir (59'). Stoðsending: Aníta Ingvarsdóttir.
  • 0-6 - Ísey Ragnarsdóttir (86'). Stoðsending: Hildur Anna Birgisdóttir.

Jóhann og Aðalsteinn Jóhann velta fyrir sér næsta útspili. Mynd: Ármann Hinrik.

Hópurinn og skiptingar

  • Harpa Jóhannsdóttir (m)
  • Bríet Jóhannsdóttir (Ragnheiður Sara Steindórsdóttir 65'), Arna Sif Ásgrímsdóttir (f) (Karen Hulda Hrafnsdóttir 45'), Hulda Björg Hannesdóttir (Angela Mary Helgadóttir 45'), María Dögg Jóhannesdóttir (Ásta Ninna Reynisdóttir 65').
  • Agnes Birta Stefánsdóttir (Hildur Anna Birgisdóttir 45'), Karen María Sigurgeirsdóttir (Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir 65'), Amalía Árnadóttir.
  • Hulda Ósk Jónsdóttir (Ísey Ragnarsdóttir 65'), Bríet Fjóla Bjarnadóttir (Eva Dolina-Sokolowska 45') og Aníta Ingvarsdóttir (Júlía Karen Magnúsdóttir 65').

Tölur og fróðleikur

  • 20 - Þór/KA mætti til leiks með 20 leikmenn á skýrslu, níu á varamannabekknum og komu þær allar við sögu í leiknum. Fjórar skiptingar voru gerðar eftir fyrri hálfleikinn og fimm á 65. mínútu. 
  • 81 - Áhorfendur á leiknum voru 81.