Kjarnafæðimótið: Sigur í fyrsta leik

Þór/KA sendir tvö lið til þátttöku í Kjarnafæðimótinu þetta árið, eins og oftast áður. Lið 1 hóf leik á föstudag þegar stelpurnar mættu liði Dalvíkur í Boganum. Lokatölur urðu 8-1. 

Það voru reyndar Dalvíkingar sem náðu forystunni strax á 1. mínútu leiksins þegar Bríet Sara Níelsdóttir komst ein inn í teig hægra megin og skoraði. Tæpum hálftíma síðar opnaði Hulda Ósk Jónsdóttir markareikninginn hjá Þór/KA þegar hún jafnaði leikinn með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá Höllu Bríeti Kristjánsdóttur. Halla Bríet spilaði þarna sinn fyrsta leik með Þór/KA eftir að hún samdi við félagið fyrr í vikunni. Þegar stíflan brast komu mörkin í röð á um tveggja mínútna fresti. Arna Sif Ásgrímsdóttir klæddist Þór/KA treyjunni í fyrsta skipti síðan 12. september 2021 og kom fáum á óvart að hennar fyrsta mark í þessari endurkomu til félagsins var skallamark eftir hornspyrnu Karenar Maríu Sigurgeirsdóttur. Ekki í fyrsta skipti sem Arna Sif lætur til sín taka inni í teig í föstu leikatriði.

Þriðja markið kom skömmu síðar þegar María Dögg Jóhannesdóttir skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Amalíu Árnadóttur. Arna Sif var svo aftur á ferðinni með skalla eftir hornspyrnu Karenar Maríu um tveimur mínútum síðar og staðan hafði þá breyst úr 0-1 í 4-1 á um sjö mínútum. Fimmta og síðasta mark Þórs/KA í fyrri hálfleiknum skoraði Hildur Anna Birgisdóttir eftir skemmtilega takta í teignum og enn var það Karen María sem átti stoðsendinguna, komin stoðsendingaþrenna hjá henni í fyrri hálfleiknum.

Strax á 1. mínútu seinni hálfleiks kom svo sjötta markið eftir að Halla Bríet og Hildur Anna náðu að vinna boltann með því að atast í gestunum í varnarlínu þeirra, Hildur náði að pota boltanum áfram á Amalíu sem var komin ein á móti markverði, ekki rangstæð vel að merkja þótt það hafi vissulega litið þannig út frá einhverjum séð í leiknum. 

Margar breytingar voru gerðar á liðinu í seinni hálfleiknum og á 74. mínútu létu tvær sem komu inn af varamannabekknum til sín taka. Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir sendi þá inn á teiginn eftir dómarakast þar sem Eva S. Dolina-Sokolowska stakk sér fram fyrir varnarmenn við nærstöngina og skoraði úr þröngu færi. Í viðbótartíma varð aftur til mark eftir samvinnu tveggja sem komu inn af bekknum þegar Angela Mary Helgadóttir átti langa sendingu úr vörninni, fram á Sigyn Elmarsdóttur sem náði að koma sér fram fyrir varnarmann, koma sér í skotstöðu og lét vaða á markið rétt utan vítateigs.

Þór/KA - Dalvík/Reynir 8-1 (5-1)

  • 0-1 - Bríet Sara Níelsdóttir (1').
  • 1-1 - Hulda Ósk Jónsdóttir (28'). Stoðsending: Halla Bríet Kristjánsdóttir.
  • 2-1 - Arna Sif Ásgrímsdóttir (30'). Stoðsending: Karen María Sigurgeirsdóttir.
  • 3-1 - María Dögg Jóhannesdóttir (32'). Stoðsending: Amalía Árnadóttir.
  • 4-1 - Arna Sif Ásgrímsdóttir (34'). Stoðsending: Karen María Sigurgeirsdóttir.(33')
  • 5-1 - Hildur Anna Birgisdóttir (45'). Stoðsending: Karen María Sigurgeirsdóttir.
  • 6-1 - Amalía Árnadóttir (46'). Stoðsending: Hildur Anna Birgisdóttir.
  • 7-1 - Eva S. Dolina-Sokolowska (74'). Stoðsending: Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir.
  • 8-1 - Sigyn Elmarsdóttir (90+1'). Stoðsending: Angela Mary Helgadóttir.

Tölur og fróðleikur

  • Halla Bríet Kristjánsdóttir spilaði sinn fyrsta leik fyrir Þór/KA þó svo ekki teljist þessir leikir í Kjarnafæðimótinu opinberir samkvæmt gagnagrunni KSÍ. Þetta var jafnframt fyrsti leikur liðsins undir stjórn Aðalsteins Jóhanns riðrikssonar, sem nýlega var ráðinn þjálfari Þórs/KA.
  • 2 - Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði tvö skallamörk eftir hornspyrnu, bæði í fyrri hálfleik enda spilaði bara fyrri hálfleikinn. Arna Sif, sem er nýkomin aftur norður og í raðir Þórs/KA, skoraði síðast fyrir félagið 28. júlí 2021 þegar hún jafnaði í 2-2 gegn Breiðabliki á Þórsvellinum á 4. mínútu viðbótartíma í leik liðanna í Pepsi Max-deildinni.
  • Karen María Sigurgeirsdóttir átti þrjár stoðsendingar, þar af tvær á kollinn á Örnu Sif úr hornspyrnu.
  • 11 - Alls áttu 11 leikmenn þátt í mörkum liðsins þegar aðeins er litið á það hverjar skoruðu og hverjar áttu stoðsendingu í mörkunum. 
  • 67 - Áhorendur í Boganum í gær voru 67.