Kjarnafæðismótið og fleira fram undan

Núna í upphafi nýs árs er tímabært að líta fram á við og skoða verkefni ársins sem fram undan er.

Undirbúningstímabil og mótaþátttaka verða að mestu leyti hefðbundin, ef hægt er að fara að nota það orð núna þegar heimsfaraldur covid hefur aftur náð sér á flug. Ein nýjung bætist þó við undirbúninginn því Þór/KA tekur þátt í Faxaflóamótinu í janúar og febrúar.

Framundan eru því Kjarnafæðismótið, Faxaflóamótið, Lengjubikarinn, mögulega æfingaferð og svo Íslandsmót og bikarkeppni. Mót sumarsins verða þó óhefðbundin vegna hlés sem gert verður á Íslandsmótinu í tengslum við EM.

Einum leik þegar lokið

Fyrsta mótið sem liðið tekur þátt í á árinu hófst reyndar í desember 2021, þ.e. Kjarnafæðismótið. Þór/KA mætti liði FHL í Boganum þann 12. desember og hafði 4-2 sigur. Upphaflega átti liðið síðan að mæta Völsungi í Boganum núna um helgina, en sá leikur hefur verið færður til 30. janúar.

Að þessu sinni eigum við aðeins eitt lið í Kjarnafæðismótinu, en undanfarin ár hafa Hamrarnir einnig tekið þátt, að vísu þannig að nokkrir leikmenn hafa spilað með báðum liðunum. Vegna þátttöku í Faxaflóamótinu munu hins margir yngri leikmenn verða í eldlínunni í Kjarnafæðismótinu á meðan meistaraflokkur Þórs/KA spilar leiki í Faxaflóamótinu.

Leikjdadagskráin (sjá einnig á vef KSÍ) eins og hún er núna - með fyrirvara um breytingar sem gætu orðið, meðal annars vegna aðstæðna sem tengjast covid.

Sunnudagur 16. janúar kl. 14:00: Einherji - Þór/KA
Sunnudagur 30. janúar kl. 14:00: Völsungur - Þór/KA
Sunnudagur 6. febrúar kl. 14:00: Þór/KA - Tindastóll

Engir áhorfendur, leikjum streymt

Vegna fjölda smita í samfélaginu og aðstæðna í Boganum verða áhorfendur ekki leyfðir á leikjum í Kjarnafæðismótinu á næstunni, en á móti verður lögð áhersla á að streyma leikjum beint á Netinu.

Leikir liðsins á þessu tímabili verða því minnst 32, en gætu orðið 36 ef liðið kæmist alla leið í úrslitaleiki Lengjubikars og bikarkeppninnar. 

Fjöldi leikja:
Kjarnafæðismót: 4
Faxaflóamót: 4
Lengjubikar: 5 (mögulega 1-2 í úrslitum)
Íslandsmót: 18
Bikarkeppni: 1-4

Við segjum nánar hinum mótunum hér á vefsíðunni á næstu dögum.