Karfan er tóm.
Kollubikarinn var veittur í tíunda sinn á lokahófi Þórs/KA síðastliðið fimmtudagskvöld. Gripurinn er veittur í minningu Kolbrúnar Jónsdóttur, fyrrum leikmanns og stjórnarkonu í Þór/KA. Stjórn Þórs/KA ákveður hver hlýtur Kollubikarinn ásamt dæmtrum Kolbrúnar, þeim Ágústu og Örnu Kristinsdætrum.
Við val á þeim leikmanni sem hlýtur Kollubikarinn eru hafðir til hliðsjónar eiginleikar sem prýddu Kollu sjálfa, áræðni, harka og dugnaður, svo einhverjir séu nefndir. Kolbrún starfaði lengi í kvennaráði (stjórn) Þórs/KA, en hún lést þann 6. júní 2016.
Við afhendingu Kollubikarsins hefur skapast sú hefð að lesin er upp umsögn um leikmanninn sem hlýtur bikarinn. Að þessu sinni var það Arna Kristinsdóttir sem mætti á lokahófið, last upp umsögn um Margréti Árnadóttur og afhenti bikarinn.
Arna las upp eftirfarandi texta um Margréti, hluta frá þeim systrum Örnu og Ágústu, en einnig umsagnir frá liðsfélögum og þjálara liðsins.
Það er ekki hægt að tala um þennan leikmann öðruvísi en með virðingu. Hún er ótrúlega duglegur leikmaður, ákveðin og baráttugjörn – sannkallaður baráttujaxl sem gefst aldrei upp, sama hvað á gengur. Hún hleypur og berst fyrir liðið sitt, leggur sig 100% fram á hverri einustu æfingu og í hverjum leik og sýnir í verki að liðið kemur alltaf fyrst. Hún er týpan sem myndi missa útlim fyrir liðið – og það er ekki einu sinni ýkjur. Hún er frábær fyrirmynd fyrir ungar knattspyrnukonur, bæði í framkomu og vinnusemi. Það er ekki mikill hávaði í henni – hún lætur verkin tala. Stundum heyrist þó smá tuð, enda hefur hún fengið nokkur gul spjöld fyrir það í gegnum tíðina.
Nokkur orð frá liðsfélögum:
Hún er sá leikmaður sem allir vilja hafa í sínu liði. Hún er vinur vina sinna, bakkar okkur upp sama hvað, og leggur sig alltaf 110% fram – bæði innan og utan vallar. Hún talar kannski ekki alltaf hæst, en hún leiðir með fordæmi; með vinnusemi, metnaði og ákveðni sem hvetur alla í kringum hana. Hún myndi bókstaflega hlaupa fyrir rútu fyrir liðið sitt – og það segir eiginlega allt sem segja þarf.
Nokkur orð frá þjálfara:
Hún er líklega nálægt því að vera hinn fullkomni liðsmaður. Mikið skap, miklar tilfinningar, brennur fyrir fótbolta og liðið sitt. Leggur sig alltaf 100% fram og rúmlega það. Leysir öll verkefni og allar stöður sem hún er beðin að leysa og gerir það alltaf vel. Hún er leiðtogi og gott fordæmi innan sem utan allar og frábær fyrirmynd fyrir aðra leikmenn. Það má með sanni segja að öll lið væru til í að hafa eina Margréti Árnadóttur í sínu liði en sem betur fer eigum við hana. Til hamingju Magga, þú átt þetta svo mikið skilið!
Margrét Árnadóttir í bikarleik gegn KR í maí. Mynd: Ármann Hinrik.
Handhafar Kollubikarsins frá upphafi:
2016: Karen Nóadóttir
2017: Sandra María Jessen
2018: Arna Sif Ásgrímsdóttir
2019: Lára Einarsdóttir
2020: Heiða Ragney Viðarsdóttir
2021: Harpa Jóhannsdóttir
2022: Hulda Björg Hannesdóttir
2023: Agnes Birta Stefánsdóttir
2024: Hulda Ósk Jónsdóttir
2025: Margrét Árnadóttir