Lengjubikar: Fimm marka veisla í Boganum

Þór/KA vann öruggan sigur á liði Víkings í öðrum leik sínum í Lengjubikarnum þetta árið. Lokatölur urðu 5-0.

Það var spennandi verkefni fyrir okkar lið að fást við bikarmeistarana og sigurlið Lengjudeildarinnar 2023, lið sem virtist í fyrra trúa því að það gæti ekki tapað leik og heillaði marga með krafti, leikgleði og liðsheild.

Okkar konur létu ekkert trufla einbeitinguna heldur mættu ákveðnar til leiks, voru einu marki yfir eftir fyrri hálfleikinn, en bættu svo við fjórum í þeim seinni.

Þór/KA - Víkingur 5-0 (1-0)

13. mínúta, 1-0. Hulda Björg Hannesdóttir skoraði eina mark fyrri hálfleiks. Eftir hornspyrnu átti Sandra María skot í stöng vinstra megin og þaðan barst boltinn á fjærstöng þar sem Hulda Björg skallaði í markið af stuttu færi.

56. mínúta, 2-0. Það var svo ekki fyrr en um hálftími var eftir af leiknum sem annað markið kom. Þór/KA sótti þá upp miðjuna, Hildur Anna Birgisdóttir, sem spilaði seinni hálfleikinn í dag í sínum þriðja meistaraflokksleik, fékk þá boltann framan við vítateiginn og átti góða sendingu inn í teiginn hægra megin þar sem Amalía Árnadóttir kláraði færið af öryggi.

Lokamínúturnar glöddu okkar fólk í stúkunni því þá kom þriggja marka súpa á rúmum fimm mínútna kafla.

83. mínúta, 3-0. Sandra María Jessen skoraði þriðja markið eftir að Bríet Jóhannsdóttir átti laglega sendingu frá hægri, Sandra María gaf sér tíma til að leggja boltann fyrir sig, leika á varnarmann og skoraði rétt utan markteigs.

86. mínúta, 4-0. Frá því að gestirnir byrjuðu á miðju eftir þriðja markið leið innan við ein og hálf mínúta þar til fjórða markið kom. Karen María Sigurgeirsdóttir tók þá hornspyrnu, Agnes Birta Stefánsdóttir skallaði boltann niður þar sem Margrét Árnadóttir náði skoti á markið sem markvörður Víkings varði, en þá kom Iðunn Rán Gunnarsdóttir honum í markið úr þvögu af stuttu færi.

88. mínúta, 5-0. Innan við tveimur mínútum eftir að Víkingar byrjuðu á miðju aftur eftir fjórða markið kom fimmta og síðasta markið í veislunni og það var einkar glæsilegt. Iðunn Rán tók þá aukaspyrnu á eigin vallarhelmingi, boltinn barst upp að vítateig hægra megin þar sem Una Móeiður Hlynsdóttir tók sprettinn, fór upp að endamörkum og lék laglega á varnarmann gestanna, renndi boltanum á nærstöng þar sem Sonja Björg Sigurðardóttir var mætt og sneiddi boltann í fallegum boga í markið.

Ljóðrænn endir á laglegum leik hjá okkar konum!

  • 1-0 Hulda Björg Hannesdóttir (13’). Stoðsending: Sandra María Jessen
  • 2-0 Amalía Árnadóttir (57’). Stoðsending: Hildur Anna Birgisdóttir.
  • 3-0 Sandra María Jessen (83’). Stoðsending: Bríet Jóhannsdóttir.
  • 4-0 Iðunn Rán Gunnarsdóttir (86’). Stoðsending: Margrét Árnadóttir.
  • 5-0 Sonja Björg Sigurðardóttir (88’). Stoðsending: Una Móeiður Hlynsdóttir.
  • Leikskýrslan (ksi.is)
  • Mótið (ksi.is)

Leikurinn var hin besta skemmtun, bæði fyrir þá 125 stuðningsmenn sem mættu í Bogann, sem eiga bestu þakkir skilið fyrir stuðninginn, og fólkið sem fylgdist með leiknum í beinni útsendingu á Stöð 2 sport. Lengjubikarinn að fá aukna athygli með beinum útsendingum, sem er gott í sjálfu sér og gleðiefni ef skilar auknum tekjum til félagsins, en hins vegar verður að segjast eins og er að aðsókn að leikjum er almennt orðin áhyggjuefni, bæði á sumrin og veturna. Frítt er inn á leiki liðsins í Lengjubikarnum og eins og þau vita sem fylgjast með liðinu eru leikir liðsins oft hin besta skemmtun – fyrir utan það að góð mæting á leiki getur skipt sköpum um árangur. Boginn býður líka upp á góða stemningu og mikla nánd milli stuðningsfólks og leikmanna, sem skilar sér í meiri orku innan og utan vallarins.

Í leikhléi í gær var dregið í happdrætti meistaraflokks og má finna upplýsingar um vinningana í annarri frétt. Takk fyrir stuðninginn!