Lengjubikar: Stórsigur í fyrsta leik

Þór/KA vann FH í fyrsta leik í Lengjubikarnum í dag, 6-1. Sandra María Jessen skoraði þrennu. Landsliðsvalið kom þjálfara Þórs/KA á óvart.

Fyrir leikinn í dag fengu stelpurnar afhentan bikar frá Knattspyrnudómarafélagi Norðurlands fyrir sigur í Kjarnafæðismótinu.

Það var gaman að sjá kraftinn og áræðnina í okkar stelpum í dag. Enn og aftur teflum við fram mjög ungu liði, en meðalaldur byrjunarliðsins var rúmlega 20 ár og meðalaldur hópsins var 19 ár. Ef frá eru taldir leikir í æfingamótum eins og Kjarnafæðismótinu, sem ekki teljast opinberir meistaraflokksleikir samkvæmt skilgreiningu KSÍ, voru tvær úr hópnum að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik. Kolfinna Eik Elínardóttir (2007) spilaði af öryggi í stöðu miðvarðar og Karlotta Björk Andradóttir (2007) kom inn á undir lokin og stóð sig vel á miðjunni.

Sandra María Jessen hefur reimað á sig markaskóna það sem af er ári, skoraði tíu mörk í leikjum liðsins í nýafstöðnu Kjarnafæðismóti og bauð svo upp á þrennu í dag. „Gott að byrja lengjuna a góðum sigri og ná inn sex mörkum," sagði Sandra María í spjalli við fréttaritara thorka.is. „Fyrri hálfleikurinn var virkilega vel spilaður, hraður og skemmtilegur. Við vorum síðan skrefi á eftir þeim í upphafi seinni hálfleiks en náðum að spila okkar leik aftur, eftir fyrsta markið okkar í seinni. Gaman að sjá gæðin í þessu liði, getum komið öllum liðum á óvart," segir Sandra María Jessen. 

Þjálfarinn nuddar augun yfir landsliðsvalinu

Jóhann Kristinn Gunnarsson var ánægður með frammistöðuna í dag. „Þetta var fín byrjun á Lengjubikarnum gegn spræku liði FH," segir Jóhann. „Það reyndi vel á okkur og við þurftum oft að grípa inn í varnarlega gegn snörpum sóknum FH-inga. Ég var mjög ánægður með liðið og stelpurnar í dag. Varnarlínan og Harpa stóðu sig heilt yfir mjög vel í leiknum og lofar þetta góðu fyrir næstu vikur. Frábær mörk sem við skorum og miðjusvæðið okkar eign að mestu leyti fyrir utan nokkrar mínútur í seinni háflleik. Svo er maður auðvitað enn að nudda augun eftir að hafa lesið yfir landsliðshópinn sem er að fara á Pinatar Cup eftir helgi. En við stressum okkur ekkert á þessu. Sandra heldur bara áfram að gera sitt og endar auðvitað þarna, þar sem hún á heima. Góður leikur og gott veganesti inn í næstu vikur undirbúningstímabilsins þar sem við vitum mjög vel að við þurfum áfram að vinna vel og bæta okkur til að komast þangað sem við ætlum okkur!“ segir Jóhann Kristinn.

Hann vísar þarna til þess að A-landslið kvenna er á leiðinni til Spánar að taka þátt í Pinatar Cup, en bæði hann og Þór/KA-stelpur þekkja vel til æfingasvæðisins þar sem mótið fer fram. Það vill líka svo skemmtilega til að verðandi leikmaður okkar, Tahnai Annis, er í landsliði Filippseyja sem er með íslenska liðinu í riðli á þessu æfingamóti. Tahnai hélt einmitt utan til Spánar í dag enda var hún ekki komin með leikheimild með Þór/KA og hefði því hvort eð er ekki fengið að vera með í leik dagsins.

Þrjú mörk frá Þór/KA á fyrsta fjórðungi leiksins

Um leikinn sjálfan er annars það að segja að Þór/KA var mun sterkara liðið í fyrri hálfleiknum og raunar geta FH-ingar þakkað Aldísi Guðlaugsdóttur í markinu að Þór/KA var ekki nema með þriggja marka forystu eftir fyrri hálfleikinn. Miðað við öll dauðafærin hefðu mörkin hæglega getað orðið fimm eða sex eða sjö, en staðan í leikhléi var engu að síðu 3-0.  Amalía Árnadóttir skoraði fyrsta markið strax á 3. mínútu, Hulda Ósk Jónsdóttir bætti við öðru marki á 18. mínútu og Sandra María Jessen því þriðja á 23. mínútu. 

FH-ingar komu síðan sprækari til leiks í seinni hálfleiknum og eftir aðeins um tveggja mínútna leik hafði fyrrum leikmaður Þórs/KA, Shaina Ashouri, minnkað muninn í 3-1. Hún fékk þá boltann á miðsvæðinu, spilaði óáreitt áfram og lét skotið ríða af vel fyrir utan teig. FH-ingar voru meira ógnandi framan af seinni hálfleiknum. Það hefði vissulega hleypt spennu í leikinn ef þeim hefði tekist að minnka muninn í eitt mark, en okkar stelpur vörðust vel og Þór/KA náði smátt og smátt aftur betri tökum á leiknum.  

Þrjú mörk frá Þór/KA á lokakaflanum

Í stað þess að FH næði að minnka muninn komu þrjú mörk til viðbótar frá Þór/KA á síðustu tíu mínútunum. Sandra María skoraði sitt þriðja mark á 80. mínútu með skoti af vítateigslínu, alveg út við stöng. Aðdragandinn að fimmta markinu byrjaði hjá Hörpu í markinu. Hún sparkaði langt inn á vallarhelming gestanna þar sem Sonja Björg Sigurðardóttir skallaði boltann áfram inn fyrir vörnina. Þar kom Sandra María, átti skot sem Aldís varði, en Sandra vann boltann aftur af harðfylgi og skoraði.

Sjötta markið kom svo í blálokin, á 89. mínútu. Þór/KA vann þá boltann á vallarhelmingi FH eftir pressu, hann barst út á vinstri kantinn á Jakobínu Hjörvarsdóttur sem sendi hnitmiðað inn að nærstönginni þar sem Sonja Björg Sigurðardóttir, þá nýkomin inn á, skallaði í netið. Sonja kom inn sem varamaður á 84. mínútu, átti stoðsendingu á 87. og skoraði á 89. mínútu. Þokkaleg tölfræði það.

3. mínúta: 1-0
Mark: Amalía Árnadóttir
Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir

18. mínúta: 2-0
Mark: Hulda Ósk Jónsdóttir
Stoðsending: Amalía Árnadóttir

23. mínúta: 3-0
Mark: Sandra María Jessen
Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir

47. mínúta: 3-1
Mark: Shaina Ashouri

80. mínúta: 4-1
Mark: Sandra María Jessen
Stoðsending: Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir

87. mínúta: 5-1
Mark: Sandra María Jessen
Stoðsending: Sonja Björg Sigurðardóttir

89. mínúta: 6-1
Mark: Sonja Björg Sigurðardóttir
Stoðsending: Jakobína Hjörvarsdóttir

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mótið á vef KSÍ.

Næsti leikur hjá Þór/KA er á útivelli gegn KR laugardaginn 25. febrúar, en fyrrverandi þjálfari okkar, Perry Mclachlan, stýrir núna KR-liðinu. Þar eru einnig nokkrar akureyrskar knattspyrnukonur, og má nefna að Hafrún Mist Guðmundsdóttir, Margrét Selma Steingrímsdóttir og Eygló Erna Kristjánsdóttir spiluðu fyrsta leik liðsins í Lengjubikarnum.

Hér má sjá mörkin og nokkur fleiri atvik úr leiknum.