Lengjubikar: Undanúrslitaleikur í Boganum á morgun

Þór/KA tekur á móti Breiðabliki í undanúrslitum Lengjubikarsins í Boganum í dag kl. 14:30. Vekjum athygli á breyttum leiktíma.

Annað árið í röð mætast þessi lið í undanúrslitum Lengjubikarsins. Í fyrra fór leikurinn fram á Kópavogsvelli og lauk honum með 2-1 sigri okkar og þar með sæti í úrslitaleiknum. Að sjálfsögðu er aftur stefnt á að fara alla leið, eins og alltaf.

Liðin luku bæði leik í riðlakeppninni með 12 stig, unnu fjóra leiki og töpuðu einum. Eini tapleikur Þórs/KA kom gegn Stjörnunni í lokaumferðinni og eini tapleikur Breiðabliks var gegn Val, einnig í lokaumferðinni. Þór/KA vann hins vegar riðil 2 og fær því heimaleik gegn Blikum, sem enduðu í 2. sæti í riðli 1. 

Sigurliðið mætir annaðhvort Val eða Stjörnunni í úrslitaleik laugardaginn 30. mars.

Ef marka má þá leiki sem Þór/KA hefur spilað í Lengjubikarnum hingað til má stuðningsfólk eiga von á góðri skemmtun í Boganum, jafnvel markaveislu. Það er því ástæða til að hvetja Akureyringa sem verða enn í bænum á morgun til að mæta í Bogann og styðja stelpurnar til sigurs.