Lengjubikarinn: Fyrsta tapið, en undanúrslit fram undan

Eftir að hafa unnið fyrstu fjóra leiki sína í riðli 2 í A-deild Lengjubikars kvenna, og tryggt sér efsta sæti riðilsins, mátti Þór/KA þola tap fyrir Stjörnunni í gær. 

Stjarnan komst yfir með marki úr víti í fyrri hálfleik, en Sandra María Jessen jafnaði, einnig úr víti, fyrir leikhlé. 

Bríet Jóhannsdóttir kom Þór/KA yfir á 63. mínútu. Lidija Kuliš og Sandra María Jessen áttu þá skemmtilega samvinnu vinstra megin við teiginn sem endaði með því að Sandra María sendi boltann fyrir markið þar sem Bríet kom og kláraði færið. Þá kom þruma úr heiðskúru lofti. Rétt um mínútu síðar höfðu gestirnir jafnað og bætt við þriðja marki sínu öðrum tveimur mínútum eftir það. 

Fyrir utan þessi mörk sem voru eins og blaut tuska í andlitið var Þór/KA lengst af betra liðið og skapaði sér fleiri hættuleg færi, en það eru mörkin sem telja. Því miður telja þau samt ekki alltaf því Margrét Árnadóttir skoraði með glæsilegum skalla eftir sendingu frá Agnesi Birtu Stefánsdóttur, en markið var tekið af henni fyrir meinta rangstöðu. 

Þór/KA - Stjarnan 2-3 (1-1)

  • 0-1 Gyða Kristín Gunnarsdóttir (23') (v).
  • 1-1 Sandra María Jessen (35') (v)
  • 2-1 Bríet Jóhannsdóttir (63'). Stoðsending: Sandra María Jessen.
  • 2-2 Hulda Hrund Arnarsdóttir (64').
  • 2-3 Esther Rós Arnarsdóttir (66').
  • 3-3 Margrét Árnadóttir. Stoðsending: Agnes Birta Stefánsdóttir.

Úrslit leiksins skiptu engu máli fyrir stöðu Þórs/KA í riðlinum. Liðið hafi þegar tryggt sér efsta sætið og sæti í undanúrslitunum. Með sigrinum fór Stjarnan hins vegar upp fyrir FH og fylgir Þór/KA í undanúrslitin. Þór/KA mætir Breiðabliki í undanúrslitum annað árið í röð, en liðið fór í úrslitaleikinn í fyrra eftir sigur gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli. 

Leikir undanúrslitanna

  • Laugardagur 23. mars kl. 15
    Þór/KA - Breiðablik
    Boginn, Akureyri
  • Mánudagur 25. mars kl. 18
    Valur - Stjarnan
    N1-völlurinn að Hlíðarenda