Litið við hjá lánsstelpunum

Sonja Björg Sigurðardóttir í leik gegn ÍA á Húsavík þar sem hún skoraði þriðja mark Völsungs á 88. m…
Sonja Björg Sigurðardóttir í leik gegn ÍA á Húsavík þar sem hún skoraði þriðja mark Völsungs á 88. mínútu í 3-2 sigri. Mynd: Hafþór Hreiðarsson/640.is.

 

Fimm úr leikmannahópnum hjá Þór/KA hafa verið á lánssamningi hjá tveimur nágrannafélögum að hluta eða í allt sumar. Við ætlum aðeins að kíkja á gengi þeirra í sumar og stöðu liðanna.

Í upphafi sumars voru þrjár lánaðar til Völsungs á Húsavík, en liðið leikur í 2. deildinni. Þetta eru þær Amalía Árnadóttir, Sonja Björg Sigurðardóttir og Una Móeiður Hlynsdóttir. Amalía varð fyrir því óláni að meiðast og missti úr nokkra leiki fyrri hluta sumars og ákvað í framhaldinu að koma aftur heim í Þór/KA í júlíglugganum og hefur verið lykilmaður hjá 3. flokki, auk þess að æfa að hluta með meistaraflokki. Sonja Björg og Una Móeiður eru enn hjá Völsungi og hafa átt góðu gengi að fagna í sumar. Liðið á í harðri baráttu um að komast upp um deild.

Keppni í 2. deild er með nýju fyrirkomulagi. Fyrst var spiluð einföld umferð og síðan skiptist deildin í tvennt, efri sex liðin spila einfalda umferð og neðri sex einnig. Völsungur endaði í 2. sæti deildarinnar eftir fyrri hlutann, spilaði þar 11 leiki án taps – átta sigrar og þrjú jafntefli. Liðið varð stigi á eftir Fram. Þegar þetta er skrifað hefur liðið spilað einn leik í úrslitariðli efri hlutans, og beið ósigur gegn ÍR um liðna helgi, 1-2, þar sem Una skoraði mark Völsungs. Liðið mætir KH á útivelli í dag.

Í fyrri hluta mótsins skoraði Sonja Björg mest allra í Völsungi, 10 mörk, en tvær úr öðrum liðum í deildinni skoruðu 11 mörk.

Amalía: 4 leikir
Sonja Björg: 9 leikir, 10 mör
Una Móeiður: 8 leikir 2 mörk


Amalía Árnadóttir og Sonja Björg Siguðardóttir í grænu treyjunum.

Stelpurnar okkar hafa því reynst Húsvíkingum vel í sumar og sannarlega staðið undir væntingum, fengið mikið að spila og bæði skorað og lagt upp mörk.

Með tapinu á laugardaginn er liðið komið niður í 4. sætið með 27 stig, jafnar Gróttu sem er sæti ofar á markamun. ÍR fór upp í 2. sætið með 29 stig og Fram hefur náð sér í 31 stig. Fram undan eru því fjórir mikilvægir leikir í toppbaráttu 2. Deildar, fyrst útileikur gegn KH, þá heimaleikur gegn Gróttu og ÍA og loks útileikur við topplið Fram. Nóg af stigum í pottinum sem stelpurnar ná vonandi að krækja í.


Una Móeiður Hlynsdóttir. Mynd: Hafþór Hreiðarsson/640.is.

Tvær í láni á Króknum

Arna Kristinsdóttir var lánuð til Lengjudeildarliðs Tindastóls í vor og hefur hún verið fastamaður í vörn liðsins þar til nú í síðustu leikjum. Arna hefur komið við sögu í 15 leikjum af þeim 16 sem liðið hefur spilað. Hún hefur skorað tvö mörk, annað þeirra á lokamínútunni þegar liðið vann 3-2 útisigur á FHL. Arna kom þá inn sem varamaður á 81. mínútu og skoraði á 89. mínútu.

Rakel Sjöfn Stefánsdóttir var lánuð til Tindastóls í júlíglugganum og hefur komið við sögu í fjórum leikjum sem vinstri bakvörður.

Arna: 15 leikir, 2 mörk
Rakel Sjöfn: 4 leikir

Liðið er nú í vænlegri stöðu til að koma sér aftur upp í efstu deild. Þegar tveimur umferðum er ólokið er Tindastóll í 2. sætinu með 37 stig, fjórum stigum á undan HK. Liðið mætir Augnabliki á útivelli í næststíðustu umferðinni og myndi sigur þar tryggja liðinu sæti í Bestu deildinni að ári. Lokaleikurinn er síðan heimaleikur gegn toppliði deildarinnar, FH.


Rakel Sjöfn Stefánsdóttir og Arna Kristinsdóttir að loknum 5-0 sigri á Fjölni.