Margrét best, Kimberley Dóra efnilegust

Verðlaunahafar í 2. fl. og mfl.: Alma Sól Valdimarsdóttir, Steingerður Snorradóttir, Kimberley Dóra …
Verðlaunahafar í 2. fl. og mfl.: Alma Sól Valdimarsdóttir, Steingerður Snorradóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Margrét Árnadóttir. Myndir: Þórir Tryggva.

 

Lokahóf meistaraflokks og 2. flokks Þórs/KA fór fram í Hamri á laugardagskvöldið og heppnaðist frábærlega. Stemningin var einstök eins og búast mátti við frá þessum skemmtilega og magnaða hópi leikmanna sem tilheyra Þór/KA-fjölskyldunni.

Dagskrá lokahófsins var hefðbundin með mat, verðlaunum og viðurkenningum, skemmtiatriðum, myndböndum og dansi. Undirbúningur hófsins var í höndum stjórnar með þær Guðrúnu Unu Jónsdóttur og Dóru Sif Sigtryggsdóttur í fararbroddi, sem nutu auk þess hjálpar úr öflugum foreldrahópi leikmanna og má þar helst nefna Jóhann Pálsson, Ernu Magnúsdóttur, Jórunni Eydísi Jóhannesdóttur og Petreu Ósk Sigurðardóttur. Þá eiga stelpurnar sjálfar einnig hrós skilið fyrir þeirra þátt í undirbúningi hófsins og að eiga stóran þátt í þeirri frábæru stemningu sem ríkir innan hópsins og skilaði sér inn í þessa lokaskemmtun tímabilsins.

Stjórn félagsins vill jafnframt þakka JB úr og skart, Grand þvotti, Græna hattinum, MAk, Múlabergi, Skógarböðunum, Viðburðarstofu Norðurlands, Vox, Ölgerðinni og Vífilfelli fyrir veittan stuðning.

Stjórnin veitti nokkrum dyggum sjálfboðaliðum og samstarfsfólki viðurkenningar. Anna Stefánsdóttir, Eyrún Kristína Gunnarsdóttir, Árni Jóhannesson, Haraldur Ingólfsson, Jórunn Eydís Jóhannesdóttir og Nói Björnsson fengu gjafir frá félaginu.

Þá vill félagið einnig þakka sérstaklega þeim sjálfboðaliðum sem starfað hafa á heimaleikjum og átt þátt í að gera umgjörð leikjanna eins og best verður á kosið. 

Síðast en ekki síst eiga ljósmyndarar okkar bestu þakkir fyrir fórnfýsi og góða þjónustu. Skapti Hallgrímsson hefur oft myndað fyrir okkur á alls konar viðburðum og af mörgum tilefnum. Egill Bjarni Friðjónsson og Þórir Ó. Tryggvason koma á flesta heimaleikina og fáum við myndir frá þeim til birtingar hér á vefnum. Þá hafa Páll Jóhannesson og Sævar Geir Sigurjónsson einnig mætt á marga leiki og birt myndir sínar á öðrum miðlum.

Myndir frá Þóri Tryggva eru komnar í myndalbúm hér á vefnum.

Verðlaunahafar

Verðlaunin eru hefðbundin, valdar eru besta og efnilegasta í meistaraflokki, ásamt því að stjórnin veitir Kollubikarinn, sem Hulda Björg Hannesdóttir hlaut – sjá í sér frétt.

Perry Mclachlan, Margrét Árnadóttir og Jón Stefán Jónsson. Myndir: Þórir Tryggva.


Perry Mclachlan, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Jón Stefán Jónsson. 

Besti leikmaður: Margrét Árnadóttir
Efnilegasti leikmaður: Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir

Margrét spilaði á árinu 17 leiki í Bestu deildinni, skoraði sex mörk, tvö leiki í Mjólkurbikarnum, skoraði tvö mörk, og fimm leiki í Lengjubikar, skoraði eitt mark. Samtals 24 leiki og skoraði í þeim níu mörk. Margrét spilaði að mestu fremst á miðjunni á þessu ári og ásamt því að skora mörk lagði hún upp mörk fyrir samherjana. Hún hefur nú samtals spilað 136 meistaraflokksleiki og skorað í þeim 34 mörk.

Leikirnir skiptast þannig:
A-deild: 89/20
Bikarkeppni: 10/2
Deildabikar: 24/8
Annað/óskilgreint: 7/2
Meistarakeppni: 2/2
Evrópukeppni: 4/0

Kimberley Dóra er fædd 2005 og er nýorðin 17 ára. Hún kom í fyrsta skipti við sögu í efstu deild í fyrra, en hafði þá einnig spilað meistaraflokksleiki með Hömrunum. Hún er miðjumaður og blómstraði í því hlutverki í sumar, spilaði 15 leiki í Bestu deildinni, tvo leiki í Mjólkurbikarnum og fimm leiki í Lengjubikar, þar sem hún skoraði tvisvar. Kimberley Dóra á að baki samtals 39 meistaraflokksleiki og þrjú mörk. Leikirnir skiptast þannig:

Leikirnir skiptast þannig:
A-deild: 17
C-deild: 8/1
Bikarkeppni: 4/0
Deildabikar: 2/0
Annað/óskilgreint: 8/2

Þá á hún að baki samtals níu landsleiki með yngri landsliðum Íslands.

Steingerður og Alma Sól verðlaunaðar í 2. flokki

Stelpurnar kusu sjálfar í yngri flokkum.

Sá háttur var hafður á bæði í 2. og 3. flokki að leikmenn sjálfir kusu besta leikmann og besta liðsfélagann. Þór/KA tefldi fram þremur liðum í 3. flokki og fór fram slík kosning í hverju liði fyrir sig.

Leikmenn í 2. flokki þökkuðu einnig þjálfurum sínum, þeim Ágústu Kristinsdóttur, Birki Hermanni Björgvinssyni og Pétri Heiðari Kristjánssyni, fyrir samstarfið og færðu þeim gjafir - sjá í myndaalbúmi. Þess bera að geta að Tiffany McCarty og Harpa Jóhannsdóttir komu einnig að þjálfun yngri flokkanna á árinu.


Steingerður Snorradóttir, besti leikmaður 2. flokks.


Alma Sól Valdimarsdóttir, besti liðsfélaginn í 2. flokki.

2. flokkur
Besti leikmaður: Steingerður Snorradóttir
Besti liðsfélagin: Alma Sól Valdimarsdóttir

Steingerður er fædd 2005 og spilaði 16 leiki og skoraði sex mörk með 2. flokki, auk þess að vera fastamanneskja í hópnum hjá meistaraflokki, þar sem hún kom við sögu í samtals sjö leikjum í deild og bikar. Alma Sól Valdimarsdóttir er fædd 2004 og spilaði 13 leiki með 2. flokki í sumar.

Verðlaunahafar í 3. flokki

3. flokkur A1:
Besti leikmaður: Emelía Ósk Kruger
Besti liðfélagi: Bríet Jóhannsdóttir

3. flokkur A2:
Besti leikmaður: Emilía Björk Óladóttir
Besti liðsfélagi: Rut Marín Róbertsdóttir

3. flokkur B:
Besti leikmaður: Dagbjört Rós Hrafnsdóttir
Besti liðsfélagi: Elsa Dís Snæbjarnardóttir

Farið verður yfir árangur og tölfræði liðanna í öllum flokkum á næstu dögum hér á heimasíðunni.

Við fengum þessa mynd af nokkrum verðlaunahafanna og þjálfaranna frá lokahófi 3. flokks.