María Catharina aftur í Þór/KA

María Catharina Ólafsdóttir Gros hefur skrifað undir nýjan samning við Þór/KA.
María Catharina Ólafsdóttir Gros hefur skrifað undir nýjan samning við Þór/KA.

 

Þór/KA fær Maríu Catharinu Ólafsdóttur Gros aftur í sínar raðir eftir að hún var hjá Celtic í Skotlandi í tæpt ár. María Catharina skrifaði undir samning við félagið í dag og mun að óbreyttu leika með Þór/KA út þessa og næstu leiktíð.

María Catharina hélt utan til Skotlands í atvinnumennsku á miðju tímabili í fyrra þegar hún gerði samning við hið sögufræga félag Celtic. Þar var hún í vetur og fram á vor, en rifti samningi sínum að lokinni leiktíðinni. Hún hefur að mestu spilað sem kantmaður og framherji, en hjá Celtic kom hún inn í stöðu vængbakvarðar. María spilaði 26 leiki með Celtic og skoraði fimm mörk.

Núna þegar rétt um ár er síðan hún spilaði síðast leik með Þór/KA - 11. júlí 2021 - ákvað hún að snúa aftur á heimaslóðir og hefur samið við Þór/KA út leiktíðina 2023. 

María Catharina (2003) kom fyrst við sögu með meistaraflokki hjá Þór/KA 2018, þá 15 ára gömul. Hún á að baki 58 meistaraflokksleiki og níu mörk, flesta með Þór/KA, en einnig þrjá með Hömrunum þegar hún var þar í láni hluta sumars 2019. Þá hefur María verið í yngri landsliðum Íslands og á samtals að baki 29 leiki og þrjú mörk með U19, U17 og U16 landsliðunum.

Þór/KA býður Maríu velkomna aftur heim til Akureyrar og í okkar raðir.

Upplýsingar um Maríu Catharinu á vef KSÍ.


María Catharina Ólafsdóttir Gros í leik gegn ÍBV þann 11. júlí 2021, en þetta var síðasti leikur hennar með Þór/KA áður en hún hélt utan til Skotlands. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.


Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, og María Catharina Ólafsdóttir gros handsala samninginn.


Jón Stefán Jónsson, annar þjálfara Þórs/KA, og María Catharina að undirskrift lokinni.