María Catharina í hollensku úrvalsdeildina

María á heimavelli Fortuna Sittard með treyju félagsins eftir að hún undirritaði samninginn fyrr í d…
María á heimavelli Fortuna Sittard með treyju félagsins eftir að hún undirritaði samninginn fyrr í dag. Aðsend mynd.

María Catharina Ólafsdóttir Gros hefur skrifað undir samning við hollenska úrvalsdeildarfélagið Fortuna Sittard.

María kom aftur heim og spilaði með Þór/KA síðari hluta tímabilsins 2022 eftir tæplega ársdvöl hjá Celtic í Skotlandi. Markmiðið var að komast aftur út í atvinnumennsku og nú tekur við nýr kafli hjá henni, að spila í hollensku úrvalsdeildinni. Hollenska liðið vildi reyndar fá hana strax síðastliðið sumar, en María tók sér þann tíma sem henni fannst hún þurfa, æfði og spilaði með Þór/KA, en hélt síðan til Hollands núna í lok janúar.

Eftir að hafa undirgengist læknisskoðun og gengið frá formsatriðum hefur hún nú skrifað undir samning við hollenska félagið.

María verður ekki eina íslenska knattspyrnukonan hjá Fortuna Sittard því þar er fyrir Hildur Antonsdóttir. Liðið er núna í 3. sæti í Eridivise, hollensku úrvalsdeildinni, með 22 stig eftir 11 leiki, en nokkuð langt í liðin tvö fyrir ofan, Twente og Ajax, sem bæði eru með 33 stig.

Sittard er bær alveg syðst í Hollandi, hluti af sveitarfélaginu Sittart-Geleen, en íbúar eru um 40.000. „Aðstæðurnar hérna eru mjög flottar. Það er mikið jafnrétti á milli stelpnanna og strákanna. Það er séð mjög vel um mann og ég held að þetta sé rétta umhverfið fyrir mig til að verða betri leikmaður,“ sagði María þegar heimasíðuritari heyrði í henni í dag eftir að samningurinn var undirritaður. "Þetta er alveg nýtt lið og þau sýndu mér áhuga fyrir sumarið í fyrra, en ég taldi að þetta væri rétti tíminn fyrir mig núna að skrifa undir." María segir mikilvægast fyrir sig núna að vinna sig inn í liðið. „Mig langar auðvitað að vinna mig inn í liðið og hjálpa því að gera betur. Langmikilvægast ef maður ætlar að spila vel er að manni líði vel andlega,“ segir María. 

Við óskum henni að sjálfsögðu alls hins besta í nýjum ævintýrum í Hollandi. Til gamans má geta þess að móðir Maríu, Anna Catharina Gros, er almælandi á hollensku, en hún stundaði nám í Hollandi. 


María brosir sínu breiðasta, komin í treyju hollenska úrvalsdeildarfélagsins Fortuna Sittard. Aðsend mynd.


María ásatm þjálfara Fortuna Sittard. Aðsend mynd. 


María skoraði eina markið í sigri Þórs/KA á Þrótti í ágúst. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.


María í leik með Þór/KA síðastliðið sumar. Mynd: Þórir Tryggva.