María Dögg Jóhannesdóttir gengur til liðs við Þór/KA

Stjórn Þórs/KA hefur samið við Maríu Dögg Jóhannesdóttur (2001) um að leika með liðinu næstu þrjú árin. María Dögg mun styrkja og breikka hópinn hjá Þór/KA og gefa þjálfurum fleiri og fjölbreyttari kosti við uppstillingu í vörn liðsins.

María Dögg er Skagfirðingur og hóf að leika með meistaraflokki Tindastóls 2016. Hún hefur því mikla reynslu sem mun skila sér inn í hópinn hjá Þór/KA.

María Dögg hefur á undanförnum árum verið fastamaður og ein af lykilleikmönnum í vörn Tindastóls. Hún er sóknarsinnaður varnarmaður og skoraði fimm mörk í 27 leikjum með Tindastóli í deild, bikar og deildabikar á síðasta tímabili. Hún hefur leikið allan sinn feril hjá Tindastóli, á að baki 210 KSÍ-leiki í meistaraflokki og hefur skorað 27 mörk. Þar af eru 80 leikir í efstu deild og þrjú mörk.

María Dögg Jóhannesdóttir í leik með Tindastóli gegn Þór/KA í Boganum síðastliðið haust. Mynd: Ármann Hinrik.

María Dögg hefur æft með Þór/KA að undanförnu og tekið þátt í leikjum liðsins í Kjarnafæðimótinu, undirbúningsmóti sem Knattspyrnudómarafélag Norðurlands heldur á hverju ári, og hefur nú þegar látið til sín taka með liðinu. Hún skoraði eitt marka liðsins í sigri á Dalvík/Reyni í desember.

Stjórn Þórs/KA fagnar því að fá Maríu Dögg til félagsins og býður hana velkomna í okkar öfluga hóp. María Dögg mun án efa styrkja hópinn og væntum við mikils af því að hafa hana í okkar röðum.

 

María Dögg Jóhannesdóttir - Leikmaður - Knattspyrnusamband Íslands