Mörkin: Una, Ísfold, Agnes og Sonja

Markaskorarar.
Markaskorarar.
 
Þór/KA mætti liði FHL í fyrstu umferð Kjarnafæðismótsins síðastliðinn sunnudag og fór með 4-2 sigur af hólmi. Hér eru mörkin okkar.
 
Una Móeiður Hlynsdóttir (2005) skoraði sitt fyrsta mark fyrir meistaraflokk Þórs/KA í leik liðsins gegn FHL í fyrstu umferð Kjarnafæðismótsins 2022 síðastliðinn sunnudag. Una Móeiður er á yngsta ári í 2. flokki, en á að baki 19 leiki í meistaraflokki með Hömrunum undanfarin tvö tímabil - og þrjú mörk í þeim leikjum. Að auki hefur hún spilað 11 leiki í Kjarnafæðismótinu og skorað þar fjögur mörk - að meðtöldum leiknum síðastliðinn sunnudag.
 
Una Móeiður skoraði fyrsta mark Þórs/KA í 4-2 sigri á FHL. Hún fékk þá góða endingu frá Margréti inn á teiginn vinstra megin og lagði boltann af yfirvegun í markið.
 
 
Ísfold Marý Sigtryggsdóttir (2004) hefur leikið 31 leik í meistaraflokki með Þór/KA og Hömrunum - og hefur skorað tvö mörk í þeim leikjum. Hún kom fyrst við sögu í meistaraflokki með Þór/KA sumarið 2019. Auk þessara leikja hefur hún spilað sjö leiki í Kjarnafæðismótinu. Hún kom Þór/KA í 2-0 í leiknum gegn FHL í Kjarnafæðismótinu síðastliðinn sunnudag, með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig, alveg út við stöng. Þetta er fyrsta markið hennar með meistaraflokknum hjá Þór/KA, en áður hafði hún tvisvar skorað með Hömrunum í 2. deild sumarið 2020.
 
 
Agnes Birta Stefánsdóttir (1997) hefur að mestu leikið á miðjunni með Þór/KA, en einnig sem miðvörður þegar hún var lánuð til Tindastóls sumarið 2020. Hún hefur stundað nám og spilað fótbolta í Ohio í Bandaríkjunum undanfarin ár og því aðeins verið með okkur hluta úr þeim tímabilum.
 
Agnes Birta hefur spilað 55 leiki í meistaraflokki og skorað eitt mark, auk marksins síðastliðinn sunnudag þegar hún kom Þór/KA í 3-1 í seinni hálfleiknum. Fyrsta markið kom í sigri gegn ÍBV sumarið 2019. Markið gegn FHL var skallamark eftir hornspyrnu frá Unni Stefánsdóttur - en þær Agnes Birta og Unnur skrifuðu einmitt saman undir leikmannasamning við Þór/KA fyrir leikinn á sunnudaginn.
 
 
Sonja Björg Sigurðardóttir (2006) skoraði stórglæsilegt mark, fjórða mark Þórs/KA í leiknum. 
 
Sonja Björg er á eldra ári í 3. flokki, en á að baki 11 meistaraflokksleiki með Hömrunum síðastliðið sumar. Hún kom einnig við sögu með Hömrunum og Þór/KA2 í Kjarnafæðismótinu 2021, spilaði þar samtals fimm leiki og skoraði þrjú mörk. Markið á sunnudaginn er hins vegar það fyrsta með aðalliðinu hjá Þór/KA, en eins og fæðingarárið sýnir er Sonja Björg enn gjaldgeng í 3. flokki
 
Hér má sjá mark Sonju, en hún fékk boltann nokkrum metrum utan við vítateigslínuna, eftir sendingu frá Agnesi Birtu. Sonja Björg tók við boltanum, snéri sér við og dúndraði upp í markvinkilinn. Sannarlega glæsilegt mark og væntanlega ekki það síðasta sem hún skorar fyrir Þór/KA.