„Ofboðslega stolt, en geri kröfur á að gera enn betur“

Sandra María Jessen fagnar marki gegn ÍBV sumarið 2022. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson
Sandra María Jessen fagnar marki gegn ÍBV sumarið 2022. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson

Sandra María Jessen hefur verið valin í A-landsliðshópinn á nýjan leik fyrir tvo æfingaleiki í apríl. Heimasíðuritari heyrði í Söndru og fékk viðbrögð hennar við valinu.

„Það er klárlega búið að vera markmiðið mitt frá því að ég átti Ellu að vinna mér aftur inn möguleika með landsliðinu. Ég hef unnið mjög markvisst að því, ég hef fengið aðstoð frá mörgum, maður er alltaf umkringdur góðu fólki sem er tilbúið að aðstoða. Síðan hef ég lagt rosalega mikla vinnu í þetta og er bara stolt af þeirri vegferð sem ég er á. Að sjálfsögðu er ég enn að taka skref fram á við eftir að ég átti Ellu og held að ég sé komin á nokkuð góðan stað núna og er bara sátt með hvernig hlutirnir eru að ganga og þá er gaman að vera verðlaunuð með landsliðssæti," segir Sandra María.

Hún hefur tvisvar á ferlinum gengið í gegnum krossbandaslit, missti úr heilt ár í annað skiptið, spilaði ekkert árið 2014, og um þrjá mánuði í hitt skiptið. Seinna skiptið var í mars 2017 þegar aftara krossband slitnaði - og það er enn slitið, vel að merkja. Þá var hún mætt aftur á völlinn í lok maí, fór með landsliðinu á EM í Hollandi og vann Íslandsmeistaratitil með Þór/KA sama sumar. Að loknu tímabilinu 2019 hélt hún utan í atvinnumennsku hjá Bayer 04 Leverkusen í þýsku Bundesligunni. Þegar hún var hjá Leverkusen varð hún barnshafandi og eignaðist dótturina Ellu Ylví í september 2021. Hún samdi aftur við Þór/KA í janúar 2022 og kom inn á í fyrsta skipti eftir barnseignarfríið í byrjun mars. Stígandinn í forminu og frammistöðunni hefur verið áberandi og eins og margoft hefur komið fram í umfjöllun okkar hér um leiki hefur hún hreinlega verið óstöðvandi í leikjum með Þór/KA á undirbúningstímabilinu, skoraði 10 mörk í fjórum leikjum í Kjarnafæðismótinu og 11 mörk í fimm leikjum í riðlakeppni Lengjubikarsins. 

Í dag var svo tilkynnt um landsliðsvalið fyrir leiki liðsins í apríl og þar er Sandra María aftur komin inn í hópinn. Sandra María er sátt við það hvernig henni hefur gengið að koma til baka og sátt við þann stað sem hún er á í dag, en er metnaðarfull og vill meira. „En á sama tíma og maður er sáttur við þann stað sem maður er á þá gerir maður þær kröfur á sig að gera ennþá betur og geta ennþá meira þannig að maður þarf að halda áfram að gefa í og nýta þetta tækifæri sem ég fæ núna og gera vel, sýna að maður eigi heima í þessum hóp. Þegar það verkefni er búið þá er ég bara með fullan fókus áfram með Þór/KA, halda áfram að gera góða hluti hér. Þá eru allir möguleikar opnir. Þetta snýst um að nýta tækifærið og halda áfram að gera það sem maður er að gera vel.“

Hún segir þetta ekki aðeins viðurkenningu fyrir sig sjálfa, heldur liðið líka. „Síðast en ekki síst er ég rosalega stolt yfir þessum áfanga. Þetta er rosalega stór persónulegur sigur. Ég hef tvisvar slitið krossband og búin að eignast barn og það er meira en að segja það að koma til baka aftur eftir það. Á sama tíma er þetta góð viðurkenning fyrir Þór/KA, þar sem við erum greinilega að gera góða hluti. Það er ekki bara mitt að ég hafi náð þessum áfanga og fái þetta tækifæri með landsliðinu heldur er þetta áfangi sem liðið sem heild er að ná þar sem við erum á mjög góðum stað og ég væri ekki á þeim stað sem ég er á í dag nema af því að liðið og umgjörðin í liðið er svona góð. Ég er bara ofboðslega stolt yfir svo mörgum hlutum," segir Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA og nú aftur landsliðskona.