Okkar konur með yngri landsliðunum

Byrjunarlið Íslands í lokaleiknum gegn Sviss. Bríet Fjóla Bjarnadóttir (8) og Hafdís Nína Elmarsdótt…
Byrjunarlið Íslands í lokaleiknum gegn Sviss. Bríet Fjóla Bjarnadóttir (8) og Hafdís Nína Elmarsdóttir (11) voru báðar í byrjunarliðinu í leiknum. Mynd: ksi.is.
- - -

Bríet Jóhannsdóttir er þessa dagana á Spáni með U19 landsliðinu. Bríet Fjóla Bjarnadóttir og Hafdís Nína Elmarsdóttir spiluðu sína fyrstu landsleiki með U15 á móti sem fram fór á Englandi.

U19 landslið Íslands tekur þessa dagana þátt í undankeppni fyrir EM 2025. Riðill Íslands er spilaður á Spáni og mótherjarnir eru Belgía, Norður-Írland og Spánn. Ísland gerði 1-1 jafntefli við Belgíu í fyrsta leik sínum í riðlinum. Bríet Jóhannsdóttir kom inn á sem varamaður á lokamínútum leiksins. Næsti leikur liðsins er á morgun, laugardag. Mótherjarnir eru Spánverjar, sem unnu Norður-Írland 6-0 í fyrsta leik.

Leikskýrsla og leikir fram undan:

  • Ísland - Belgía 1-1
  • Ísland - Spánn - laugardagur 30. nóvember kl. 11
  • Ísland - Norður-Írland - þriðjudagur 3. desember kl. 11

Tvær með U15 

Þór/KA átti tvo fulltrúa í U15 landsliðinu sem tók þátt í UEFA Development Tournament fyrr í mánuðinum. Bríet Fjóla Bjarnadóttir og Hafdís Nína Elmarsdóttir spiluðu þar sína fyrstu landsleiki og komu við sögu í öllum leikjunum. Bríet Fjóla var í byrjunarliðinu í fyrsta leiknum, gegn sterku liði Englands. Hafdís Nína kom inn af varamannabekknum á 60. mínútu í þeim leik og fimm mínútum síðar skoraði hún eitt þriggja marka Íslands í 3-5 tapi. 

Hafdís Nína var svo í byrjunarliðinu í 0-4 tapi gegn Noregi og spilaði nær allan leikinn, en Bríet Fjóla kom inn af varamannabekknum á 57. mínútu. 

Lokaleikurinn var gegn Sviss og þar voru þær báðar í byrjunarliðinu. Ísland hafði 2-0 forystu eftir fyrri hálfleikinn, Sviss jafnaði og komst yfir í seinni hálfleik, en Ísland jafnaði í 3-3 á 87. mínútu. Kara Guðmundsdóttir úr KR skoraði öll mörk Íslands, en hún á reyndar ættir að rekja til Akureyrar. Þar sem jafnt var eftir venjulegan leiktíma var skorið úr um sigurvegara með vítaspyrnukeppni sem endaði með 6-5 sigri Íslands. 

Hafdís Nína Elmarsdóttir og Bríet Fjóla Bjarnadóttir. 

Leikskýrslurnar:

 

Byrjunarlið Íslands gegn Noregi. Hafdís Nína nr. 11. Mynd: ksi.is.

Byrjunarlið Íslands gegn Englandi. Bríet Fjóla Bjarnadóttir nr. 8. Mynd: ksi.is.