„Okkur er alvara!“

Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson, þjálfarar Þórs/KA. Mynd: Þórir Tryggva
Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson, þjálfarar Þórs/KA. Mynd: Þórir Tryggva

 

„Okkur er alvara með að gera Þór/KA aftur gildandi í deildinni,“ segja þjálfararnir Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson. 

Þeir Jónsi og Perry hafa starfað samhliða sem aðalþjálfarar hjá Þór/KA frá því í október, en áður hafði Perry verið aðstoðarþjálfari liðsins í tvö tímabil. Heimasíðan bað þá félaga að gefa okkur smá innsýn í það sem koma skal. 

Gerum okkur aftur gildandi í deildinni

„Við erum spenntir fyrir sumrinu, tökum það augljóslega einn leik í einu, en deildin er opin og spennandi á þessu ári í fyrsta sinn í langan tíma, mögulega að frátöldu einu liði.

Markmiðið er einfalt hjá okkur á þessari leiktíð, endurreisn, að koma Þór/KA aftur í toppbaráttuna. Það má ljóst vera af þeim leikmönnum sem við höfum fengið til okkar að okkur er alvara með það gera Þór/KA aftur gildandi í deildinni, en erum jafnframt á sama tíma raunsæir varðandi markmið. Við höfum sett markmið með liðinu og eins og við nefndum, tökum þetta einn leik í einu og byggjum upp í átt að þessum markmiðum, en heildaráætlunin nær yfir tvö til þrjú ár." - Perry og Jónsi.

Fjörugt á leikmannamarkaðnum

Ekki löngu eftir tímabilið 2021 var ljóst að tveir lykilleikmenn voru á leið annað. Fyrirliðinn okkar, Arna Sif Ásgrímsdóttir, fór til Vals og Karen María Sigurgeirsdóttir til Breiðabliks.

Nokkrar breytingar höfðu orðið á hópnum á miðju sumri 2021 þegar María Catharina Ólafsdóttir Gros hélt í atvinnumennsku til Skotlands og samningum hafði þá stuttu áður verið rift við tvo erlenda leikmenn okkar, Miröndu Smith og Söndru Nabweteme. Þegar leið á haustið var svo ákveðið að endursemja ekki við tvo aðra erlenda leikmenn, en það voru Colleen Cennedy og Shaina Ashouri, þær eru nú komnar til FH og spila með liðinu í Lengjudeildinni í sumar.

Um og upp úr áramótum fóru svo spennandi hlutir að gerast og samningar við nýja leikmenn undirritaðir. Fyrst var það Brooke Lampe, bandarískur miðvörður. Fljótlega bættust fleiri í hópinn. Þær Tiffany McCarty og Vigdís Edda Friðriksdóttur komu frá Breiðabliki, Unnur Stefánsdóttir frá Grindavík og síðast en ekki síst tvær „heimaræktaðar“, þær Andrea Mist Pálsdóttir og Sandra María Jessen, sem verið höfðu í atvinnumennsku í Svíþjóð og Þýskalandi. Sandra María er að hefja knattspyrnuiðkun aftur núna á vormánuðum eftir barnseignarfrí.

Inn í hópinn hafa svo að sjálfsögðu bæst spennandi leikmenn úr yngriflokkastarfinu. Við förum betur yfir það í annarri frétt með lista yfir allan leikmannahópinn.


Ein af þeim nýju í hópnum, Tiffany McCarty, í leik gegn Keflavík fyrr í vetur. Mynd: Þórir Tryggva.