Sæmd gullmerki ÍSÍ á Degi sjálfboðaliðans

Friðrik Þór Óskarsson, Þóra Guðrún Gunnarsdóttir, Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, og Haraldur Ingólfsson…
Friðrik Þór Óskarsson, Þóra Guðrún Gunnarsdóttir, Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, og Haraldur Ingólfsson. Lárus sæmdi þá Friðrik Þór og Harald gullmerki ÍSÍ á Degi sjálfboðaliðans, en Þóra Guðrún var sæmd gullmerkinu á þingi Skautasambands Íslands fyrr á árinu. Mynd: ÍSÍ.
- - -

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands héldu stutt málþing og buðu sjálfboðaliðum í vöfflukaffi í Íþróttamiðstöðínni í Laugardal á Degi sjálfboðaliðans, þriðjudaginn 5. desember.

Þau þrjú sem tilnefnd voru í vali á íþróttaeldhuga ársins 2022, Friðrik Þór Óskarsson, Haraldur Ingólfsson og Þóra Guðrún Gunnarsdóttir, fluttu erindi þar sem þau töluðu um sjálfboðastarf frá ýmsum hliðum. Þau hafa nú öll verið sæmd gullmerki ÍSÍ. Þóra Guðrún Gunnarsdóttir var sæmd gullmerki ÍSÍ á ársþingi Skautasambands Íslands fyrr á árinu, en þeir Friðrik Þór Óskarsson og Haraldur Ingólfsson voru sæmdir gullmerki við upphaf málþingsins.

Eftirfarandi frétt var birt á vef ÍSÍ eftir málþingið:

Dagur sjálfboðaliðans var í gær, 5. desember, og við það tækifæri buðu ÍSÍ og UMFÍ sjálfboðaliðum íþróttahreyfingarinnar á málþing og í vöfflukaffi í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Haraldur Ingólfsson Íþróttaeldhugi ársins 2022 og þau Þóra Guðrún Gunnarsdóttir og Friðrik Þór Óskarsson, sem einnig voru útnefnd til titilsins á síðasta ári, héldu öll frábær erindi um sjálfboðaliðastörf í hreyfingunni og um þá þætti sem halda eldinum logandi hjá sjálfboðaliðum.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, sæmdi í upphafi viðburðarins, þá Friðrik Þór Óskarsson og Harald Ingólfsson Gullmerki ÍSÍ fyrir þeirra frábæra framlag til íþróttahreyfingarinnar. Þóra Guðrún var sæmd Gullmerki ÍSÍ á ársþingi Skautasambands Íslands fyrr á árinu. Öll þrjú eru frábærir fulltrúar allra þeirra ómetanlegu sjálfboðaliða sem starfa í hreyfingunni um allt land og var bæði fróðlegt og skemmtilegt að hlusta á þeirra frásagnir.

Á forsíðumynd fréttarinnar eru frá vinstri: Friðrik Þór, Þóra Guðrún, Lárus og Haraldur. Aðrar myndir sýna eldhugana þrjá flytja erindi sín.

ÍSÍ þakkar öllum sjálfboðaliðum íþróttahreyfingarinnar á Íslandi fyrir ómetanlegt framlag til íþróttastarfsins.

Vöfflukaffið var í boði Vilko og Mjólkursamsölunnar.

Myndirnar eru af vef ÍSÍ.


Þóra Guðrún Gunnarsdóttir hefur starfað mikið í kringum skautaíþróttir. Hún flutti erindi þar sem hún kom meðal annars inn á skipulag í kringum það að fá sjálfboðaliða til starfa.


Friðrik Þór Óskarsson sagði meðal annars frá vinnu sinni við gerð gagnagrunns fyrir árangur í frjálsum íþróttum. Hann var sjálfur í fremstu röð í þrístökki og fleiri greinum.


Haraldur Ingólfsson ræddi meðal annars um eðli sjálfboðastarfsins og jafnrétti kynjanna í íþróttalífinu og fjármálum og mætti af því tilefni í keppnistreyju Þórs/KA.