Saga Líf framlengir


Saga Líf Sigurðardóttir (1999) hefur undirritað nýjan samning við Þór/KA og verður því áfram hjá félaginu að minnsta kosti út árið 2022.

Saga Líf hefur spilað sem miðjumaður, en einnig leyst stöðu vinstri bakvarðar. Hún á að baki 74 meistaraflokksleiki með Þór/KA og Hömrunum, þar af 34 leiki í efstu deild. Síðastliðið sumar kom hún við sögu í 18 leikjum í deild og bikar.

Hún spilaði 15 leiki með yngri landsliðum Íslands (U19, U17 og U15).

Saga Líf spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik með Þór/KA 2016 og var í meistaraflokkshópi Þórs/KA 2016 og 2017, en spilaði þau ár flesta leiki sína með 2. flokki félagsins og átti því þátt í Íslandsmeistaratitli bæði hjá meistaraflokki og 2. flokki, ásamt bikarmeistaratitli 2. flokks.

Hún var lánuð til Hamranna sumarið 2018, en hefur frá 2018 gegnt vaxandi hlutverki í liði Þórs/KA í efstu deild. Samningur Sögu gildir til eins árs.

Við óskum Sögu Líf til hamingju með samninginn og fögnum því að hún verði áfram í herbúðum okkar.


Saga Líf í leik gegn Tindastóli sumarið 2021. Mynd: Þórir Tryggva


Saga Líf með „iðagrænan“ heimavöllinn í baksýn.


Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, og Saga Líf Sigurðardóttir undirrita samninginn.