Karfan er tóm.
Sandra María Jessen hefur stimplað sig rækilega inn í þýska fótboltann að nýju á nokkrum vikum hjá nýju félagi, hefur verið í byrjunarliði í öllum leikjum liðsins til þessa og er byrjuð að raða inn mörkunum eins og sú Sandra sem við þekkjum. Köln hefur tekið vel á móti henni enda má segja að hún tengist borginni fjölskylduböndum.
Heimasíðuritara fannst tímabært að heyra hljóðið í okkar konu um þá breytingu sem orðið hefur á hennar högum, fá hjá henni eins konar kveðju að utan og heim. Sandra María er reyndar mætt aftur til Íslands og fram undan er seinni leikur íslenska landsliðsins við það norður-írska í umspili Þjóðadeildar UEFA. Þegar þetta er ritað og birt er unnið að því að færa leikinn inn í Kórinn í stað Laugardalsvallar vegna veðurs og vallaraðstæðna, en þó ekki staðfest hvort svo verði.
Eins og fólki er kunnugt hélt Sandra María aftur utan í atvinnumennsku og samdi við þýska félagið 1. FC Köln í lok ágúst eftir að hafa verið hjá Þór/KA frá því í ársbyrjun 2022. Hún kveðst mjög þakklát fyrir allt sem félagið hefur gert fyrir hana, hér hafi hún lært mikið og þroskast og hún væri ekki á þeim stað sem hún er í dag nema fyrir Þór/KA. Hún vonar að þetta ævintýri sem hún upplifir og það tækifæri sem hún fær núna verði gott fordæmi fyrir aðrar heima á Akureyri og sýni að þetta sé hægt, að leikmenn úr Þór/KA séu nær því en þær halda að geta elt drauma sína og farið út í atvinnumennsku.
Sandra María hefur verið í byrjunarliðinu hjá Köln í öllum leikjum liðsins í deild og bikar frá því keppnistímabilið hófst í byrjun september, samtals átta leikjum og einum að auki sem blásinn var af eftir 38 mínútur og síðan þurrkaður út af þeim sem ráða ferðinni í Bundesligunni, með marki Söndu Maríu og forystu Kölnarliðsins.

Liðið tapaði fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni, en þó aðeins með eins og tveggja marka mun. Eftir þrjá leiki og eitt liðsmark komst Sandra María loks á blað þegar hún skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 sigri Kölnarliðsins á SGS Essen í 4. umferðinni og var að auki valin maður leiksins. Segja má að síðan þá hafi andstæðingarnir reglulega fengið að finna fyrir marksækni hennar því hún skoraði í næstum hverjum einasta leik eftir að fyrstu mörkin komu.
Eftir mörkin tvö gegn SGS Essen komu tvö í fyrstu umferð bikarkeppninnar gegn VFR SW Warbeyen og síðan eitt sögulegt mark í leik sem var svo þurrkaður út. Það var þegar hún mætti gamla liðinu sínu, Bayer 04 Leverkusen. Strax eftir 26 sekúndur skoraði hún glæsilegt skallamark, en því miður tókst ekki að klára leikinn því flóðljósin á heimavelli Kölnarliðsins biluðu undir lok fyrri hálfleiks. Staðan var þá 1-0. Þessar 38 mínútur voru svo þurrkaðar út og liðin mættust aftur. Þá varð 2-2 jafntefli, Sandra María skoraði ekki heldur fékk hún bæði vítaspyrnu og aukaspyrnu sem gáfu mörk Kölnar. Næst var komið að stórveldinu Bayern München og þar skoraði Sandra María eina mark Kölnarliðsins, náði forystunni, en því miður svaraði Bayern með fimm mörkum.
Sandra María hefur því skorað fjögur mörk í sjö deildarleikjum og tvö í einum bikarleik, auk marksins sem var þurrkað út. Það er því óhætt að segja að Kölnarliðið hafi fengið það sem sóst var eftir, Söndru Maríu á markaskónum.
Það sem var ef til vill óvenjulegt við vistaskipti Söndru Maríu núna er tímasetningin því keppnistímabilin á Íslandi og í Þýskalandi stangast á. Við lok félagaskiptagluggans voru enn nokkrar vikur eftir af tímabilinu hér á landi, en stutt í að keppni í þýsku Bundesligunni hæfist. Spurningin sem Sandra María stóð frammi fyrir var hvort hún ætti að taka stökkið strax eða klára tímabilið með Þór/KA og geta þá á móti ekki hafið leik með Köln fyrr en eftir áramót, eftir gluggaopnun og jólahlé í Þýskalandi.
„Ég er mjög þakklát og meyr þegar ég hugsa til baka, fyrir allt sem Þór/KA hefur gert fyrir mig og allt sem Þór/KA hefur kennt mér, sem er ótrúlega mikið,“ segir Sandra María spurð um hvernig tilfinning það hafi verið að fara héðan.

Sandra María hefur gengið í gegnum ýmislegt á ferli sínum með Þór/KA, sigra og ósigra, unnið titla og lent í erfiðum meiðslum. En minningarnar eru jákvæðar þegar hún lítur til baka.
„Ég mun aldrei eiga neitt nema jákvæðar minningar og bros á vör þegar ég horfi til baka á öll árin mín hjá Þór/KA. Þegar ég hugsa til baka til litlu Söndru Maríu sem kom í meistaraflokk 2010-2011 þá er ýmislegt sem maður hefur gengið í gegnum, góðir tímar, erfiðir tímar, lærdómsríkir tímar og tímar sem standa upp úr, einhverjir titlar og einhver afrek. En bara að horfa til baka og sjá hvað maður hefur lært mikið frá því ég byrjaði í meistaraflokki, það er ótrúlega skemmtilegt þar sem maður hefur vaxið mikið sem knattspyrnukona og líka sem einstaklingur. Ég hef eignast góða vini og kynnst mörgu fólk sem hefur unnið í kringum klúbbinn sem mér þykir vænt um í dag. Ég veit að ég væri ekki á þeim stað sem ég er í dag nema fyrir Þór/KA og það er eitthvað sem ég verð alltaf þakklát fyrir. Ég gæti ekki hafa valið betri klúbb til að alast upp í en Þór/KA.“
Aðspurð segir hún félagaskiptin til Þýskalands á þeim tímapunkti þegar Þór/KA átti enn nokkrar vikur eftir af keppnistímabilinu hafa verið erfiða ákvörðun. „Ekki síst á miðju tímabili þar sem ég hef sterkar tilfinningar gagnvart klúbbnum, þetta er fjölskyldan mín og maður vill gera allt fyrir klúbbinn og fjölskylduna,“ segir Sandra María.
Frammistaða Söndru Maríu með landsliðinu á EM fór líklega ekki framhjá okkar fólki jafnvel þótt gengi liðsins hafi ekki verið gott. Hún var á meðal öflugustu leikmanna liðsins í öllum þremur leikjunum og má vel rökstyðja að í heildina hafi hún verið besti leikmaður íslenska liðsins. Það vakti athygli hjá þeim sem fylgdust með og Sandra María fékk að vita af miklum áhuga erlendra klúbba á henni.
„Ég fór að skoða möguleikana á því hvort ég ætti að upplifa eitt ævintýri í viðbót í útlöndum,“ segir Sandra María, bendir á að hún sé ekki lengur sú yngsta í boltanum og þurfi því að stökkva á möguleikana þegar þeir koma. „Þess vegna ákváðum við sem fjölskylda, ég, unnusti minn og Ella að skoða hvað væri í boði. Fyrst var planið að fara eftir tímabilið en svo stangast tímabilið á Íslandi á við margar af stærstu deildunum í Evrópu. Köln sýndi strax mikinn áhuga og var tilbúið að gera margt fyrir mig til að ég myndi skrifa undir, sem varð kannski til þess að ég ákvað að fara út strax,“ segir Sandra María, en ákvörðunin var þó ekki auðveld.

„Þessi samtöl sem ég átti fyrst við Jóa og svo stelpurnar eru erfiðustu samtöl sem ég átt á ævinni. Mér þykir vænt um klúbbinn og velgengni liðsins svo að þetta var ekki létt ákvörðun. Ég upplifði smá eins og ég væri að svíkja einhvern, en svo fann ég strax frá öllum, sama hvort það voru leikmenn, þjálfarar, stjórnin eða starfsmenn í kringum liðið; það var ekkert nema stuðningur og gleði og allir sem samglöddust mér og vildu mér vel. Það var mjög góð tilfinning fyrir mig að upplifa ekki að fólk væri óánægt með að ég hafi farið á miðju tímabili heldur að bara að fólk sé stolt af manni. Það var mjög góð tilfinning fyrir mig og gott veganesti út.“
Hún segir líka gott að geta verið, eins og Jóhann þjálfari hefur margoft bent á í samtölum við hana og svo innan hópsins, að hún fékk þarna tækifæri til að vera gott fordæmi fyrir aðrar, sýna að þetta sé hægt, að leikmenn í liði Þórs/KA séu nær því en þær halda að geta nálgast landsliðið eða geta elt drauma sína í atvinnumennsku úti.
„Ég vona að þetta geti virkað sem hvatning fyrir leikmenn til að sýna þeim hvað þær eru nálægt þessu. Ég væri aldrei á þeim stað sem ég er í dag nema út af liðinu, leikmönnum, þjálfurum og öllum í kring. Það þurfa bara allir að halda áfram og ég er viss um að Þór/KA muni halda áfram að dafna og blómstra. Það eru kannski smá kynslóðaskipti í gangi og það tekur sinn tíma.“
Þegar við ræddum fyrst við Söndru Maríu var það fljótlega eftir leikinn og sigurinn mikilvæga gegn Tindastóli þar sem Þór/KA tryggði endanlega sæti sitt í deildinni.
„Ég er bara mjög stolt af stelpunum að hafa klárað þennan leik á móti Tindastóli. Ég horfði mjög stressuð heima á þann leik og er rosalega glöð að sjá hvernig stelpurnar tækluðu þann leik og tryggðu sér áfram sæti í Bestu deildinni á næsta ári,“ segir Sandra María um stöðu mála eins og hún var. Viðtalið var líka tekið áður en Jóhann Kristinn ákvað að halda ekki áfram með liðið.
Síðasti leikur Söndru Maríu – í bili, vonandi – áður en hún hélt út til Þýskalands í lok ágúst var gegn FHL í Boganum. Auðvitað skoraði hún eitt marka Þórs/KA í leiknum, síðasta markið – í bili, vonandi – fyrir Þór/KA. Það fór líka vel á því að það var Hulda Ósk Jónsdóttir sem átti stoðsendinguna, fyrirgjöf frá hægri á kollinn á Söndru Maríu, eins og svo oft áður. Myndir: Ármann Hinrik.
„Ég er viss um að þjálfarateymið og stelpurnar eiga eftir að stilla saman strengi á næsta undirbúningstímabili og koma sterkari inn í næsta tímabil og gera enn betur þar. Það er rosalega mikið af efnilegum og góðum leikmönnum í liðinu okkar. Bara spurning um að trúa nógu mikið á sig sjálfar og stilla alla strengi saman. Þá er ekkert sem segir að það sé ekki hægt að láta sig dreyma um einhver toppsæti í deildinni. Ég er ótrúlega stolt af stelpunum og þakklát fyrir þær og ég er alltaf spennt að sjá þegar Þór/KA er að spila og sjá hvernig leikirnir ganga.“
Spurð um skilaboð til yngri iðkenda segir Sandra María mikilvægt fyrir allt íþróttafólk, bæði stelpur og stráka, í fótbolta, handbolta eða öðru að leggja sig alla fram og gefa sig af fullu í verkefnið. „Það er allt hægt svo lengi sem maður leggur inn vinnuna og trúir á sjálfan sig, nýtir allar þær upplýsingar og það sem verið er að kenna af þjálfurum, liðsfélögum og öðrum. Trúðu á það sem þú ert að gera, hafðu gaman af því sem þú ert að gera, leggðu á þig vinnuna og þá er allt hægt. Ég vona bara að ungir íþróttaiðkendur horfi á það, þegar fólk er með einhverja drauma, að það er allt hægt ef þau vilja það nógu mikið.“
Það er kannski ósanngjarnt að spyrja Söndru Maríu um framtíðina þegar hún hefur verið tæpa tvo mánuði í atvinnumennsku á nýjum stað, framtíðina með landsliðinu, mögulega þátttöku á Heimsmeistaramóti eða hve lengi hún býst við að vera erlendis í atvinnumennsku.
„Ég skrifaði undir samning til tveggja ára hjá Köln þannig að ég er að minnsta kosti að spila fótbolta í tvö ár í viðbót. Ef ég á að vera heiðarleg þá hef ég ekkert ákveðið nákvæmlega hvað ég ætla að spila lengi eða hvað ég ætla að gera eftir þessi tvö ár. Ég hef alltaf verið manneskja sem lifir í núinu og sé bara og fókusa á það sem er í gangi núna. Það er aldrei að vita hvað maður gerir eftir þessi tvö ár. Hvort maður verði áfram hér, það er alltaf möguleiki, fari eitthvað annað eða komi aftur heim til Íslands. Það eru engar dyr lokaðar og ég ætla bara að bíða og sjá hvernig tíminn fer með mann, hvernig manni líður og hvers konar tilfinningar maður hefur varðandi fótboltann áfram.“

Niðurstaðan eftir leik Íslands og Norður-Írlands í kvöld, það er ef Ísland vinnur samanlagt, getur auðveldað landsliðinu leiðina á næsta Heimsmeistaramót, sem yrði þá í fyrsta skipti sem stelpurnar okkar kæmust á HM. Er hún að hugsa um framtíðina með mögulega þátttöku á HM í huga?
„Auðvitað er það á bakvið eyrað að eftir tvö ár er möguleiki á að taka þátt á HM með landsliðinu og það er auðvitað eitthvað sem við í landsliðinu stefnum á, en við þurfum bara að bíða og sjá hvernig það gengur. Auðvitað getur líka verið að maður hætti eftir þessi tvö ár, en ég sé ekki endilega í dag að ég sé að fara að hætta eftir tvö ár þannig að nú er bara að bíða og sjá og njóta þessara tveggja ára sem eru fram undan núna í Köln og þeirra forréttinda sem ég hef að spila hjá svona flottu félagi, njóta þess að vera hér og spila,“ segir Sandra María og bendir á að á bakvið það að fá svona tækifæri sé mikil vinna, margir klukkutímar, mörg ár af vinnu sem hún hefur lagt í til að vera á þeim stað sem hún er á í dag. „Byrjum að minnsta kosti á tveimur árum og svo þarf bara að sjá hvað tekur við.“
Það leikur enginn vafi á að Sandra María gleymir ekki upprunanum, æskuárunum á Akureyri og ferlinum í gegnum yngri flokkana og svo með Þór/KA.
„Mig langar að þakka sérstaklega öllum sem ég hef unnið með í gegnum þessi ár hjá Þór/KA, leikmönnum, ég veit ekki hve mörgum tugum af leikmönnum, stjórnendum, þjálfurum og öðrum sem hafa hjálpað mér að komast á þann stað sem ég er á í dag og móta þá manneskju sem ég er í dag. Ég er rosalega þakklát fyrir hvert einasta „input“ sem fólk hefur gefið mér og vona að ég hafi á einhvern hátt gefið til baka líka. Ég mun alltaf fylgjast með Þór/KA og Þór/KA mun alltaf eiga stóran stað í hjartanu á mér,“ segir Sandra María Jessen að lokum og heldur svo vonandi áfram að skora á þýskum knattspyrnuvöllum og öðrum þar sem hún stígur niður fæti.
- Myndirnar í rauðu römmunum eru „fengnar að láni“ á samfélagsmiðlum 1. FC Köln.

Síðasta fagnið með Þór/KA – í bili, vonandi – eftir 4-0 sigur á FHL 21. ágúst 2025. Myndir: Ármann Hinrik.