Sandra María með 200 leiki fyrir Þór/KA

Sandra María Jessen spilaði sinn 200. meistaraflokksleik í mótum á vegum KSÍ þegar Þór/KA vann 2-1 sigur á Selfossi síðastliðinn sunnudag.

Í þessari talningu eru leikir í efstu deild Íslandsmótsins (147), bikarkeppni (19), deildabikar (33) og Meistarakeppni KSÍ (1). Hún hefur skorað 117 mörk í þessum 200 leikjum. 

Að auki á hún að baki átta leiki í Meistaradeild Evrópu með Þór/KA og 48 meistaraflokksleiki með Bayer 04 Leverkusen í efstu deild í Þýskalandi og Slavia Prag í efstu deild í Tékklandi. Eru þá ótaldir 33 A-landsleikir. Sandra María lék á lánssamningi frá Þór/KA hjá Bayer 04 Leverkusen fyrstu mánuði ársins 2016 og einnig með Slavia Prag á lánssamningi frá Þór/KA frá janúar fram í maíbyrjun 2018. Hún samdi síðan við Bayer 04 Leverkusen í lok árs 2018 og var á samningi þar út leiktíðina 2020-21, en spilaði sinn síðasta leik fyrir Leverkusen í desember 2020.

  • Fyrsti leikur í meistaraflokki: Sandra María kom fyrst við sögu í leik í meistaraflokki 19. mars 2011 þegar hún kom inn sem varamaður og spilaði seinni hálfleikinn í 1-1 jafntefli gegn Fylki í A-deild Lengjubikarsins.
  • Fyrsti leikur hennar í efstu deild, þá Pepsi deildinni, var í 2-1 sigri gegn Grindavík á útivelli 22. maí 2011.
  • Hún var í fyrsta skipti í byrjunarliði í meistaraflokki í 3-1 sigri á Fylki í Pepsi deildinni 1. júní 2011.
  • Fyrsta mark hennar í meistaraflokki var í 1-3 tapleik gegn Val í Meistarakeppni KSÍ 7. maí 2011.
  • Fyrsta markið í efstu deild skoraði Sandra María á Kópavogsvelli (þá grasvelli) 28. júní 2011 í 4-2 sigri á Breiðabliki.
  • Félagsmethafi í markaskorun: Sandra María hefur skorað flest mörk allra leikmanna Þórs/KA í efstu deild, 87, og bætir það félagsmet því með hverju marki sem hún skorar.

Samkvæmt tölfræðisamantekt á vef KSÍ þegar nafni Söndru Maríu er slegið upp eru leikirnir aðeins 199, en þar vill reyndar svo til að inn í talninguna á vef KSÍ vantar leik í Meistarakeppni KSÍ 2011, þegar Sandra María skoraði fyrsta mark sitt í meistaraflokki. Valur hafði unnið tvöfalt sumarið áður og mætti Þór/KA sem varð í 2. sæti Pepsi deildarinnar 2010. Sandra María var varamaður í þessum leik og er með skráð mark, en við skráningu leikskýrslunnar hefur láðst að skrá innáskiptinguna, þannig að hún er á listanum með núll leiki og eitt mark í Meistarakeppni KSÍ. 

Eins og sjá má á skjáskoti úr leikskýrslunni hér að neðan er Heiða Ragney Viðarsdóttir skráð tvisvar með inná skiptingu, þannig að gera má ráð fyrir að önnur þeirra eigi við um Söndru Maríu. 

 

Hér má sjá atvikaskráningu í áðurnefndum leik í Meistarakeppni KSÍ 7. maí 2011 og neðar eru skjáskot úr leikskýrslunni og frétt í Morgunblaðinu 9. maí sama ár.

Leikurinn sem vantar, á listanum eru „0“ leikir, en „1“ mark.

Skjáskot úr Morgunblaðinu 9. maí 2011 (timarit.is).