Sandra María með A-landsliðinu

Sandra María á æfingu með landsliðinu. Myndin er af Facebook-síðu KSÍ.
Sandra María á æfingu með landsliðinu. Myndin er af Facebook-síðu KSÍ.

Sandra María Jessen er þessa dagana á ferð og flugi með A-landsliði Íslands. Fram undan eru tveir síðustu leikirnir í Þjóðadeildinni. Íslenska liðið mætir liði Wales ytra í kvöld og svo Dönum í Kaupmannahöfn þriðjudaginn 5. desember.

Sandra María hefur verið í byrjunarliðinu í öllum leikjum liðsins í Þjóðadeildinni hingað til þrátt fyrir að hafa misst úr æfingaleiki í júlí vegna meiðsla. Fram kemur í frétt á vef KSÍ að ferðalag liðsins til Wales hafi gengið vel og að allar í hópnum séu heilar og tilbúnar í leikinn.

Leikur liðsins gegn Wales er sérlega mikilvægur því liðin eru í tveimur neðri sætum riðilsins, Wales án stiga og Ísland með þrjú stig. Það lið sem endar í þriðja sæti riðilsins fer í umspil í febrúar um að halda sæti sínu í A-deild Þjóðadeildar UEFA. Danir og Þjóðverjar bítast um sigur í riðlinum.

Leikurinn hefst kl. 19:15 í kvöld og verður í beinni útsendingu á Rúv.