Sandra María með fjögur á 17 mínútum

Öruggur sigur í dag. Sandra María Jessen raðaði inn mörkum á 17 mínútna kafla.
Öruggur sigur í dag. Sandra María Jessen raðaði inn mörkum á 17 mínútna kafla.

Þór/KA sigraði lið FHL með níu marka mun í Kjarnafæðismótinu í dag. Sandra María Jessen skoraði fjögur mörk.

Það tók okkar stelpur um hálftíma að brjóta vörn gestanna á bak aftur, en þá komu tvö mörk á tveimur mínútum, fyrst var það Ísfold Marý Sigtryggsdóttir sem kom Þór/KA í 1-0 og svo Una Móeiður Hlynsdóttir sem bætti við öðru markinu.

Sandra María Jessen skoraði svo þriðja markið á 40. mínútu og staðan 3-0 í leikhléi. Sandra bætti svo við þremur mörkum snemma í seinni hálfleik, skoraði þrennu á um fimm mínútna kafla, og mörkin fjögur samtals á um 17 leikmínútum, frá 40. mínútu til 57. mínútu.

Hulda Björg Hannesdóttir bætti svo við sjöunda markinu á 70. mínútu og Jakobína Hjörvarsdóttir því áttunda tveimur mínútum síðar. Jakobína skoraði svo sitt annað mark og níunda mark liðsins á 86. mínútu.

Niðurstaðan var 9-0 sigur, en hafa verður í huga að FHL var að spila sinn annan leik á innan við sólarhring. Liðið mætti Tindastóli í gær kl. 18 og svo Þór/KA í dag kl. 15. Eftir að hafa náð að halda sjó fyrsta hálftímann fór orkan smátt og smátt þverrandi og leikmenn Þórs/KA gengu á lagið, héldu áfram á fullu allan leikinn.

Þór/KA-liðin eru nú jöfn á toppi mótsins með níu stig. Þór/KA með markatöluna 18-1, en Þór/KA2 með 16-6.

Þór/KA2 hefur lokið sínum leikjum, en Þór/KA á eftir að mæta liði Völsungs. Sá leikur er á dagskrá næstkomandi sunnudag, 29. janúar, kl. 15.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mótið á vef KSÍ.

Leikmenn og þjálfarar í leikslok í dag. Aftari röð frá vinstri: Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir (skoraði tvö með hægri), Kolfinna Eik Elínardóttir, Karlotta Björk Andradóttir, Amalía Árnadóttir, Harpa Jóhannsdóttir, Krista Dís Kristinsdóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir og Ágústa Kristinsdóttir þjálfari.

Fremri röð frá vinstri: Emelía Ósk Kruger, Bríet Jóhannsdóttir, Sandra María Jessen, Rebekka Sunna Brynjarsdóttir, Katla Bjarnadóttir, Una Móeiður Hlynsdóttir, Steingerður Snorradóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir, Ísabella Júlía Óskarsdóttir, Birkir Hermann Björgvinsson þjálfari, og Pétur Heiðar Kristjánsson þjálfari.