Sandra María með þrennu - eða ekki?

Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen.

 

Þór/KA sigraði Fylki, 3-0, í lokaleik liðanna í riðli 2 í A-deild Lengjubikarsins í dag. Þór/KA2 í 3. flokki gerði jafntefli við ÍBV.

Nokkrar breytingar voru gerðar á liðsskipan frá síðasta leik, bæði vegna meiðsla og af öðrum ástæðum. Inn í byrjunarliðið núna komu Sara Mjöll í markinu, Iðunn Rán og Angela Mary í miðvarðarstöður og Rakel Sjöfn á hægri vænginn. 

Enn von um undanúrslit

Mikilvægt var fyrir Þór/KA að vinna leikinn því það var eina leiðin til að eiga möguleika á sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins. Það verður þó ekki ljóst fyrr en á mánudag þegar Afturelding og Þróttur mætast.

Ef Afturelding vinnur ekki þann leik heldur Þór/KA 2. sæti riðilsins og mætir Breiðabliki í undanúrslitum. 

Yfirburðir í leiknum

Stelpurnar í Þór/KA komu ákveðnar til leiks í dag og höfðu nokkra yfirburði í öllum þáttum leiksins, voru meira með boltann, sköpuðu mörg færi og gáfu fá færi á sér. 

Sandra María Jessen kom okkur á bragðið með tveimur mörkum á aðeins fjögurra mínútna kafla þegar um hálftími var liðinn af leiknum.

Fyrra markið kom eftir að Þór/KA vann boltann á eigin vallarhelmingi, sending fram á Tiffany sem tók skemmtilega við honum og lagði inn í teiginn vinstra megin á Söndru Maríu. Sandra María reyndi að renna boltanum framhjá Tinnu Brá í markinu, Tinna náði að verja, en þó þannig að Sandra náði aftur til boltans og skoraði í autt markið.

Annað markið kom síðan eftir góða sendingu frá Margréti inn á teginn á Söndru Maríu sem renndi sér og tók hann í fyrsta, framhjá markverði Fylis.

Með smá heppni hefði Sandra María og fleiri leikmenn getað skorað nokkur mörk í viðbót. En staðan eftir fyrri hálfleikinn var 2-0.

Áfram einstefna í seinni hálfleik

Seinni hálfleikurinn var svipaður, Þór/KA hélt áfram að skapa færi, en gekk þó illa að koma boltanum í markið. Sláarskot, varin skot, skot framhjá og svo framvegis.

Það var hins vegar Sandra María sem skoraði eina mark seinni hálfleiksins og kláraði þar með þrennuna sína á 52. mínútu - eða ekki. Saga Líf var þá með boltann vinstra megin, renndi út á Söndru Maríu sem spilaði upp að teignum og átti skot að marki. Vigdís Edda kom á ferðinni í átt að boltanum og markverði Fylkis, fipaði Tinnu Brá í markinu og snerti boltann mögulega, en hann fór að minnsta kosti áfram í markið.

Annað hvort hafði Sandra María klárað þrennuna eða Vigdís Edda skoraði sitt fyrsta mark fyrir Þór/KA. Dómari leiksins skráði markið að minnsta kosti á Vigdísi Eddu - þannig að frásögn okkar hér fyrr í kvöld af þrennu Söndru Maríu kann að vera ýkt nokkuð.

Hvernig sem markið var skráð þá var ekki skorað meira og úrslitin 3-0.

Leikskýrslan á vef KSÍ.

Staðan í riðlinum og úrslit leikja, á vef KSÍ.

Nú er bara að bíða til mánudags og sjá hvernig framhaldið verður hjá leikmönnum Þór/KA.

Jafntefli á KA-velli

Fyrr í dag spilaði Þór/KA2 í 3. flokki sinn annan leik á Íslandsmótinu, C-riðli, 1. lotu, þegar lið ÍBV kom í heimsókn norður. Liðin mættust á KA-vellinum og skildu jöfn, 1-1.

Erna Sólveig Davíðsdóttir kom ÍBV yfir á 37. mínútu, en Rut Marín Róbertsdóttir jafnaði fyrir Þór/KA á 53. mínútu.