Sigrar hjá 2. og 3. flokki

Sigri fagnað með myndatöku. Tveir af þjálfurum liðsins, Birkir Hermann og Pétur Heiðar, eru í baksýn…
Sigri fagnað með myndatöku. Tveir af þjálfurum liðsins, Birkir Hermann og Pétur Heiðar, eru í baksýn, en einn þjálfaranna, Ágústa Kristinsdóttir, tók myndina.

 

Tvö af liðunum í 3. flokki unnu leiki í Íslandsmótinu um helgina og lið 2. flokks er komið áfram í átta liða úrslit bikarkeppninnar eftir sigur á Fjölni í dag. Næst á dagskrá: Spánarferð og þátttaka í Barcelona Girls Cup.

Laugardaginn 4. júní spiluðu tvö af liðum Þórs/KA í 3. flokki við Val/KH. Í keppni A-liða, A-riðli, lotu 2, vann Þór/KA 3-2 með mörkum frá Ólínu Helgu Sigþórsdóttur, Bríeti Jóhannsdóttur og Kristu Dís Kristinsdóttur. Þór/KA komst í 3-0 í fyrri hálfleik, en Valur/KH tvívegis í þeim seinni. Strax á eftir mættust lið þessara sömu félaga í Íslandsmóti B-liða, A-deild, og þar hafði Þór/KA einnig sigur, 2-1, með mörkum frá Klöru Parraguez Solar og Evu Hrund Hermannsdóttur, en öll þrjú mörk leiksins komu á síðustu tíu mínútunum.

Leikskýrsla á vef KSÍ - A-lið, A-riðill, lota 2.
Leikskýrsla á vef KSÍ - B-lið

Þór/KA2, sem spilar í B-riðli, hafði áður gert 1-1 jafntefli við Tindastól/Kormák/Hvöt fimmtudaginn 2. júní. Þór/KA2 tekur þátt í Íslandsmóti A-liða, sem annað lið frá Þór/KA, vann C-riðilinn í fyrstu lotunni og er nú í B-riðli þar sem liðið hefur unnið einn leik og gert eitt jafntefli. 

Leikskýrslan á vef KSÍ - A-lið, B-riðill, lota 2.

Á leið til Spánar

Næst á dagskrá hjá stelpunum í 3. flokki er þátttaka í Barcelona Girls Cup sem fram fer 11.-12. júní. 

Liðin í 2005-2006 árgangnum mæta annars vegar Dosjobro IF frá Svíþjóð, Swindon Town FC frá Englandi og US Terre Sainte frá Sviss og hins vegar 1. FFC Turbine Potsdam frá Þýskalandi, enska liðinu Leam Rangers FC og heimaliðinu UD Viladecans frá Katalóníu - sjá leikjadagskrá hér.

Það er reyndar áhugavert að lið frá Þór/KA og Turbine Potsdam mætist, en þegar þessar stelpur voru fimm ára mættust meistaraflokkar þessara félaga í Meistaradeild UEFA, en Turbine Potsdam hafði þá lengi verið eitt allra sterkasta lið Þýskalands og Evrópu.

Þór/KA-liðin í 2007 árgangnum mæta annars vegar CD Morell frá Katalóníu, Glenavon Belles JFC frá Englandi og sænska liðinu Tölö IF Green og hins vegar enska liðinu Epsom and Ewell Colts, Tölö IF Black frá Svíþjóð og WSS Barcelona frá Katalóníu - sjá leikjadagskrá hér.

Við munum fylgjast með Spánarferðinni hér á heimasíðunni og á samfélagsmiðlunum okkar. 

Þór/KA/Völsungur áfram í bikarkeppni 2. flokks

Lið Þórs/KA/Völsungs í 2. flokki hélt suður í morgun og mætti liði Fjölnis í Grafarvoginum í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar. Þar höfðu okkar stelpur 3-1 sigur eftir að Fjölnir komst yfir í upphafi leiks. Tanía Sól Hjartardóttir og Steingerður Snorradóttir skoruðu báðar í fyrri hálfleiknum og Sonja Björg Sigurðardóttir gulltryggði sigurinn með þriðja markinu undir lok leiksins. Þór/KA/Völsungur er því komið áfram í átta liða úrslit þar sem þær mæta liði Tindastóls í júlí.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Bikarkeppni 2. flokks - leikjadagskrá og úrslit - á vef KSÍ.

Hluti af leikmannahópi 2. flokks fer einnig með í Spánarferðina þar sem stelpur úr 2005 árgangnum taka þátt í mótinu með 2006 árgangnum, en fyrir stelpur fæddar 2004 er um æfingaferð að ræða þar sem þær eru ekki gjaldgengar í mótinu sjálfu. Segja má að covid-faraldurinn setji mark sitt á skipulag þessarar ferðar þar sem utanlandsferðir eins og þessar hafa fallið niður undanfarin tvö ár.