Sigur í leik dagsins og sigur í mótinu

Allar saman. Leikmannahópurinn hjá Þór/KA í dag ásamt þeim sex sem voru lánaðar til Völsungs í leikn…
Allar saman. Leikmannahópurinn hjá Þór/KA í dag ásamt þeim sex sem voru lánaðar til Völsungs í leiknum - en þær hafa allar einnig komið við sögu í leikjunum hjá okkar liðum.

Sandra María Jessen skoraði þrennu í sigri á Völsungi í dag. Þór/KA og Þór/KA2 enda í tveimur efstu sætum Kjarnafæðismótsins 2023.

Þór/KA mætti liði Völsungs í Boganum í dag og var þetta lokaleikurinn hjá okkar stelpum. Húsvíkingar hafa átt í vandræðum með að manna liðið og fengu í dag lánaðar nokkrar stelpur úr okkar röðum til að spila þennan leik.

Þór/KA skoraði þrjú mörk á átta mínútum í fyrri hálfleiknum og bætti svo við öðrum þremur í seinni hálfleiknum.

Fyrsta markið kom á 14. mínútu þegar Jakobína Hjörvarsdóttir sendi boltann út á vinstri kantinn á Söndru Maríu sem lék inn á völlinn fyrir utan vítateig og átti svo fast skot rétt við vítateigsbogann.

Ísfold Marý Sigtryggsdóttir skoraði annað markið eftir hornspyrnu frá Jakobínu, um það bil þremur mínútum eftir fyrsta markið, skallaði boltann þá í netið nánast við marklínuna eftir að sending Jakobínu hafði farið yfir varnarmenn og markmann Völsungs.

Amalía Árnadóttir skoraði þriðja markið á 21. mínútu. Fyrirgjöf frá hægri, Sandra María lagði boltann út á Unu sem sendi á Amalíu og hún fékk frið til að leggja hann fyrir sig og skjóta.

Ekki meira skorað í fyrri hálfleiknum.

Það tók Þór/KA svo næstum hálftíma að opna markareikning seinni hálfleiksins. Á 74. mínútu barst boltinn til Amalíu vinstra megin upp við endamörk, hún lagði hann út í teiginn og Emelía Ósk Kruger skoraði af öryggi.

Sandra María skoraði svo sitt annað mark á 84. mínútu. Hildur Anna Birgisdóttir, sem hafði komið inn sem varamaður tveimur mínútum áður, fékk þá boltan hægra megin og sendi háan bolta á fjærstöng þar sem Sandra fékk frið til að skalla hann í netið.

Hildur Anna kom svo aftur við sögu í sjötta markinu á 89. mínútu. Hún fékk þá boltann upp hægri kantinn frá Kristu Dís og reyndi fyrirgjöf (eða skot). Ísabella í marki Völsungs náði að verja og slá boltann frá, en þar beið Sandra María og kláraði þrennuna.

14’: 0-1 Sandra María Jessen – stoðsending: Jakobína Hjörvarsdóttir
17’: 0-2 Ísfold Marý Sigtryggsdóttir – stoðsending: Jakobína Hjörvarsdóttir
22’: 0-3 Amalía Árnadóttir – stoðsending: Una Móeiður Hlynsdóttir
74’: 0-4 Emelía Ósk Kruger – stoðsending: Amalía Árnadóttir
84’: 0-5 Sandra María Jessen – stoðsending: Hildur Anna Birgisdóttir
89’: 0-6 Sandra María Jessen – stoðsending: Hildur Anna Birgisdóttir

Þór/KA hefur þar með lokið keppni í Kjarnafæðismótinu 2023 og stendur uppi sem sigurvegari. Liðið vann alla fjóra leiki sína í mótinu. Þór/KA2 endar í 2. sæti mótsins með níu stig. Sandra María er langmarkahæst í mótinu með tíu mörk, en mótinu er reyndar ekki lokið. Völsungur á eftir að mæta bæði FHL og Tindastóli.

Ætlunin er að taka saman markasyrpu úr leikjum okkar liða og birta, vonandi á allra næstu dögum, ásamt smá yfirferð um mótið, með tölum og fróðleik um þá leikmenn sem komu við sögu hjá liðunum okkar í mótinu. Nokkuð margar að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mótið á vef KSÍ.


Að loknum leik og loknu móti. Aftari röð frá vinstri: Rut Marín Róbertsdóttir, Marey Dóróthea Maronsdóttir Olsen, Harpa Jóhannsdóttir, Arna Rut Orradóttir, Anna Guðný Sveinsdóttir, Ísabella Júlía Óskarsdóttir, Emelía Ósk Kruger, Angela Mary Helgadóttir, Steingerður Snorradóttir, Kolfinna Eik Elínardóttir, Karlotta Björk Andradóttir og Bríet Jóhannsdóttir.

Fremri röð frá vinstri: Hulda Björg Hannesdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir, Krista Dís Kristinsdóttir, Sonja Björg Sigurðardóttir, Amalía Árnadóttir, Una Móeiður Hlynsdóttir, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, Sandra María Jessen, Hildur Anna Birgisdóttir, Hulda Ósk Jóhannsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir. 

Mynd: HarIngo