Silfur í Lengjubikar

Þór/KA og Stjarnan gerðu 2-2 jafntefli í úrslitaleik Lengjubikarsins í Garðabænum í gær. Stjarnan hafði sigur í vítaspyrnukeppni.

Þór/KA hefur hafði eflaust strax í riðlakeppninni komið sparkspekingum á óvart, en spár og álit annarra skipta engu máli þegar góðir þjálfarar vinna með góðum leikmönnum. Liðið vann fjóra leiki af fimm í riðlakeppninni, tapaði einungis fyrir Þrótturum. Þór/KA lagði síðan Breiðablik á Kópavogsvelli í undanúrslitunum og mætti Stjörnunni í úrslitaleik mótsins í Garðabænum í gær.

Þór/KA komst tvisvar yfir í leiknum. Fyrst var það Sandra María Jessen sem skoraði skemmtilegt mark eftir fallega sókn þar sem Karen María Sigurgeirsdóttir átti sendingu inn á teiginn til Söndru Maríu og hún náði að renna boltanum fram hjá markverði Stjörnunnar. Sýndi sig þar að skotin þurfa ekki alltaf að vera föst. Markið kom á 15. mínútu leiksins. Stjarnan náði að jafna um stundarfjórðungi síðar. Staðan 1-1 í leikhléi.

Aftur náði Þór/KA forystunni þegar Hulda Ósk Jónsdóttir fékk boltann fyrir utan vítateig og skaut í fallegum boga yfir markvörð Stjörnunnar. Eftir sendingu fram og skalla frá miðverði Stjörnunnar náði Sandra María  að potaboltanum til Huldu Óskar, sem skoraði þetta glæsimark á 63. mínútu.

Því miður náði liðið ekki að halda þessu forskoti og Stjarnan jafnaði aftur, 2-2, eftir 76 mínútna leik. Stjarnan sótti ákaft á lokakaflanum en tilraunir þeirra runnu út í sandinn, varnarmenn hentu sér fyrir skotin, Harpa varði það sem kom á markið og lokatölur því 2-2.

Ekki er framlengt í Lengjubikar heldur farið beint í vítaspyrnukeppni. Þar höfðu Stjörnustelpur sigur, 5-4. Á meðal þeirra sem skoruðu úr sínum vítum fyrir Stjörnuna voru tvær gamlar Þór/KA stelpur, Heiða Ragney Viðarsdóttir og Andrea Mist Pálsdóttir. Heiða Ragney er að hefja sitt þriðja tímabil með Stjörnunni, en Andrea Mist fór til Stjörnunnar frá Þór/KA eftir tímabilið 2022.

Lofar góðu fyrir sumarið

Þegar á allt er litið geta leikmenn og þjálfarar Þórs/KA borið höfuðið hátt eftir þetta mót sem lofar að mörgu leyti góðu fyrir „alvöruna“ þegar keppni í Bestu deildinni hefst í lok apríl. Fyrsti leikur Þórs/KA verður þá einmitt á sama velli, en liðið mætir Stjörnunni í Garðabænum miðvikudaginn 26. apríl.

0-1 – Sandra María Jessen (15‘) – Stoðsending: Karen María Sigurgeirsdóttir
1-1 – Snædís María Jörundsdóttir (34‘)
1-2 – Hulda Ósk Jónsdóttir (63‘) – Stoðsending: Sandra María Jessen
2-2 – Ólína Ágústa Valdimarsdóttir (77‘)

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Úrslitakeppnin á vef KSÍ.

Riðlakeppnin - riðill 1 - riðill 2.
Leikir Þórs/KA í riðlinum

Mörkin - upptaka úr Veo-vél.

Nokkrir áhugaverðir punktar úr Lengjubikarnum

  • Alls komu 25 leikmenn við sögu hjá Þór/KA í leikjunum í riðlinum, og ein bættist síðan við í úrslitaleikjunum, Dominique Randle. Átján leikmenn tóku þátt (byrjuðu eða komu inn á) í leikjunum tveimur í úrslitakeppninni.
  • Af þessum 26 leikmönnum eru 16 fæddar á árunum 2005-2007, yngri en 18 ára eða verða 18 ára á árinu - sjá nafnalista á vef KSÍ.
  • Meðalaldur þessara 26 leikmanna er rétt rúmlega 20 ár. Sú elsta, Tahnai Annis, er fædd 1989, en þær yngstu, Hildur Anna Birgisdóttir, Karlotta Björk Andradóttir og Kolfinna Eik Elínardóttir, eru fæddar 2007 og urðu Íslandsmeistarar með 3. flokki Þórs/KA í haust.
  • Sandra María Jessen skoraði langflest mörk allra í riðli 1 og reyndar í mótinu öllu, samtals 11 mörk í fimm leikjum. Hún skoraði í öllum fimm leikjunum, þrjár þrennur (FH, Valur, Selfoss) og eitt mark á móti KR og Þrótti. Sandra bætti síðan við einu marki í úrslitaleiknum og skoraði því samtals 12 mörk í sjö leikjum. Hún skoraði í öllum leikjunum nema einum, á móti Breiðabliki í undanúrslitum. Næst á eftir Söndru í markaskorun í keppninni í heild var Bryndís Arna Níelsdóttir í Val með sjö mörk og þrjár úr Breiðabliki með sex mörk hver.
  • Tahnai Annis skoraði flest mörk í úrslitakeppninni. Hún skoraði tvívegis í 2-1 sigri á Breiðabliki í undanúrslitunum.
  • Þegar Þór/KA mætti Þrótti í fjórðu umferð riðilsins í Egilshöll kl. 21 á föstudagskvöldi hafði Þróttur ekki fengið á sig mark í fyrstu þremur leikjum sínum. Þór/KA náði forystunni í þeim leik þegar Sandra María Jessen skoraði, sem var þá fyrsta markið sem Þróttur fékk á sig í mótinu. Það dugði þó ekki því Þróttarar bættu við þremur mörkum.
  • Breiðablik fékk á sig þrjú mörk í mótinu, eitt mark í riðli 2, en það var í 1-1 jafntefli á móti Sjtörnunni. Hin tvö mörkin skoraði Tahnai Annis í undanúrslitaleiknum.