Sjö mörk, sigur og sæti í undanúrslitum

Þór/KA nægði að ná sér í eitt stig í lokaleik liðsins í riðli 1 í A-deild Lengjubikarsins þegar liðið mætti Selfyssingum í Boganum til að ná 2. sæti riðilsins og komast þar með áfram í undanúrslit Lengjubikarsins, en stelpurnar voru þó ekkert að dunda sér við að spila upp á jafntefli.

Bæði lið fengu ágætis færi í fyrri hálfleiknum, en Selfyssingar voru á undan að skora, tóku forystuna á 17. mínútu. Það mark kom eftir hornspyrnu, Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir skallar þá að marki og Íris Una Þórðardóttir fleytir boltanum áfram í markið. Verður ekki betur séð af upptökum en að Íris Una hafi verið rangstæð og markið því ekki átt að standa. 

Nokkuð fjör færðist í leikinn í seinni hluta fyrri hálfleiks og fengu bæði lið mjög góð færi, en voru lengst af mislagðir fætur. Jöfnunarmarkið kom ekki fyrr en á 42. mínútu. Tahnai Annis fékk þá boltann í vítateignum eftir hornspyrnu og misheppnaða hreinsun og átti skondið skot sem fór í stöng og inn. Jafnt var í leikhléi, 1-1.

Mörkum rigndi á lokakaflanum

Eftir aðeins um sex mínútna leik í seinni hálfleik náði Þór/KA svo forystunni. Karen María Sigurgeirsdóttir fékk þá sendingu upp að vítateig og var brotið á henni inni í teignum. Sandra María Jessen skoraði úr vítaspyrnunni. Markið og forystan færðu okkar stelpum byr í seglin og aukið sjálfstraust. Það var þó ekki fyrr en á síðustu 20 mínútunum sem flóðgáttirnar opnuðust. Sandra María skoraði sitt annað mark á 69. mínútu eftir að stelpurnar unnu boltann á vallarhelmingi gestanna, Hulda Ósk Jónsdóttir fór upp hægra megin og sendi fallegan bolta yfir á fjærstöngina þar sem Sandra María tók hann á lofti og skoraði, 3-1. Hulda Ósk hafði reyndar skorað gott mark eftir hornspyrnu um þremur mínútum áður, en það var dæmt af.

Fjórða markið kom á 75. mínútu eftir hornspyrnu frá Jakobínu Hjörvarsdóttur, en flestar hornspyrnurnar hennar sköpuðu hættu við mark Selfyssinga. Agnes Birta Stefánsdóttir, sem lék í stöðu miðvarðar í dag, var þá á fjærstönginni og skallaði í markið af stuttu færi. Fimmta markið kom á 77. mínútu og var sjálfsmark gestanna, en það var Amalía Árnadóttir sem skapaði það að verulegu leyti. Hún fékk þá boltann inn í teiginn hægra megin, lék á varnarmann gestanna og átti fyrirgjöf/skot sem fór af einum varnarmanni, í annan og í markið.

Sandra María kláraði þrennuna – sína þriðju þrennu í þessu móti – þegar hún skoraði sjötta mark Þórs/KA af stuttu færi á 80. mínútu eftir að stelpurnar höfðu unnið boltann enn einu sinni á miðjunni. Bríet Jóhannsdóttir renndi boltanum þá fyrir markið og Sandra María skoraði, 6-1. Emelía Ósk Kruger kom inn á sem varamaður strax eftir sjötta markið og tæpum tíu mínútum síðar skoraði hún sjöunda mark liðsins. Sandra María Jessen átti þá skot að marki sem var varið og Emelía Ósk var fyrst á boltann og skoraði.

Veislunni var þó ekki lokið því á 91. mínútu náðu gestirnir að skora sitt annað mark. Katrín Ágústsdóttir skoraði þá með skoti af vítateigslínu. Þar með var veislunni lokið, úrslitin 7-2 í lokaleik Þórs/KA í riðlinum.

Mörk, stoðsendingar og mínútur

0-1 – Íris Una Þórðardóttir (17’)
1-1 – Tahnai Annis (42’)
2-1 – Sandra María Jessen (v) (51’)
3-1 – Sandra María Jessen (69') - Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir
4-1 – Agnes Birta Stefánsdóttir (75') – Stoðsending: Jakobína Hjörvarsdóttir
5-1 – Sjálfsmark (77’) – Stoðsending: Amalía Árnadóttir
6-1 – Sandra María Jessen (81’) – Stoðsending: Bríet Jóhannsdóttir 
7-1 – Emelía Ósk Kruger (90‘) – Stoðsending: Sandra María Jessen 
7-2 - Katrín Ágústsdóttir (90+1')

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mótið á vef KSÍ.

Með sigrinum tryggði Þór/KA sér 2. sætið í riðli 1, en Þróttur hafði þegar unnið alla sína leiki og tekið efsta sætið. Þessi tvö lið fara áfram í undanúrslit þar sem Þór/KA á að mæta Breiðabliki. Sá leikur var áætlaður laugardaginn 25. mars, en datt að því er virðist inn í mótakerfi KSÍ strax að leik loknum í dag á nýjum tíma, skráður fimmtudaginn 23. mars kl. 17:30.

Þriðja þrenna Söndru Maríu

Sandra María Jessen skoraði í dag sína þriðju þrennu í Lengjubikarnum, en hún er samtals komin með 11 mörk í fimm leikjum, hefur skorað í öllum leikjum liðsins í mótinu. Til fróðleiks má geta þess að sú markahæsta í Bestu deildinni síðastliðið sumar skoraði 11 mörk í 18 leikjum. Mörk Söndru: FH (3), KR (1), Valur (3), Þróttur (1) og Selfoss (3). Þessi markasúpa Söndru kemur auðvitað í kjölfarið á tíu mörkum sem hún skoraði í fjórum leikjum í Kjarnafæðismótinu. Samtals komin með 21 mark á árinu og það er bara 19. mars í dag.

Myndbandi með mörkum og fleiru verður bætt hér inn í fréttina síðar í kvöld eða á morgun. Hér að neðan má sjá lokastöðuna í riðli 1. Breiðablik og Stjarnan enduðu jöfn að stigum í riðli 2, Breiðablik í 1. sæti með betri markamun.