Skellur á heimavelli

Þór/KA fékk skell í 14. umferð Bestu deildarinnar þegar Þróttarar fóru með 4-0 sigur af hólmi og þar með öll stigin suður.

Þetta var þó aðeins 13. leikur liðsins í deildinni því flestum leikjum 13. umferðar var frestað vegna þátttöku Íslands í lokamóti EM U19, án þess þó að leikjum sé frestað vegna þátttöku leikmanna í stærsta móti heims í íþróttinni, HM. 

Skoruðu snemma

Þróttarar skoruðu mark strax á 3. mínútu og aftur undir lok fyrri hálfleiks, bættu svo við tveimur mörkum í þeim seinni. 

Tvær úr hópnum spiluðu sínar fyrstu mínútur í Bestu deildinni í dag. Arna Rut Orradóttir og Júlía Margrét Sveinsdóttir, báðar fæddar 2006, hafa leikið með Völsungi frá því í vetur, en skiptu aftur í Þór/KA fyrir stuttu. Þær komu inn í leikmannahópinn í dag og spiluðu lokamínútuna ásamt uppbótartímanum. Þar með hafa níu leikmenn liðsins spilað sínar fyrstu mínútur í Bestu deildinni og sumar þeirra komið við sögu í mörgum eða spilað alla leiki liðsins.

Gangur leiksins:

  • 0-1 - Katherine Amanda Cousins (3')
  • 0-2 - Sierra Marie Lelii (44')
  • 0-3 - María Eva Eyjólfsdóttir (50')
  • 0-3 - Freyja Karín Þorvarðardóttir (79')

Þór/KA er áfram í 5. sæti deildarinnar þrát tfyrir tapið, en Stjarnan fylgir nú fast á hæla liðsins, með 18 stig í 6. sætinu. Næsti leikur liðsins verður á útivelli gegn FH miðvikudaginn 2. ágúst.