Snævi þakið tap í Mosó

Jón Stefán Jónsson þjálfari ræðir við dómaratríóið fyrir leik.
Jón Stefán Jónsson þjálfari ræðir við dómaratríóið fyrir leik.

Þór/KA beið lægri hlut, 1-5, gegn liði Aftureldingar í Mosfellsbæ í öðrum leik sínum í Faxaflóamótinu. Forföll, þreyta og erfiðar aðstæður höfðu mikil áhrif á frammistöðu og niðurstöðu dagsins.

Það voru heldur leiðinlegar aðstæðurnar á Varmárvellinum í hádeginu í dag þegar Þór/KA mætti til að spila við heimalið Aftureldingar í Faxaflóamótinu. Snjókoma og völlurinn þakinn snjó, línur illa sjáanlegar og varla aðstæður til að spila góðan fótbolta.

Ef um leik í Íslandsmóti hefði verið að ræða hefði dómarinn aldrei flautað leikinn á. En stelpurnar okkar höfðu þegar gert sér ferð suður, spiluðu við Stjörnuna á föstudagskvöldið, og því reynt að spila þennan leik í dag – dýrt að aflýsa og ætla að koma aftur bara fyrir þennan leik.

Forföll og þreyta

Ekki bætti úr skák að hópurinn varð þunnskipaðri en ætlunin var í upphafi (sóttkví, meiðsli og fleira) og því ekki hægt að dreifa álaginu eins og þyrfti þegar spilað er kl. 18:30 á föstudegi og svo aftur kl. 12 á sunnudegi. Það má því segja að þreyta, ofan í þessar aðstæður, hafi gert stelpunum erfitt fyrir og það nýttu fljótir framherjar Aftureldingar sér því flest eða öll mörk þeirra komu á svipaðan hátt, snöggar sóknir, stungusendingar og framherji á auðum sjó gegn markmanni.


Það var kalt á bekknum í dag. Þór/KA hafði því miður aðeins tvo útispilara og einn markmann til skiptanna í þessum leik.

Kimmy með mark í báðum leikjunum

Afturelding komst í 2-0 eftir rúmar 20 mínútur, en Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir minnkaði muninn í 2-1 á 25. mínútu. Þetta var annað mark hennar í ferðinni og annað mark hennar fyrir Þór/KA yfirleitt. Afturelding bætti svo við einu marki fyrir leikhlé og staðan 3-1 eftir fyrri hálfleikinn.

Snemma í seinni hálfleik kokm fjórða markið frá Aftureldingu og svo það fimmta eftir rúmlega 60 mínútna leik. 


Þjálfarar Þórs/KA, Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson, eru alla jafna hlýlegir náungar, en þeir voru þó heldur kuldalegir á hliðarlínunni í dag.

Leik hætt eftir 80 mínútur

Eftir 80 mínútna leik var ákveðið að hætta og flautaði dómarinn leikinn af.

Mark okkar: Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir
Mörk Aftureldingar: Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir 4, Ísafold Þórhallsdóttir 1.

Leikskýrslan á vef KSÍ. Rétt er að benda á að skiptingar voru ekki skráðar inn á leikskýrslu enda varð niðurstaðan þegar leið á leikinn að þær yrðu „fljótandi“. Hjá okkur komu Hulda Björg og Andrea Mist út af og þær Amalía og Ólína Helga inn í þeirra stað.

Öll liðin hafa spilað tvo leiki í mótinu. Afturelding hefur sex stig, Stjarnan og Þór/KA þrjú stig, Keflavík og Haukar eitt stig.

Næst á dagskránni

Næstu leikir okkar í Faxaflóamótinu eru á dagskrá 4. og 6. febrúar, aftur tveir leikir í einni helgarferð, fyrst gegn Haukum á Ásvöllum á föstudagskvöldi og svo Keflavík í Reykjaneshöllinni á sunnudeginum.

Næsti leikur okkar er hins vegar í Kjarnafæðismótinu, en sunnudaginn 30. janúar er áætlað að liðið mæti Völsungi í Boganum. Vegna áhorfendabanns er að sjálfsögðu á dagskrá að streyma þeim leik. Nánar um það þegar þar að kemur.