Spádómum gefið langt nef í Garðabæ

Peppað fyrir leik í gær.
Peppað fyrir leik í gær.

Þór/KA hóf leik í Bestu deildinni í gærkvöld þegar liðið heimsótti Stjörnuna í Garðabæ. Sandra María Jessen skoraði eina mark leiksins, frábær sigur staðreynd og verðskulduð þrjú stig eftir góða frammistöðu.

  • Stjarnan – Þór/KA 0-1 (0-1).
    Mark: Sandra María Jessen (27). Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir.
  • Tvær ungar Þór/KA-stelpur spiluðu í gær sínar fyrstu mínútur í efstu deild.
    Amalía Árnadóttir (2006) kom inn fyrir Steingerði Snorradóttur á 8. mínútu þegar Steingerður meiddist á ökkla, en Amalía þurfti svo reyndar sjálf að fara af velli á 88. mínútu eftir að hún fékk fast skot í andlitið.
    Karlotta Björk Andradóttir (2007) spilaði lokamínúturnar í leiknum, en hún hefur í vetur verið að spila sínar fyrstu mínútur með meistaraflokki, fimm leiki í Kjarnafæðismótinu, sex leiki í Lengjubikarnum og núna fyrstu innkomu í Bestu deildinni.
  • Tvær af þeim erlendu í okkar liði spiluðu einnig sína fyrstu leiki í efstu deild á Íslandi, þær Dominique Randle og Melissa Lowder.
  • Sandra María Jessen skoraði í gær sitt 22. mark í vetur. Hún skoraði tíu mörk í Kjarnafæðismótinu, 11 mörk í Lengjubikarnum og núna fyrsta mark sitt í Bestu deildinni á þessu tímabili.
  • Þetta var 82. mark hennar fyrir Þór/KA í efstu deild. Rakel Hönnudóttir skoraði 74 mörk fyrir Þór/KA í efstu deild á árunum 2006-2011, en fyrsta ár Söndru Maríu í meistaraflokki var einmitt síðasta ár Rakelar með Þór/KA.
  • Elsti leikmaður vallarins, kanadíski markvörðurinn hjá Stjörnunni, Erin Mcleod, er 24 árum eldri en Karlotta Björk, en hún er yngsti leikmaðurinn sem kom við sögu í leiknum, fædd 2007.

  • Fyrsti leikur í efstu deild á Íslandi. Melissa Lowder, Karlotta Björk Andradóttir, Amalía Árnadóttir og Dominique Randle.
  • Sjá einnig umfjöllun á Akureyri.net.
  • Hér má svo sjá markið og færi í fyrri hálfleik á YouTube-síðu Bestu deildarinnar.

„Það er vorhret á glugga, napur vindur sem hvín“

Það var heldur hryssingslegt í Garðabænum í gær, snjókoma eða slydda á köflum og kalt. Stelpurnar sluppu þó burt af suðvesturhorninu með öll þrjú stigin sem í boði voru, áður en vorhretið hófst fyrir alvöru. Vorhretið skall hins vegar á Stjörnustelpunum þegar Þór/KA mætti í Garðabæinn. Stelpurnar okkar mættu vel stemmdar til leiks, spiluðu skipulega og vissu nákvæmlega hvað þurfti til að gera betur en í síðustu heimsókn í Garðabæinn.

Þrátt fyrir að þurfa að gera breytingu á liðinu strax á 8. mínútu þegar Steingerður Snorradóttir meiddist og Amalía Árnadóttir kom inn á, með tilheyrandi tilfærslum á leikstöðum, hélt liðið áfram sínum leik eins og ekkert hefði í skorist. Með fjölhæfa leikmenn innanborðs sem geta spilað margar stöður á vellinum hafði þessi breyting svona snemma leiks lítil sem engin áhrif á leik liðsins.

Bæði lið áttu sláarskot snemma leiks, áður en fyrsta markið kom. Þegar fyrri hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður átti Amalía sendingu upp hægra megin þar sem Hulda Ósk Jónsdóttir fór laglega framhjá varnarmanni Stjörnunnar, sendi hárnákvæman bolta fyrir þar sem Sandra María Jessen mætti og skallaði í markið. Þegar upp var staðið reyndist þetta eina mark leiksins, sigur og þrjú verðskulduð stig í fyrsta leik. Spádómar hinna ýmsu sérfræðinga fengu bara langt nef að norðan, karíókí í rútunni á heimleiðinni og vorhretið skilið eftir á höfuðborgarsvæðinu.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Besta deildin á vef KSÍ.

Fyrsti heimaleikurinn á mánudag

Stelpurnar fá stutta hvíld fram að næsta leik þegar þær taka á móti Keflvíkingum mánudaginn 1. maí kl. 16. Sá leikur getur hvorki farið fram á Þórsvellinum né í Boganum og hefur því verið færður á KA-völlinn. Fyrir þann leik verða seldir hamborgarar og drykkir og ástæða til að hvetja Akureyringa til að mæta á fyrsta heimaleikinn hjá stelpunum og hjálpa þeim að fylgja þessari góðu byrjun í deildinni eftir.