Nú styttist í að keppni í Bestu deildinni hefjist, en áður en kemur að fyrsta leik er stuðningsmannakvöld á dagskrá á fimmtudagskvöld og svo lokaleikur okkar í Kjarnafæðimótinu föstudagskvöldið 11. apríl.
Föstudagskvöldið 11. apríl kl. 19 er komið að síðasta leik okkar áður en keppni í Bestu deildinni hefst. Við eigum enn eftir að klára Kjarnafæðimótið og nú mætum við nýja Bestudeildarliðinu, FHL, í lokaleik mótsins. Leikurinn fer fram í Boganum og er gott tækifæri fyrir stuðningsfólk okkar til að fjölmenna og senda stelpurnar okkar með aukaorku inn í aðalmót ársins, Bestu deildina.
Það eru líka fleiri tækifæri til að stilla saman strengina og sameina orkuna, fara hærra saman, eins og segir í þekktum texta eftir sjúkraþjálfarann Hannes Bjarna Hannesson. Kvöldið fyrir þennan leik, fimmtudagskvöldið 10. apríl kl. 19:45, ætlum við að hittast í Hamri á stuðningsmannakvöldi þar sem flutt verða ávörp, leikmenn kynntir og fleira skemmtilegt. Einnig styttist í að við hefjum ársmiðasöluna og er stefnan að hún verði að verulegu leyti í Stubbi, smáforriti sem auðvelt er að ná sér í og nota í símanum til að kaupa ársmiða eða staka miða á leiki.
Fjölmennum á kynningarkvöldið og leiki liðsins. Höfum gaman, styðjum stelpurnar og verum þátttakendur í nýjum ævintýrum. Hærra saman!
