Tahnai Annis aftur í raðir Þórs/KA

Tahnai Annis gerir samning við Þór/KA út árið.
Tahnai Annis gerir samning við Þór/KA út árið.

Þór/KA hefur samið við fyrrum leikmann félagsins, Tahnai Annis. Hún er sóknarsinnaður miðjumaður og kom fyrst til Þórs/KA 2012, árið sem liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti.

Tahnai hefur tvöfaldan ríkisborgararétt, fædd í Ohio í Bandaríkjunum og er með bandarískan ríkisborgararétt, en einnig filippseyskan. Hún hefur leikið með landsliði Filippseyja frá 2018, á þar 31 leik að baki og er fyrirliði landsliðsins. Landslið Filippseyja er á meðal þeirra liða sem fara á HM í sumar.

Hún lék með Þór/KA á árunum 2012-2014, samtals 72 leiki í efstu deild, bikarkeppni, deildabikar, meistarakeppni og Evrópukeppni. Hún skoraði 21 mark í þessum 72 leikjum. Hún var lykilleikmaður með Þór/KA 2012-2014 og var valin besti leikmaður liðsins eftir tímabilið 2013.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA þekkir Tahnai vel því hann var þjálfari liðsins þau ár sem hún var hjá Þór/KA og var sá sem fékk hana til liðs við okkur þá. Jóhann kveðst ánægður með að fá hana aftur í okkar raðir. „Hún er auðvitað gæðaleikmaður, við vitum það frá því að hún var hér 2012-14, en lykilatriði fyrir okkur núna er að fá reynslu inn í hópinn, það er stórt atriði fyrir okkur eins og hópurinn er samsettur. Hún gerir alla leikmenn í kringum sig betri. Okkar ungi og efnilegi hópur hefur mjög gott af því. Þetta á eftir að hjálpa okkar leikmönnum sem fyrir eru mjög mikið. Auðvitað er hún líka frábær leikmaður og það spilar vissulega inn í þessa ákvörðun hjá okkur,“ segir Jóhann.

Samningur Þórs/KA og Tahnai gildir út þetta ár.

Í rafrænni leikskrá sem kom út í upphafi tímabilsins 2019 var rætt við Tahnai um dvöl hennar á Íslandi. Þar segir hún meðal annars frá heimsókn á bóndabæ, fjárragi í réttunum, sauðburði og fleiru. Í greininni er einnig rætt við Jóhann Kristin sem segir meðal annars að hún hafi verið alveg ótrúlega vanmetinn leikmaður, hafi ævinlega og bókstaflega nánast alltaf flogið undir radarinn. „Framlag hennar á vellinum var alltaf 100% og vinnusemin ómæld. Fjölhæf, kappsfull og metnaðargjörn. Hún var alltaf tilbúin að skilja allt eftir og leggja allt sitt undir svo liðinu gengi vel," segir Jóhann meðal annars í spjallinu frá 2019.


Tahnai Annis í leik með Þór/KA gegn HK á Þórsvellinum 2013. Mynd: Páll Jóhannesson.


Í leik gegn Þrótti 2013. Mynd: Páll Jóhannesson.


Í leik gegn ÍBV 2013. Þarna er í markinu góðkunningi okkar, Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, sem seinna kom til Þórs/KA og vann Íslandsmeistaratitil með liðinu 2017. Mynd: Páll Jóhannesson.

Í leik gegn rússneska liðinu Zorki í Meistaradeildinni 2013. Mynd: Páll Jóhannesson.


Í leik gegn Breiðabliki 2014. Mynd: Páll Jóhannesson.